Upphafsbæn
Vertu Guð, faðir, faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn,
svo allri synd ég hafni.

Minnisvers
Ég geymi orð þín í hjarta mínu svo að ég syndgi ekki gegn þér. Sálm. 119:11.

Aðalatriði
Hvernig get ég gert huga minn og hjarta móttækileg fyrir orði Guðs, svo að það nái að festa þar rætur og hafa áhrif á mig? Hvernig get ég varðveitt orð Guðs í hjarta mínu? Það er í rauninni sú spurning sem mestu skiptir. Það getur verið gott að lesa Guðs orð reglulega. Þannig nær það að festa rætur í huga okkar og bera ávöxt. Læra minnisversin sem afhent eru á hverjum fundi.

Hugleiðing – Matt. 13:3-23
Dæmisögur eru einfaldar sögur sem notaðar eru til að útskýra flóknari hluti. Jesús talaði oft í dæmisögum við mannfjöldann til þess að útskýra Guðs ríki og starf sitt á jörðinni svo fólkið skildi hann betur. Hann notaði líkingar úr daglegu lífi fólksins.

Ein þekktasta dæmisaga Jesú er um sáðmanninn sem fór út að sá fræi. Hann dreifði frækornunum. Sumt af því sem hann dreifði féll í götuna þar sem stigið var á það og fuglarnir komu og átu það. Annað féll á klöpp þar sem var lítill jarðvegur og enginn raki svo það skrælnaði í þurrki og dó og sumt féll innan um illgresið sem kæfði það. Enn annað féll í góðan jarðveg og það óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt. Þegar Jesús hafði sagt þessa dæmisögu sagði hann: „Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri.“

Lærisveinarnir skildu ekki alveg hvað Jesús átti við með dæmisögunni um sáðmanninn og báðu Jesú að útskýra hana fyrir sér. Jesús gerði það og er þetta líklega eina dæmisagan sem hann túlkar sjálfur. Fræið er orð Guðs sem ber ávöxt í hjörtum mannanna. Það sem féll í götuna og fuglarnir átu merkir þá sem heyra Guðs orð en orðið nær ekki að bera ávöxt vegna þess að hinn vondi kemur og tekur það í burtu. Fræið sem féll á klöppina og skrælnaði merkir þá sem taka orðinu með fögnuði en hafa enga rótfestu þannig að þegar á móti blæs fýkur orðið í burtu. Fræið sem fellur á meðal illgresis merkir þá sem heyra orðið, trúa fyrst, en láta áhyggjur eða unaðssemdir lífsins kæfa trúna í hjarta sér. En fræið sem féll í góða jörð merkir þá sem heyra Guðs orð, geyma það í hjarta sér og rækta trúna. Orðið ber ávöxt, bæði í lífi þeirra sjálfra og annarra vegna þess að þeir segja líka öðrum frá Jesú.

Umræðupunktar

  • Fáið fram umræðu með krökkunum um merkingu dæmisögunnar.

Aukaefni/verkefni

  • Hægt að sá fræjum í 3 mismunandi potta (skyrdósir), sú fyrsta með steinum, önnur með grasi/stráum og sú þriðja með mold. Fylgjast svo með pottunum á næstu fundum og sjá hvernig fræin sem eru í moldinni vaxa. Hægt að ræða hvað þurfi til að þau vaxi (muna að vökva)
  • Hægt er að föndra hjartalaga vasa sem á stendur: „Ég geymi orð þín í hjarta mínu“ og setja minnisvers hvers fundar í hjartað (má nálgast efnið á Holtavegi)