Ein er sú spurning sem við öll stöndum frammi fyrir en það er spurningin um hver Jesús er. Það er stundum feimnismál að viðurkenna skoðun sína á því hvern maður telur Jesú vera. Spurningin er ekki ný og í Lúkasarguðspjalli finnum við frásögn af því þegar Jesús spurði lærisveina sína hvað fólk segði um hann. Af svari lærisveinanna að dæma var fólk þá með ýmsar hugmyndir, líkt og nú. Þeir svöruðu: „Jóhannes skírara, aðrir Elía og aðrir að einn hinna fornu spámanna sé risinn upp.“ (Lúk. 9.19)

Þá spurði Jesú lærisveinanna: „En þið, hvern segið þið mig vera?“ Og Símon Pétur, einn af lærisveinunum svaraði: „Krist Guðs.“ (Lúk. 9.20)

Það þarf ákveðið hugrekki í dag, 2000 árum seinna að viðurkenna að maður trúi því að Jesús sé sá sem hann sagðist vera. En milljónir manns um allan heim vitna samt um þá trú. Þá sannfæringu að Jesús Kristur sé sonur hins lifandi Guðs og að hann hafi dáið á krossinum fyrir okkar syndir og risið upp á þriðja degi og lifi enn í dag.

Bono söngvari Bresku hljómsveitarinnar U2 var í sjónvarpsviðtali fyrir nokkru spurður þessarar sömu spurningar. Hvern segir þú Jesú vera. Við skulum sjá hvaða augum hann lítur þetta.

Í raun segist þáttastjórnandinn vera að spyrja hann um Guð og þá segir Bono að það sé í gegnum Jesú Krist sem hann fær skilið Guð. Og þegar hann biður bæna, þá biður hann til Jesú og hann biður að hann fái séð hver sé vilji Guðs, en hann leggur á það áherslu að bænirnar séu ekki eitthvað orðaskrúð, heldur bara frá hjartanu að þakka Guði og leggja í hans hendur allt sem veldur okkur áhyggjum og þá sem eru okkur kærir.

Og svo kemur að spurningunni og Bono bendir réttilega á að akkurat þessi spurning, hún skilgreinir okkur sem kristin, ef við viðurkennum Jesú sem frelsara okkar, son Guðs, Krist. Það er ekki nóg að segja bara, Jesú var mikill kennimaður eða hugsuður. Jesús sagðist vera Messías, sonur Guðs, kominn til að frelsa  okkur frá syndum og annað hvort var hann það, eða þá að hann var snarklikkaður. Og Bono er ekki í vafa um að áhrif Jesú á fortíð og nútíð er svo stórkostleg og hefur breytt lífi milljóna manns þannig að það getur ekki verið að hann hafi verið snarklikkaður, nei hann var sá sem hann sagðist vera.