Upphafsbæn
Vertu Guð, faðir, faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn,
svo allri synd ég hafni.
Minnisvers
Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Mark. 16.6
Aðalatriði
Jesús dó á krossinum fyrir okkur, hann hefði getað sleppt því en hann dó fyrir syndir okkar svo að við getum eignast eilíft líf á himnum. Við getum þakkað Guði fyrir það að fórna syni sínum fyrir okkur með því að koma vel fram við annað fólk og láta gott af okkur leiða. Við skulum muna eftir Guði í okkar daglega lífi, því hann man eftir þér á hverjum degi.
Hugleiðing – það er hægt að velja 2 leiðir
- Lesa úr barnabiblíunni fyrir börnin – Fara síðan beint í aðalatriði – spurningar og lokaorð.
- Fara yfir atburðarrásina í síðustu vikuna í lífi Jesú og ýmsar staðreyndir varðandi alla dagana sem tengjast páskahátíðinni. Jesús var á leiðinni til Jerúsalem til þess að halda páska en Jesús var gyðingur.
Páskahátíð gyðinga var og er haldin í minningu þess að Ísraelsmenn flúðu frá Egyptalandi c.a. 1400-1300 f. Kr. Hátíðin er yfirleitt haldin í apríl (fyrsta fulla tungl eftir vorjafndægur). Á dögum Jesú var hefðin sú að allir gyðingar sem tök höfðu á áttu að fara til Jerúsalem að halda páska. Menn ferðuðust langar leiðir m.a. frá Afríku og Grikklandi.
Páskamáltíðin var haldin í minningu þess að áður en Ísraelsmenn héldu brott frá Egyptalandi borðuðu þeir páskalambið. Síðasta kvöldmáltíðin sem Jesús átti með lærisveinum sínum var einmitt þessi páskamáltíð.
Páskar kristinna manna- Kristnir menn minnast ekki frelsunar Ísraelsþjóðarinnar frá Egyptalandi á páskum, heldur minnumst við þeirra atburða sem gerðust þegar Jesús var krossfestur og sigraði dauðann.
Dymbilvika (kyrra vika) er síðasta vikan fyrir páska. Dymbill er trékólfur sem settur var í kirkjuklukkur síðustu vikuna fyrir páska (frá Pálmasunnudegi fram að Páskadegi) til þess að þær hljómuðu ekki eins skært.
Hvað gerðist í dymbilvikunni?
Börnin vita hvað gerðist á Páskunum- það er sniðugt að rifja upp með þeim atburðarásina. Athugið að hægt er að fara dýpra ofan í atburði dymbilviku með unglingum en sleppa frekar úr þegar talað er við yngri börn.
Pálmasunnudagur – Innreið Jesú í Jerúsalem ( Matt. 21:1-11)
– Jesús var á leiðinni til Jerúsalem til þess að halda páska. Hann kom ríðandi á asna inn í borgina, var honum fagnað af mannfjöldanum og fólkið dreifði klæðum sínum og pálmgreinum á götuna (þannig var konungum fagnað í þá daga).
Mánudagur – Hús mitt á að vera bænahús (Mark. 11:15-19)
– Þeir pílagrímar sem komu til musterisins höfðu ekki allir tök á að koma með dýr til fórnfæringar. En til þess að kaupa fórnardýr þurftu pílagrímarnir að skipta peningum í gyðinglega mynt. Mikið af mönnum unnu fyrir sér með því að stunda þessi viðskipti í musterinu. Þegar Jesús kom inn í musterið sá hann öll þau viðskipti sem þar fóru fram reiddist og sendi þá burt. Síðan kenndi hann þeim sem eftir voru Guðs orð.
Þriðjudagur – Þeir gáfu af alsnægtum sínum en hún af skorti sínum (Mark. 12:41-44)
– Jesús sat gegnt fjárhirslunni og horfði á fátæka konu gefa af því litla sem hún átti. Hann benti á að hún hefði gefið mun meira en hinir ríku.
Miðvikudagur – Júdas Ískaríot fór til æðstu prestanna (Mark 14: 10-11)
– Júdas Ískaríot hafði samband við æðstu prestana. Hann fékk 30 silfurpeninga fyrir að aðstoða þá við að handsama Jesú (30 silfurpeningar voru venjulegt verð fyrir þræl).
