Markmið

  • Að börnin átti sig á því að í öllu okkar líferni þurfum við að fylgja reglum. Guð setur okkur reglur sem eru leiðbeinandi, þær finnum við í Biblíunni. Einnig fáum við leiðbeiningar í gegnum bænina.
  • Guð svarar bænum eins og er okkur fyrir bestu og setur okkur reglur eins og gott foreldri setur börnum sínum, þeim til varnar og heilla.

Biblíuvers

Jesús segir: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins. (Matt. 8:12)

Herskip í hættu

– Þýð: Auður Pálsdóttir

Úti var svarta myrkur og þétt þokan lá yfir haffletinum. Skipstjórinn sigldi stóru herskipi sínu varlega og tók engar áhættur. Hann mændi út yfir stafnið og útí myrkrið til að koma auga á hugsanlegar hættur. Hjarta hans tók kipp þegar hann sá glitta í ljóstýru beint framundan. Þetta leit út fyrir að vera stórt skip sem stefndi beint á herskipið.

Til að koma í veg fyrir stórslys flýtti hann sér í talstöðina og sendi hinu skipinu viðvörun. „Þetta er Jeremiah Smith skipstjóri.“ Rödd hans snarkaði í talstöðinni þegar hann fyrirskipaði hinum skip-stjóranum að snúa skipinu 10 gráður til suðurs.

Jeremiah til mikillar furðu virtist ljósið ekki hörfa. Þess í stað heyrðist í talstöðinni, „Herra Smith, þetta er óbreyttur Thomas Johnson. Vinsamlegast beygið 10 gráður til norðurs!“

Jeremiah blöskraði lítilsvirðingin sem honum var sýnd og hann kallaði til baka, „Óbreytti Johnson, þetta er Smith skipstjóri og ég skipa þér að breyta stefnu þinni um 10 gráður til suðurs án tafar!“

Enn var ljósið á sínum stað og allt stefndi í árekstur. Þá heyrðist rödd óbreytts Johnsons aftur í talstöðinni, „Með fullri virðingu herra Smith, skipa ég yður að beygja 10 gráður til norðurs.“

Smith skipstjóri var orðinn æfur af reiði yfir þessum óbreytta sjóliða sem stefndi lífi áhafnar hans í hættu. Hann kallaði aftur í talstöðina, „Óbreytti Johnson, ég get kært þig fyrir þessa ósæmilegu hegðun. Í síðasta sinn skipa ég þér í nafni yfirvalda að beygja 10 gráður til suðurs. Ég er á herskipi.“

Smith skipstjóri fölnaði þegar hann heyrði lokasvar óbreytts Johnsons, „Kæri herra Smith. Enn og aftur, með fullri virðingu, bið ég yður að beygja 10 gráður til norðurs. Ég er í vita.“

Samantekt og umræður

Eitt af því sem við getum lært á þessari sögu er að reglur geta verið mjög mikilvægar.

Reglur hafa verið settar til að auðvelda okkur daglegt líf. Hvernig væri til dæmis að ferðast um á götum ef enginn færi eftir umferðarreglunum?

Leiðbeiningar kristinna manna koma úr Biblíunni. Þar kennir Guð okkur hvað er rétt og rangt, auk þess sem hann sendir okkur heilagan anda sinn, sem gefur okkur skilninginn (Jóh. 16:13).

Hlutverk heilags anda er að starfa til uppbyggingar og einingar í samfélagi kristinna manna.

Verk heilags anda, ávextir andans, valda ekki niðurrifi og sundrungu, heldur skapa kærleika, gleði, frið, gæsku, góðvild og langlyndi, trúmennsku, hógværð og bindindi (Gal. 5:22-23).

Mörg okkar bera litla sem enga virðingu fyrir yfirvaldi. Við hegðum okkur eins og hægt sé að aðlaga lög og reglur að okkar eigin vilja, okkar þörfum og okkar löngunum. Auglýsingarnar hvetja okkur áfram á þeirri leið: „Hafðu hlutina eins og þú vilt.“

Auðvitað getum við ekki alltaf haft hlutina eins og við viljum. Við getum ekki verið eins og Palli sem var einn í heiminum. Við þurfum að laga okkur að þeim reglum sem gilda, fara eftir sömu reglum og aðrir. Annars getur farið illa.

Sannleikur Guðs er eins og viti. Hann haggast ekki til að þóknast okkur. Það erum við sem þurfum að breytast og aðlagast því sem Guð hefur í hyggju fyrir okkur. Við þurfum að fara eftir því sem Guð vill.

Jesús er líka eins og viti. Hann er ljósið sem við getum reitt okkur á. Þegar við hlustum á hann og gerum eins og hann vill þá farnast okkur vel eins og skipstjóranum, þegar hann loksins hlustaði á vitavörðinn og fór eftir því sem hann sagði.

En er víst að við skiljum leiðbeiningar sem Guð gefur okkur í orði sínu? Hver kennir okkur það sem við skiljum ekki nógu vel? Það gerir heilagur andi. Það er heilagur andi Guðs sem gefur skilninginn og kveikir trúna í hjörtum okkar. Þess vegna þurfum við stöðugt á honum að halda. Við þurfum ekki bara á fyrirgefningu Guðs að halda. Við þurfum hjálp anda Guðs til að lifa samkvæmt vilja hans, honum til dýrðar og náunganum til nytsemdar. Þess vegna verðum við daglega að biðja Guð um að skapa í okkur hreint hjarta og gefa okkur nýjan stöðugan anda (Sálm. 51:12-15).

Bæn

Bænin má aldrei bresta þig