Mark 10.46-52
Þeir komu til Jeríkó. Og þegar Jesús fór út úr borginni ásamt lærisveinum sínum og miklum mannfjölda sat þar við veginn Bartímeus, sonur Tímeusar, blindur beiningamaður. Þegar hann heyrði að þar færi Jesús frá Nasaret tók hann að hrópa
„Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!“ Margir höstuðu á hann að hann þegði en hann hrópaði því meir: „Sonur Davíðs, miskunna þú mér!“
Jesús nam staðar og sagði: „Kallið á hann.“
Þeir kalla á blinda manninn og segja við hann: „Vertu hughraustur, statt upp, hann kallar á þig.“
Blindi maðurinn kastaði frá sér yfirhöfn sinni, spratt á fætur og kom til Jesú.
Jesús spurði hann: „Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?“
Blindi maðurinn svaraði honum: „Rabbúní, að ég fái aftur sjón.“
Jesús sagði við hann: „Far þú, trú þín hefur bjargað þér.“
Jafnskjótt fékk hann sjónina og fylgdi honum á ferðinni.
Hugleiðing
Í þessari sögu er talað um Bartimeus. Blindan mann sem heyrir að Jesús sé að ganga fram hjá og byrjar að hrópa í von um að Jesús taki eftir honum.
Við lesum um fólkið sem finnst lætin í Bartimeusi óþægileg, eða kannski vandræðaleg. Það er komin frægur maður á svæðið og blindi betlarinn er með læti. Þau reyna að fá Bartimeus til að þegja, því þeim finnst það ekki passa að vera með læti í kringum Jesús.
Síðan erum við með Jesú, honum finnst hegðun Bartimeusar ekki vandræðaleg, hann skilur að Bartimeus hefur kannski ekkert annað tækifæri til að fá lækningu. Þegar Jesús heyrir hrópin, þá verður hann ekki vandræðalegur og þykist ekkert heyra, heldur þvert á móti, staldrar við og kemur til Bartimeusar. Við getum verið viss um að öll sem voru viðstödd gerðu ráð fyrir að Jesús myndi ganga að Bartimeusi, lækna hann og halda síðan áfram. En Jesús gerir svolítið annað. – Tókuð þið eftir hvað það var? – Já, Jesús spyr: „Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?“
Jesús gefur sér tíma til að tala við og hlusta á hvað það er sem Bartimeus vill. Auðvitað er líklegt að Jesús hefði getað giskað á hvert vandamálið var. En Jesús ber virðingu fyrir Bartimeusi og leyfir honum að segja sjálfum frá því sem Bartimeus vill að gerist. Stundum heldur fólk að það viti hvað er best fyrir aðra og gleymir að spyrja það hvers það þarfnist. – Hafið þið lent í því? – Jesús veit hvað er okkur fyrir bestu, en hann vonar og vill að við orðum það sjálf og til þess höfum við bænina.
Spurning
Hægt er að virkja börn og unglinga til að hugsa um söguna á ferskan hátt með spurningum eins og:
- Hefur þú einhvern tímann orðið vandræðaleg(ur) þegar þér finnst fólk í kringum þig gera eitthvað skrítið? Hvað gerðir þú?
- Hefur þú einhvern tímann lent í því að aðrir segist vita betur en þú, hvað þú þarft að gera?
- Hver ert þú í sögunni og af hverju?
Bæn
Góði Guð, hjálpaðu okkur að tala við þig og kærleiksríki Guð gefðu okkur kjark og þor til segja hvað okkur langar og hvers við þörfnumst. AMEN