Fimmtudagur – Skírdagur – Síðasta kvöldmáltíðin (Matt 26:26-30)
– Jesús hafði safnað lærisveinum sínum saman til páskamáltíðar. Á þessum degi minnumst við upphafs hinnar heilögu kvöldmáltíðar, altarisgöngunnar. Nafn dagsins vísar til hreinsunarinnar (skír=hreinn s.b.r. skíragull). Áður en kvöldmáltíðin hófst þvoði Jesús fætur lærisveinanna þaðan kemur tilvísunin í hreinleikann.
Föstudagurinn langi – Jesús krossfestur (Mark. 15:6-42)
– Eftir að Jesús hafði verið yfirheyrður af Pontíusi Pílatusi var hann krossfestur á Golgata, Hauskúpustað.
Laugardagur – Hvíldardagur
– Á laugardeginum, sem var hvíldardagur gyðinga, földu lærisveinar Jesú sig. Þeir voru hræddir um að færi fyrir þeim eins og Jesú.
Sunnudagur – Páskadagur – Upprisa Jesú (Mark. 16:1-9)
– Á fyrsta degi vikunnar fóru María Magdalena og María hin að gröfinni til þess að smyrja líkama Jesú með smyrslum eins og venja var. Þegar þær komu að gröfinni var búið að velta steinunum frá grafarmunnanum og inni í gröfinni sat engill sem færði þeim þær fréttir að Jesús væri upprisinn og að hann mundi hitta lærisveina sína í Galíleu.
Eftir páska
Uppstigningardagur – Uppstigning Jesú (Post. 1:6-11)
– Er haldinn hátíðlegur 40 dögum eftir páska. Jesú var með lærisveinum sínum í 40 daga eftir upprisuna, samanber heimildir í guðspjöllunum og Postulasögunni. Á uppstigningardag reis Jesú upp til himna.
Hvítasunnan – Postulasagan 2:1-5
– Hvítasunnan er haldin hátíðleg 10 dögum eftir uppstigningardag. Þá minnumst við þess að Jesús fyllti lærisveina sína heilögum anda.
Lokaorð fyrir yngri deildir
Saga páskana er stundum kallað fagnaðarerindi en þá er átt við að Jesús fórnaði lífi sínu með því að deyja á krossinum svo að við getum átt eilíft líf. Þetta fagnaðarerindi eru merkilegustu fréttir sem að borist hafa manninum. Þær eru það merkilegar að það er enn verið að segja frá þeim núna um 2000 árum seinna.
Lokaorð fyrir unglingadeildir
Páskasagan er ástæðan fyrir því að kristin trú er fjölmennasta trúarbragð í heiminum í dag. Jesús sigraði dauðann á páskum og með því getum við eignast eilíft líf á himnum þegar ævi okkar líkur hérna á jörðinni. Gleðifréttir páskanna er ástæðan fyrir því að kristin trú er til í dag. Það að Jesús sonur Guðs hafi fæðst á jörðinni voru mikilvægar fréttir. En ef Jesús hefði ekki dáið og sigrað dauðann á páskum er það sem breytti öllu, þess vegna eru páskarnir taldir mikilvægasta hátíð kristinna manna.
Leikur
Klippa niður atburðarás páskanna á miða einn eða fleiri fá einn miða. Síðan eiga þau að raða sér niður í rétta röð eftir atburðarrás páskanna.
- Pálmasunnudagur
- Júdas svíkur Jesús – selur upplýsingar um hann fyrir 30 silfurpeninga
- Skírdagur – Jesús borðar síðustu kvöldmáltíðan með lærisveinunum og þvær á þeim fæturna.
- Föstudagurinn langi – Jesús krossfestur á Golgata
- Hvíldardagur – lærisveinarnir eru hræddir og fela sig.
- Páskadagur – konurnar koma að gröfinni og en finna ekki líkama Jesús – hann er upprisinn.
- Uppstigningardagur – Jesús reis upp til himna
- Hvítasunna – Jesús útdeilir heilögum anda til lærisveinanna.