Upphafsbæn
Vertu Guð, faðir, faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn,
svo allri synd ég hafni.
Minnisvers
Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegi mínum. Sálm. 119:105
Aðalatriði
Biblían er vegvísir. Ef við ætlum að kynnst Guði þurfum við að lesa í Biblíunni eða hlusta á sögur úr henni.
Hvernig byrja ég?
Hafið gjarnan Biblíu með ykkur og flettið henni og takið dæmi um það sem er í henni.
Einnig gætuð þið verið búin að taka til í poka alls kyns bækur til að sýna, ljóðabækur, spennusögu, reglur, leiðarvísi, bréf o.s.frv. og talað um að í Biblíunni séu alls kyns bækur og mjög fjölbreytt efni, Biblían er eins og bókasafn.
Hugleiðing
- Biblían er safn trúarrita og orðið Biblía er grískt og merkir bækur.
- Biblían er eins og bókasafn því í henni eru 77 bækur.
- Allar bækurnar í Biblíunni hafa nöfn og sum þeirra gefa til kynna hvert efni þeirra er eins og t.d. Konungabækurnar, Sálmar Davíðs og Opinberunarbókin. En flestar þeirra bera nöfn þeirra sem taldir eru vera höfundar þeirra eins og t.d. guðspjöllin fjögur Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes.
- Það er ekki einn höfundur sem skrifar Biblíuna eins og vanalegt er með bækur heldur margir og hún er skrifuð á löngum tíma.
- Bækurnar í Biblíunni voru skrifaðar fyrir meira en 1500 árum. Efninu var safnað saman og sett í eina bók.
- Biblían er metsölubók því að á síðustu 150 árum hafa verið prentuð 1.6 billjónir eintaka og hún hefur verið þýdd á fleiri en 3000 tungumál.
- Biblían er mikilvægasta trúarbók kristinna manna. Menn styrkjast í trú sinni með því að lesa hana og hún hefur mikil áhrif á fólk.
- Biblían skiptist í tvo aðalhluta, Gamla testamentið og Nýja testamentið. Í Gamla testamentinu eru 50 bækur en í Nýja testamentinu eru 27 bækur. Samtals 77 bækur.
Sniðugt að sýna muninn á þykktinni á Gamla Testamentinu og Nýja Testamentinu.
Í Gamla testamentinu er fjallað um sköpun jarðar, upphaf mannfólksins, syndaflóðið, lögmálið, frelsun Ísraels og fólks hans frá Egyptalandi, afhendingu boðorðanna 10 og sýnir og vitranir spámannanna, þar er líka að finna ýmsa speki og sálma. Í Gamla Testamentinu er að finna marga spádóma og m.a. spádóma um fæðingu Jesú. Nýja testamentið fjallar svo um Jesú, fæðingu hans, lærisveina hans, krossfestingu hans og upprisu. Því næst fylgja mörg bréf sem send voru af lærisveinunum til safnaða og hópa af fólki rétt eftir að Jesús hafði risið upp frá dauðum og stigið til himna. Að lokum spádómsbók um endalok heimsins.
Biblían sýnir okkur Guð og bendir okkur á Jesú Krist.
Biblían er orð Guðs og er leiðarvísir um lífið sem Guð hefur gefið okkur. Í Biblíunni lofar Guð okkur eilífu lífi ef við játum trú á hann. Í Biblíunni sjáum við vilja hans. Biblían notar margs konar líkingar til að lýsa gildi Guðsorðs.
Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegi mínum. Sálm. 119:105
Orð Guðs (Biblían) er eins og ljós. Ef við höfum ekki ljós er erfitt að athafna sig. Því þurfum við Biblíuna til að leiðbeina okkur í lífinu, hún er eins og vegvísir sem leiðbeinir okkur um hvað er rétt og hvað er rangt. Biblían segir okkur hvað Guð vill. Við þurfum því að hlusta vel á orðið, lesa sjálf í Biblíunni og fara eftir því sem við lesum og heyrum.
Ljósið tekur myrkrið í burt svo við dettum ekki. Guð býr í ljósinu og hið vonda starfar í myrkrinu, þetta er líking sem er notuð í Biblíunni til að greina á milli hins vonda og góða. Orð Guðs hjálpar til að gera hið góða, forðast það sem er rangt.
Að lesa Biblíuna tekur alla ævina, hana þarf ekki að lesa frá blaðsíðu 1 – 100 eða klára á ákveðnum tíma til að geta lesið næstu bók. Margir lesa Biblíuna aftur og aftur og eru alltaf að læra eitthvað nýtt. Það er sniðugt að lesa Barnabiblíuna til þess að fá yfirsýn.
Myndasaga
Sjónarhorn Biblíunnar – Smelltu hér til að nálgast myndaglærurnar á pdf-formi.
Við fyrstu sýn virðist Biblían vera venjuleg bók. En það er hægt að skoða hana frá hinum ýmsu sjónarhornum.
- Mynd 1 – Það er hægt að skoða Biblíuna með sjónauka og skoða hvernig lífið var í gamla daga. Það er hægt að sjá í hvernig húsum fólkið lifði, hvað það borðaði, hvernig skipulag þjóðfélagsins var, hver stjórnaði og hver voru réttindi fólks.
- Mynd 2 – Það er líka hægt að hlusta á Biblíuna. Hvaða skilaboð færir Biblían okkur? Til dæmis, tvöfalda kærleiksboðorðið sem segir „Elska skalt þú Drottinn, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Matt. 22:37-39.
- Mynd 3 – Biblíuna má líka nota sem verkfæri í okkar lífi. Það er margt í Biblíunni sem að við getum notað í okkar daglega lífi, t.d. boðorðin tíu.
- Mynd 4 – Í Biblíunni mætir Jesús Kristur okkur, sem frelsari. Hann elskar okkur eins og við erum og vill okkur fyrir bestu.
- Mynd 5 – Í raun ættum við að nota öll þessi sjónarhorn þegar við lesum Biblíuna.
Umræðupunktar yngri deildir
- Hversu margir hafa skoðað Biblíuna?
- Vissir þú að það voru margir sem skrifuðu Biblíuna?
Umræðupunktar eldri deildir
- Hvað dettur þér fyrst í hug þegar þú heyrir orðið Biblía?
- Fagnaðarerindið er að Jesús dó fyrir syndir okkar og fyrir hans náð getum við fengið eilíft líf.
Á Efnisveitu KFUM og KFUK
Hugmyndir
- Koma með Biblíur nýjar og gamlar til að sýna þeim.
- Fá sett af Nýja testamentum á Holtaveginum og kenna þeim að fletta.
- Liðakeppni að fletta upp ritningarversum.