1Kon 3.16-28

Einu sinni komu tvær portkonur og gengu fyrir [Salómon] konung. Önnur þeirra sagði: „Með leyfi, herra minn. Þessi kona og ég búum í sama húsi og ég fæddi þar barn í viðurvist hennar. Á þriðja degi frá því að ég fæddi eignaðist þessi kona líka barn. Við vorum þar saman, enginn var með okkur í húsinu, við vorum þar tvær einar. En sonur þessarar konu dó um nóttina af því að hún hafði lagst ofan á hann. Hún reis þá upp um miðja nótt, tók son minn frá mér á meðan ég, ambátt þín, svaf og lagði hann við brjóst sér en dáinn son sinn lagði hún við brjóst mér. Ég fór á fætur um morguninn til þess að gefa syni mínum brjóst en þá sá ég að hann var dáinn. En þegar ég skoðaði hann nánar í dagsbirtunni sá ég að þetta var ekki sonur minn sem ég hafði fætt.“ Hin konan sagði: „Nei, það er sonur minn sem er lifandi en þinn sonur er dáinn.“ „Nei, það er sonur þinn sem er dáinn, sonur minn er lifandi,“ svaraði sú fyrri. Þannig rifust þær frammi fyrir konungi.

Þá sagði konungur: „Önnur ykkar segir: Það er sonur minn sem er á lífi en sonur þinn sem er dáinn. En hin segir: Þinn sonur er dáinn en minn er á lífi.“ Og hann hélt áfram: „Færið mér sverð.“ Þegar sverð hafði verið sótt sagði konungur: „Höggvið barnið, sem lifir, í tvennt og fáið hvorri sinn helming.“ Þá sagði konan, sem átti lifandi barnið, við konunginn því að móðurástin brann í brjósti hennar: „Æ, herra minn! Fáðu henni barnið sem lifir, láttu ekki deyða það.“ En hin sagði: „Það er best að hvorki ég né þú fáir það. Höggvið barnið í tvennt.“

Konungur svaraði og sagði: „Fáið hinni konunni barnið sem lifir og deyðið það ekki því að hún er móðir þess.“

Er allir Ísraelsmenn heyrðu um dóminn, sem konungurinn hafði kveðið upp, fylltust þeir lotningu fyrir honum því að þeir skildu að guðleg viska bjó í brjósti hans þegar hann kvað upp dóma.

Hugleiðing

Þessi hugleiðing hefur ekki virkað vel í barnastarfi. Önnur nálgun væri að beina sjónum alfarið að visku Salómons og sem guðlegri visku.

Hvernig vitum við hvað er rétt og rangt? Hvernig þekkjum við vilja Guðs?

Í íslensku er til hugtak sem byggir á sögunni sem þið heyrðuð, hugtakið er Salómonsdómur. Sumir telja að það sé dómur, sem fer bil beggja, en enginn er raunverulega ánægður með. Í sögunni væri það dómurinn um að skera barnið í tvennt.

Hins vegar telja sumir að Salómonsdómur eigi við um það að leysa á réttan og sanngjarnan hátt úr flóknum vandamálum. Hvað finnst ykkur?

Sagan sem við heyrðum úr Biblíunni í dag á að minna okkur á að við höfum fengið visku að gjöf frá Guði til að gera það sem rétt er. Við erum kölluð til að standa með elskunni og umhyggjunni þegar deiluefni koma upp.

Bæn

Guð, hjálpaðu okkur að sýna ást og væntumþykju í öllu sem við gerum. AMEN.