Atburður þessi gerðist á Ítalíu þegar appelsínutrén stóðu í blóma og vínviðurinn teygði sig upp hlíðar fjallanna. Múrari nokkur var að störfum í útjaðri þorps nokkurs. Hann var að hlaða vegg. Kona ókunnug var þar á ferð. Hún kom að múraranum, heilsaði honum vingjarnlega og þau töluðu saman nokkra stund um heima og geima. Konan tók þá upp ítalska Biblíu og ætlaði að seljamúraranum hana. Múrarinn sneri sér þá undan með fyrirlitningu. Hann kærði sig ekkert um þessa bók. Hann hafði enga þörf fyrir að lesa hana.
Konan vann að því að dreifa Biblíum og hún lagði nú fast að múraranum að taka við henni. Konan bauðst til að gefa honum bókina til að hann tæki frekar við henni. Hún skrifaði nafn hans fremst í Biblíuna og færði múraranum. Að því loknu kvaddi konan en hún hvatti hann til að lesa í Biblíunni.
En múrarinn var ekki á því. Biblíunni hafði verið þröngvað upp á hann og hann ætlaði að losa sig við hana. Hann fékk góða hugmynd um það hvernig hann gæti losað sig við Biblíuna á augabragði. Hann glott, svo ánægður var hann með hugdettu sína. Múrarinn losaði nokkra steina úr veggnum sem hann var að hlaða, stakk Biblíunni í vegginn og múraði yfir. Nú var bókin vel geymd, hann var laus við Biblíusölukonuna og Biblían ætti aldrei eftir að verða lesin. Deginum var bjargað.
*
Mörg ár liðu.
Múrarinn var löngu hættur að hugsa um Biblíuna enda búinn að gleyma atburðinum þegar hann múraði Biblíuna inn í vegginn. En dag einn mætti hann Biblíusala, allt öðrum og á nýjum stað. Sá vildi auðvitað selja honum Biblíu. En múrarinn var fljótur að afþakka hana núna. Hann sagðist eitt sinn hafa eignast Biblíu en þar sem henni hefði verið troðið inn á sig hafi hann losað sig við hana þar sem enginn gæti fundið hana; ekki einu sinni sá vondi.
Biblíusalanum brá við þessi orð og dró Biblíu upp úr töskunni sinni. Hann opnaði hana, sýndi múraranum og spurði hvort hann kannaðist nokkuð við nafnið sem þar stóð. Múraranum brá heldur en ekki í brún. Þetta var þá Biblían sem merkt var honum. Hann hrópaði upp yfir sig af undrum og spurði Biblíusalann hvernig hann hefði eignast hana.
Nú varð Biblíusalinn að segja sögu sína:
Fyrir nokkrum árum hafði orðið jarðskjálfti í þorpinu sem múrarinn hafði hlaðið vegginn forðum. Þessi maður gekk þá um og skoðaði verksummerki; athugaði hvaða veggir væru ónýtir og hverjir heilir. Þá heyrði hann allt í einu holhljóð þar sem hann bankaði í einn vegginn. Hann varð forvitinn og hélt að ef til vill hefði hann fundið falinn fjársjóð. Fjársjóðurinn reyndist vera Biblían sem kom í ljós þegar veggurinn var rofinn.
Þetta vakti forvitni mannsins svo að hann tók Biblíuna með sér heim og fór að lesa í henni. Það varð til þess að maðurinn lærði að þekkja Jesú og eignaðist trú á hann. Upp frá því gerðist maðurinn Biblíusali þar sem hann hafði eignast löngun til að breiða út Orð Guðs, Biblíuna. Hann trúði múraranum fyrir því að hann væri búinn að lesa Biblíuna mikið og að hún væri stórkostleg bók.
Forvitni múrarans var vakin. Honum fannst þetta undarlega saga og spurði nú Biblíusalann hvort hann mætti nokkuð eiga Biblíuna, enda merkt honum. Biblíusalinn brosti. Hann gat ekki neitað manninum um Biblíuna sem merkt var honum. Og í hljóði þakkaði Biblíusalinn Guði fyrir handleiðslu hans.
Múrarinn fór heim með Biblíuna sína og fór að lesa í henni. Hann kynntist nú af eigin raun Jesú Kristi. Biblían varð upp frá þessu honum kær því að með því að lesa í Biblíunni fann hann frelsarann, Jesú Krist. Múraranum varð ljóst að það var Guð sjálfur sem kom því til leiðar að Biblían komst aftur í hans hendur.
Höfundur ókunnur en saga þessi birtist fyrst á prenti í Tímaritinu Ljósberanum árið 1954, 34. Árgangur, 8. tölublað.