Hjálpargögn: Sælgæti í mörgum litum, helst innpakkað (brjóstsykur, konfektmolar o.s.frv.).
Undirbúningur
Gakktu með sælgætið á milli þátttakenda og leyfðu þeim að velja sér einn mola. Ef viðkomandi er lengi að finna sér mola má gera góðlátlegar athugasemdir við valið.
Galatabréfið 3.26-29
Með því að trúa á Krist Jesú eruð þið öll Guðs börn. Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú. Ef þið eruð í samfélagi við Krist þá eruð þið niðjar Abrahams og erfið það sem honum var heitið.
Hugleiðing
Við fengum okkur sælgæti hér áðan. það er gaman að sjá að flest í hópnum eiga sér eftirlætismola. þið völdu ykkur þann mola sem ykkur finnst bestur, óháð vali annarra. En við nálgumst ekki bara sælgæti á þennan hátt.
Við nálgumst líka stundum fólk á þennan hátt. Sum líkar okkur við en annað ekki. Hvað sælgætismolann varðar, þá þekkið þið sjálfsagt flest innihaldið á bak við umbúðirnar.
Þegar kemur að fólki er hætt við að við komumst aldrei lengra en að umbúðunum. Við myndum okkur skoðun á lit bréfsins, áferð þess eða stærð. Við komumst aldrei að hinu raunverulega innihaldi.
Guð kennir okkur í gegnum son sinn Jesús Krist að öll erum við dýrmæt, mikilvæg og falleg í augum Guðs. Það sem meira er, Guð segir okkur að horfa á aðra og leitast við að sjá Jesú. Guð kennur okkur að allt sem við gerum öðrum, það gerum við gagnvart Guði.
Frammi fyrir Guði er enginn gyðingur eða grikki, karl eða kona. Ef Guð sem skapaði okkur getur horft jafn á alla. Hver erum við þá að draga í dilka?
Bæn
Drottinn hjálpaðu okkur að sjá aðra með þínum augum og meta alla jafnt. Amen
Aðlagað úr fræðsluefni þjóðkirkjunnar fyrir unglingastarf veturinn 2001-2002.