Markmið
Að börnin viti að Guð er ávallt með okkur. Við getum hvílt örugg í trausti á hann. Hann er með okkur þegar við göngum í gegnum erfiða tíma.
Biblíuvers
Drottinn fer sjálfur fyrir þér, hann verður með þér. Hann mun hvorki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig. Óttastu ekki og láttu ekki hugfallast. (5. Mós. 31:8)
Jesús stillir storminn
– Lúk. 8:22-25
Þegar Jesús var hér á jörðinni fór hann víða, flutti fagnaðarerindið um Guðsríki, kenndi fólkinu og læknaði menn og konur. Dag einn eftir að hafa verið með fólkinu fór hann út á bát með lærisveinum sínum til að sigla yfir um Galíleuvatn. Þegar þeir voru komnir nokkuð á leið þá kom óveður. Stormurinn geisaði og báturinn vaggaði. Veðrið versnaði og versnaði og báturinn tók að fyllast af vatni. Lærisveinar Jesú urðu mjög hræddir og hlupu til Jesú sem hafði lagt sig á bátnum. Þeir vöktu hann og sögðu: „Meistari, meistari, við eigum eftir að deyja, er þér alveg sama? ,,Hjálpaðu okkur.“ Ætli Jesú hafi verið alveg sama um þá? Nei, Jesús stóð upp, sagði vindinum að þegja og hafa hljótt um sig. Um leið gerði stillilogn. Þá spurði Jesú: „Hvers vegna voruð þið hræddir, hafið þið enga trú?“ En lærisveinarnir urðu steinhissa og sögðu: „Hver er þessi maður? Meira að segja vindur og vatn hlýða honum.“ Þeir höfðu eflaust séð margt til Jesú áður og átt að treysta því að hann myndi hjálpa þeim en þeir undruðust samt að vindurinn og vatnið hlýddu honum einnig. Þetta var enn ein staðfestingin á því að hann væri sonur Guðs.
Samantekt og umræður
Hvernig ætli það sé að vera í þannig aðstæðum að maður ráði ekkert við eitt eða neitt? Hvernig ætli það hafi verið fyrir lærisveinana að sigla á bátnum, missa alla stjórn á honum og sjá hvernig báturinn smátt og smátt fylltist af vatni? Lærisveinarnir höfðu fylgt Jesú og séð hvers megnugur hann var. En engu að síður urðu þeir hræddir. Það er alveg eðlilegt að vera hræddur í aðstæðum sem við getum ekki stjórnað. En Jesús var alveg rólegur. Hann svaf meira að segja.
Stormurinn í sögunni táknar erfiðleika. Hann minnir okkur á það að lífið getur oft verið erfitt og við lendum í aðstæðum sem okkur finnst við ekki geta tekist á við. Þá verðum við oft hrædd og óörugg. En við gleymum þá, líkt og lærisveinarnir í sögunni, hver er með okkur á siglingunni? Svefn Jesú getur einmitt táknað traust. Hann sýnir okkur hvernig við getum verið örugg og hvílt í trausti til Guðs. Hann hefur lofað okkur því að vera alltaf með okkur og leiða okkur í gegnum erfiðleikana svo við þurfum ekki að gera annað en að leggja traust okkar á hann. Því miður er ekki hægt að lofa neinum því að hann komist áfallalaust í gegnum lífið. En þá er líka gott að eiga Guð að, sem leiðir mann í gegnum lífið, sama hvað bjátar á.
Bæn
Vertu Guð faðir