Upphafsbæn
Vertu Guð, faðir, faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn,
svo allri synd ég hafni.
Minnisvers
Komið og fylgið mér og ég mun gera yður að mannaveiðurum. Matt. 4:19
Aðalatriði
Jesús kallar á menn til samfélags og eftirfylgdar við sig. Í Biblíunni er sagt frá Símoni Pétri sem var einn þeirra sem heyrði kall Jesú og ákvað að fylgja honum. Hann gerðist lærisveinn Jesú, og reyndi að læra af því sem hann kenndi.
Hvernig byrja ég?
Spyrja hópinn: Hvað þýðir að fara á mannaveiðar?
Svar: Mannaveiðar vísa til fiskveiða og í stað þess að veiða fisk fyrir menn til þess að borða, er verið að veiða menn fyrir Guð – að fá menn í netin til þess að segja þeim frá Jesú og gefa þeim tækifæri til þess að fylgja honum.
Biblíusaga – Þetta er saga úr Matteusarguðspjalli 13:47-50.
Við erum stödd við Genesaretvatn, sem var stærsta vatn í Ísrael. Það er helmingi stærra en Þingvallavatn. Við vatnið voru mörg þorp og margir sem stunduðu þar fiskveiðar á tímum Jesú. Jesús átti oft leið um strendur vatnsins og fólk þyrptist alltaf að honum til að hlusta á hann segja frá orði Guðs.
Eitt sinn þegar Jesús var að tala við fólkið lánaði maður að nafni Símon Pétur honum bátinn sinn svo hann ætti auðveldara með að tala í þessum mannfjölda. Þegar Jesús hafði kennt fólkinu bað hann Símon Pétur um að fara að veiða í vatninu. Símon Pétur sagði við Jesú að hann hefði reynt að veiða alla nóttina án árangurs og samt væri það besti tíminn til veiða. Það að Jesús skyldi bjóða veiðimönnunum að fara að veiða um hábjartan dag hljómaði undarlega í eyrum fólksins. Þarna var Jesús líklegast að reyna hvort Símon Pétur treysti honum og tryði því sem hann sagði. En Símon Pétur hlýddi Jesú því hann treysti honum. Símon Pétur og fiskimennirnir fóru frá landi og lögðu netin. Netin fylltust svo fljótt af fiski að þau fóru að rifna. Þá kallaði Símon Pétur á vini sína sem fylltu líka netin úr sínum bátum. Bátarnir sukku nánast því þeir veiddu svo mikinn fisk. Þegar Símon Pétur áttaði sig á þessu fann hann til smæðar sinnar, þarna sá hann að Jesús var ekki bara venjulegur maður, heldur hefur hann vald frá Guði til að kenna og gera kraftaverk.
Þetta kraftaverk Jesú hafði áhrif á alla þá sem voru við vatnið. Símon Pétur varð óöruggur og hálf hræddur. Honum fannst hann allt í einu ekki nógu góður til að vera nálægt Jesú. Hann bað Jesú um að fara í burtu frá sér því hann væri syndugur maður. Jesús sagði að Símon Pétur þyrfti ekki að vera hræddur því að Jesús elskar alla menn. Jesús hafði nýtt hlutverk í huga fyrir Símon Pétur. Héðan í frá átt þú að veiða menn en ekki fiska. Símon Pétur ákvað að yfirgefa allt og fylgja Jesú. Það var hópur lærisveina sem gerði það sama og Símon Pétur varð leiðtogi lærisveinahópsins. Þessir menn trúðu allir að Jesús væri sonur Guðs og frelsari heimsins.
Nú 2000 árum eftir að þessi atburður gerðist er Jesús enn að kalla fólk til fylgdar við sig. Hann kallar venjulegt fólk, konur og menn, börn og unglinga. Jesús vill að allir fylgi sér og hann treystir á þá sem trúa á hann að þeir kalli fleiri til fylgdar við sig. Hann hefur hlutverk handa öllum, hversu smá sem þau kunna að vera í okkar augum. Það skiptir máli að leggja eyrun við og skoða vel hvað Jesús hefur að bjóða. Hver og einn þarf svo að taka ákvörðun um hvort hann vilji fylgja Jesú. Því þegar við höfum ákveðið að fylgja Jesú höfum við gert hann að leiðtoga lífs okkar og reynum að lifa samkvæmt vilja hans.
Æðsta boðorðið er – Elska skaltu Drottinn Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum og elska skaltu náungann eins og sjálfan þig. Matt: 22.37-39.
Umræðupunktar fyrir yngri deildir
- Haldið þið að það hafa verið einfalt fyrir Símon Pétur að hlýða Jesú?
- Hver er munurinn á mannaveiðum og fiskveiðum?
Umræðupunktar fyrir unglingadeildir
- Haldið þið að Símon Pétur hafi verið hræddur við að taka sénsinn og hlýða Jesú?
- Hvernig heldur þú að að þú hefðir brugðist við að sjá þetta kraftaverk?
- Hvernig getum við verið mannaveiðarar og sagt frá Jesú núna árið 2014?
- Hvaða leiðir myndum við nota til þess?
Leikur -Fiskar í neti – hentar vel fyrir yngri deildir
Fáðu 2 sjálfboðaliða til að haldast í útréttar hendur. Þeir tákna fiskimenn með net. Börnin eru fiskar sem mega hlaupa um, á skilgreindu svæði. Krakkarnir reyna að forðast að lenda í netinu. Þegar merki er gefið byrja fiskimennirnir að hlaupa um og reyna að festa í netinu sínu sem flesta fiska. Mikilvægt er að leiðtogi fylgist vel með og skeri úr um hvenær einhver hefur verið veiddur og sendi hann þá á ákveðinn stað í salnum. Ef fiski hefur verið náð þá þarf hann að bíða næstu umferðar. Tilkynnið í upphafi hversu lengi leikurinn á að standa yfir. Teljið í lokin hversu mörgum fiskum var náð, hefjið síðan aðra umferð með öðrum fiskimönnum.