Matt 7.24-27

[Jesús sagði:] Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni er byggði hús sitt á bjargi. Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi en það féll eigi því það var grundvallað á bjargi.

En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni er byggði hús sitt á sandi. Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll og fall þess var mikið.“

Þegar Jesús hafði lokið þessari ræðu varð mannfjöldinn djúpt snortinn af orðum hans því að hann kenndi eins og sá er vald hefur og ekki eins og fræðimenn þeirra.

Hugleiðing

Jesús hafði staðið lengi og kennt fólkinu sem hafði safnast í kringum hann. Saga Jesú um mennina tvo sem byggðu hús, er líkingasaga. Maðurinn sem byggir hús sitt á bjargi er sá sem hlustar á orð Guðs, veltir þeim fyrir sér og leitast við að fylgja vilja Guðs. Þegar erfiðleikar  koma upp, þá höfum við stuðning frá Guði til að takast á við það sem upp kemur.

Maðurinn sem byggir hús án þess að hafa góðan grunn, hefur lítið eða ekkert til að styðjast við þegar erfiðleikar koma upp. Hann hefur ekki þann stuðning eða skilning sem þarf til að takast á við það sem gerist.

Til umræðu

Hvað annað en Guð getur verið grunnur í lífinu okkar sem við treystum á?

Bæn

Góði Guð, vertu bjargið okkar og hjálpaðu okkur að treysta á að þú sért alltaf með okkur. AMEN.