Mark 1.16-20

Jesús var á gangi með fram Galíleuvatni og sá Símon og Andrés, bróður Símonar, vera að kasta netum í vatnið en þeir voru fiskimenn. Jesús sagði við þá: „Komið og fylgið mér og mun ég láta ykkur menn veiða.“ Og þegar í stað létu þeir eftir netin og fylgdu honum.

Jesús gekk skammt þaðan og sá Jakob Sebedeusson og Jóhannes, bróður hans, og voru þeir einnig á báti að búa net. Jesús kallaði þá og þeir yfirgáfu Sebedeus föður sinn hjá daglaunamönnunum í bátnum og fylgdu honum.

Hugleiðing

Þegar Jesús gekk um á jörðinni, þá vakti hann athygli hvar sem hann fór. Hann bauð fólki að fylgja sér og læra hvernig væri rétt að lifa lífinu. Frásagan hér að ofan segir frá lærisveinunum Símon sem síðar var kallaður Pétur, Andrési bróður hans, ásamt bræðrunum Jakobi og Jóhannesi. Þeir voru allir fiskimenn þegar Jesús kemur til þeirra og bíður þeim að fylgja sér.

Í dag er oft talað að fylgja einhverjum á samfélagsmiðlum. Að fylgjast með hvað aðrir gera og segja. Sum ykkar fylgja örugglega einhverjum á Youtube og kannski eru önnur sem nota aðra samfélagsmiðla til að fylgjast með öllu því sem einhver annar gerir. Þau sem við fylgjum hafa áhrif á líf okkar, við vitum hvenær þau ætla að pósta næsta myndbandi, við pössum okkur á að missa ekki af neinu sem gerist.

En það eru ekki öll þau sem við fylgjum jafn góðar manneskjur. Sum leitast við að kenna okkur slæma siði og gefa okkur hugmyndir um að gera eitthvað sem er óæskilegt eða óhollt.

Þegar Pétur og Andrés, Jakob og Jóhannes ákváðu að fylgja Jesú, þá tóku þeir áhættu, þeir ákváðu að treysta því að þessi Jesús sem þeir höfðu heyrt um myndi gera lífið þeirra betra, myndi kenna þeim að lifa lífinu eins og Guð vildi.

Enn í dag bíður Jesús ungu fólki að fylgja sér. Jesús bíður þér að fylgja sér og læra af því sem Jesús gerði og sagði. Viltu taka áhættuna af því að segja JÁ?

Bæn

Jesús, kenndu okkur að fylgja þér. Jesús, hjálpaðu okkur að skilja og sjá hvort að þau sem við fylgjum á samfélagsmiðlum séu góðar fyrirmyndir. Gefðu okkur kjark til að fylgja ekki þeim sem geta skaðað okkur. AMEN.