Það var aðfangadagskvöld og Venslás konungur í Bæheimi stóð við hallargluggann í glæsilegu höllinni sinni og horfði út. Eldurinn snarkaði líflega í stórum arninum á bak við hann. Venslás konungur var saddur eftir góða máltíð og stóri maginn hans var útþaninn. Gleðin skein úr andliti hans og honum leið afar vel. Það var langt síðan að honum hafði liðið eins vel og einmitt nú.Mjúksnjóbreiða lá yfir öllu og aldrei hafði verið eins jólalegt um að litast við höllina hans Venslásar konungs eins og á þessum jólum. Skyndilega sá Venslás konungur að einhver fór um snævi þakta akrana. Hver skyldi vera á ferð úti á sjálfu aðfangadagskvöldi? hugsaði Venslás konungur með sjálfum sér og það fór hrollur um hann þegar honum varð hugsað til kuldans úti. Nú áttu allir að vera heima hjá sér í góðu yfirlæti og snæða jólamatinn. Venslás konungur starði út á akrana og sá einhverja þúst sem færðist nær og nær. Þetta gat svo sem verið eitthvert villidýr eða flækingshundur – nóg var nú af þeim. Síðan gekk hann að matarborðinu og nartaði í matinn. Hann gat bara ómögulega komið meiru niður. Þó langaði hann að bæta á sig búðingsslettu en það varð að bíða. Aftur gekk hann að glugganum og rýndi út í myrkrið. Þarna var þústin komin enn nær og nú sá hann að þar var maður á ferð. Venslás konungur kallaði í flýti á einn af þjónum sínum.
„Hver ætli sé þarna úti?“ spurði hann og benti út um gluggann. Þjónninn gekk að glugganum og starði út í sortann. Hann sá ekki neitt í fyrstu því stormurinn æddi aldrei sem fyrr og það hvein í öllu. Það var skollinn á bylur.
„Þetta er sjálfsagt gamall bóndi,“ sagði hann loks stundarhátt og yppti öxlum. „Sennilega Valdimar gamli í leit að eldiviði.“
Konungur fylgdist með manninum og veðurhamnum. Ekki vildi hann vera úti í þessu veðri. Þá varð honum hugsað til þess hvernig auðurinn hafði safnast að honum í höllinni. Aldrei þyrfti hann að skorta eitt né neitt. Matarbúrið var troðfullt og vínkjallarinn sömuleiðis.
„Hvar á Valdimar gamli heima?“ spurði konungur.
„Hann býr langt í burtu,“ svaraði þjónninn. „Af hverju spyrðu?“
„Vegna þess að við skulum hjálpa honum,“ sagði konungur og sló kumpánlega á öxl þjónsins. „Komdu með mat! Vín! Og sæktu eldivið,“ skipaði hann. „Við skulum elta hann heim.“
„En hvað með gestina þína?“ andmælti þjónninn og var allt annað en ánægður á svip. Hann langaði heldur ekki út í veðurofsann. „Jólahátíðin þín…“
„Hvernig á ég að geta fagnað jólum,“ sagði konungur og stundi lítið eitt, „þegar þessi fátæki maður hefur ekki einu sinni efni á því að hlýja sér?“ Og Venslás konungur sagði aftur skipandi rómi: „Komdu með mat! Vín og eldivið! Ég vil að enginn líði skort í ríki mínu.“ Í þetta skipti þorði þjónninn ekki að malda í móinn heldur hlýddi umyrðalaust.
Saman gengu þeir snjóinn í hnésbætur, konungur og þjónninn, með fangið fullt af gjöfum. Stormurinn gnauðaði og það sá vart út úr augum. Þjónninn var argur út í sjálfan sig fyrir að hafa ekki tekist að snúa huga konungs. Enn var langt í kofa bóndans. Brátt tók þjónninn að lýjast og smám saman dróst hann aftur úr.
„Yðar hátign,“ kallaði hann í gegnum storminn. „Ég er hræddur um að ég komist ekki lengra. Ég er úrvinda og fætur mínir eru svo dofnir af kulda að ég finn varla fyrir þeim. Ég hef aldrei verið neinn göngumaður og allra síst í veðri sem þessu.“
Venslás konungur nam staðar og hugsaði sig um eitt andartak. Þetta voru nú meiri vandræðin! Hann vildi svo gjarnan hjálpa fátæka bóndanum. En ekki vildi hann hætta lífi þessa unga þjóns fyrir það. Hann var kominn á fremsta hlunn með að senda þjóninn heim í höllina þegar honum flaug dálítið í hug.
„Við skulum ganga þétt saman vinur minn,“ sagði hann blíðlega. „Farðu í fótspor mín og vittu hvort það hjálpar ekki.“
Þetta gerðu þeir. Þegar þjónninn fór í fótspor konungsins var sem hann brygði fæti sínum í hlýjan ullarsokk. Fótspor konungsins vermdu hann! Nú var auðvelt að ganga í snjónum. Honum leið vel og nú fannst honum sem hann gæti gengið á enda veraldar. Þetta var alveg stórkostlegt! Brátt komu þeir að kofa bóndans.
Valdimar gamli trúði vart sínum eigin augum þegar hann sá sjálfan konunginn við dyrnar heima hjá sér. Aldrei hafði jafn tiginn gestur staðið við dyr hans og það á sjálfu aðfangadagskvöldi.
Undrun hans varð enn meiri þegar konungur lagði gjafir fyrir fætur hans og hrópaði hátt: „Matur! Vín og eldiviður! Og gleðileg jól!“
Valdimar bóndi horfði á matföngin og vínið og var alveg dolfallinn. Hann þakkaði fyrir sig og tók síðan hressilega til matar síns. Aldrei hafði hann fengið eins góðan mat.
Sagan af Venslási konungi hefur orðið mörgum hvatning til að gefa gaum að þeim sem minna mega sín; gefa af gnægtum sínum til þeirra sem eru þurfandi.
Úr bókinni Jólasögur frá ýmsum löndum sem Bob Hartman tók saman og Hreinn Hákonarson þýddi. Skálholtsútgáfan gaf út árið 2001.