„Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt. Sá sem elskar líf sitt glatar því en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi mun varðveita það til eilífs lífs.“ Jóh 12.24 – 25
Keisari nokkur í Austurlöndum nær var orðinn mjög gamall og sá hann fram á að valdatíma hans myndi brátt ljúka. Í stað þess að velja eitt barna sinna eða einhvern úr hópi aðstoðarmanna sinna sem arftaka sinn ákvað hann að kalla saman öll ungmenni ríkisins. Hann tilkynnti að hann myndi brátt setjast í helgan stein og láta af völdum. „Ég þarf að finna rétta arftakann og hef ég ákveðið að velja eitt ykkar.“ sagði gamli keisarinn. Allt unga fólkið í ríkinu var furðu lostið yfir þessari yfirlýsingu keisarans, sem hélt áfram ræðu sinni og sagði: „Ég ætla að gefa hverju og einu ykkar frækorn. Þetta er afar sérstakt frækorn. Ég vil að þið takið það heim með ykkur, gróðursetjið og annist það. Að ári liðnu munu þið koma aftur til hallarinnar og færa mér afraksturinn. Og ég mun velja eitt ykkar sem arftaka minn.“
Eitt ungmennanna, Ling, hlýddi á keisarann. Hann fór heim til sín og sagði móður sinni frá því sem keisarinn hafði sagt. Mamma Lings færði honum blómapott og pottamold. Hann gróðursetti frækornið og vökvaði það vandlega. Hann annaðist vel frækornið og vökvaði það hvern dag. Að þremur vikum liðnum fóru ungmenni í ríkinu að tala um frækornin sín og plönturnar sem voru byrjaðar að vaxa. Ling fylgdist með frækorninu sínu alla daga, en ekkert gerðist. Þrjár vikur liður, fjórar vikur og síðan fimm. Enn hafði ekkert vaxið. Nú voru öll ungmennin í ríkinu að tala um plöntuna sína, en Ling hafði enga plöntu til að segja frá. Honum hafði mistekist algjörlega og klúðrað tækifæri sínu til að verða keisari. Að sex mánuðum liðnum hafði enn ekkert vaxið og það eina sem Ling sá var pottur fullur af mold. Flest hinna ungmennanna áttu orðið tré, blóm eða aðrar fallegar plöntur, en Ling hafði ekkert nema pott af mold.

Að ári liðnu færðu öll ungmenni ríkisins keisaranum plöntur sínar. Ling ætlaði ekki að fara til hallarinnar til þess eins að láta alla hlæja að sér. Eftir hvatningu móður sinnar lét Ling sig hafa það að fara til hallarinnar. Þegar hann kom til hallarinnar sá hann að allir aðrir voru með tilkomumiklar og fallegar plöntur. Hann lagði pottinn sinn við hlið þeirra og uppskar hlátur viðstaddra. Örfáir fundu til með honum, hughreystu hann og sögðu: „Góð tilraun.“ Ling skammaðist sín svo að hann hélt sig baka til í salnum. Þegar keisarinn kom inn í salinn sagði hann: „Ó‘ hvað þetta eru falleg blóm. Sannarlega mun eitt ykkar verða keisari í dag!“ Skyndilega var keisaranum litið á Ling aftast í salnum með tóman pott. Hann skipaði vörðum sínum að færa Ling til sín. Ling varð hræddur því nú vissi keisarinn að honum hefði mistekist. Keisarinn horfði á Ling og leit yfir ungmennahópinn og sagði: „Hér stendur næsti keisarinn ykkar!“ Ling trúði þessu ekki , hvernig gat hann orðið keisari, hann gat ekki einu sinni ræktað eitt lítið blóm.

Keisarinn sagði þá: „Fyrir ári síðan kallaði ég ykkur öll hingað og gaf ykkur frækorn. Ég sagði ykkur að annast það og færa mér afraksturinn í dag. Ég gaf ykkur soðin frækorn, sem gátu aldrei orðið að neinu. Öll ykkar , nema Ling, hafið fært mér tré, blóm og aðrar plöntur. Þegar þið sáuð að frækonið óx ekki þá skiptuð þið því út. Aðeins Ling var nægilega heiðarlegur og kjarkaður til að færa mér blómapott með hinu rétt frækorni . Þess vegna er hann þess verður að vera keisari.“
Nálgun:
„Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt. Sá sem elskar líf sitt glatar því en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi mun varðveita það til eilífs lífs.“ (Jóh 12.24 – 25) Þessi vers minna okkur á að sá sem tekur minna nú, mun öðlast meira síðar. Með því að deyja sjálfum okkur nú munum við lifa að eilífu. Jesús sagði: „Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum.“ (Matt 7.21) Það dugir skammt að klæða sig upp og sýnast kristinn út á víð. Jesús vill að við séum sönn í eftirfylgdinni við hann og að trúin risti djúpt.

Sagan Frækorn keisarans er úr bókinni „More Hot Illustrations for Youth Talks“ Copyright © 1995 by Youth Specialties Inc, Grand Rapid, Michigan í þýðingu Jóns Ómars Gunnarssonar