Fræðslunni fylgir glærusýning með myndum (Sr.Friðrik Friðriksson-powerpoint skjal)
Hugleiðing:
Sr. Friðrik Friðriksson (PPT: glæra 1) fæddist þann 25. maí árið 1868 að Hálsi í Svarfaðardal (PPT: glæra 2), en Svarfaðardalur gengur út frá Eyjafirði á Norðurlandi (og er því nálægt Akureyri).


Við fæðingu var naflastrengurinn vafinn þrjá hringi um höfuð Friðriks svo óttast var um líf hans. Ljósmóðirin skírði hann strax skemmri skírn og hann var látinn heita Friðrik í höfuðið á pabba sínum, en hann var talinn hafa látist á sjó skömmu áður. Seinna kom í ljós að pabbi hans hafði lent í hrakningum og báturinn lokast inni vegna ísa, en hann skilaði sér heim heill á húfi stuttu eftir fæðingu sonar síns.
Friðrik ólst upp á Norðurlandi en flutti oft á milli bæja með foreldrum sínum sem voru frekar fátækir. Strax í æsku hafði hann mikinn áhuga á bókum og var trúrækinn. Þegar Friðrik var (enn) ungur lést faðir hans og eftir að móðir hans veiktist var fjölskyldan leist upp og Friðrik fór í fóstur.
Þrátt fyrir fátækt gat Friðrik farið í nám og gekk hann í Latínuskólann í Reykjavík sem nú í dag er Menntaskólinn í Reykjavík, betur þekktur sem MR (PPT: glæra 3). Hann var ágætis námsmaður og tók virkan þátt í félagslífinu. Á miðjum skólaferlinum lenti hann hins vegar í mikilli ástarsorg. Hann fór þá leið að sefa sorg sína með áfengisdrykkju og varð sífellt óánægðari með sjálfan sig.
Hann fór með skipi til Færeyja og var í svo mikilli ástarsorg að hann vildi helst bara deyja. Á skipinu kynntist hann manni sem leið álíka illa, og Friðrik fór að hughreysta manninn. En við það áttaði hann sig á því að hann sjálfur yrði að takast á við lífið áfram. Friðrik fór af skipinu í Færeyjum og fékk fljótlega vinnu. Á samkomu í Færeyjum varð hann fyrir trúarlegri reynslu, kom aftur til Íslands og lauk námi sínu við Latínuskólann.
Eftir stúdentspróf fór Friðrik til Danmerkur og kynntist þar starfi KFUM. Hann byrjaði fljótlega að starfa innan félagsins og hjálpaði drengjum sem bjuggu við erfiðar aðstæður. Starf hans fréttist til Íslands og forstöðumaður Prestaskólans í Reykjavík (Þórhallur Bjarnason) sendi Friðriki bréf þar sem hann bað hann að koma heim til Íslands og byrja KFUM-starf þar (PPT: glæra 4). Á sama tíma var Friðrik í mikilli innri baráttu um hvort Guð væri að kalla sig til að gera starfið í KFUM að ævistarfi. Þegar hann las bréf Þórhalls varð hann mjög órólegur. Honum fannst tilhugsunin skelfileg um að yfirgefa starfið í Danmörku, því það gekk svo vel, og fara í óvissuna á Íslandi. Fyrir utan það var Friðrik viss um það að hann hefði ekki þá hæfileika sem þyrfti til að byrja KFUM-starf í Reykjavík (en þar hafði hann rangt fyrir sér). Stuttu síðar, þegar Friðrik var að skoða bréfið frá Þórhalli betur, tók hann eftir því að það var skrifað akkúrat sama kvöld og hann hafði beðið Guð um að leiðbeina sér um framtíð sína. Friðrik leit á þetta sem tákn frá Guði. Skömmu síðar fór hann til Íslands, byrjaði að læra í Prestaskólanum og fór að undirbúa stofnun KFUM. Hann stofnaði félagið svo formlega þann 2. janúar 1899 og í apríl sama ár, eftir að stelpurnar höfðu þrýst á hann, stofnaði hann KFUK, (PPT: glærur 5 og 6).

Eftir þetta gaf Friðrik sig allan í starf KFUM á Íslandi. Innan KFUM stofnaði hann meðal annars knattspyrnufélögin Val í Reykjavík og Hauka í Hafnarfirði (PPT: glæra 7). Hann átti meðal annars þátt í að koma á fót bókasafni, kvöldskóla, bindindisfélagi, lúðrasveit, karlakór, var einn af upphafsmönnum skátahreyfingarinnar á Íslandi og stofnaði skátafélagið Væringja innan KFUM (Skátavefurinn – Bandalag íslenskra skáta [2009]). Síðast en ekki síst varð hann til þess að sumarbúðastarf í Vatnaskógi hófst (PPT: glæra 8 og 9?).
Friðrik hafði kynnst sumarbúðastarfi í Danmörku og hvatti ungu mennina í KFUM hér á landi til að byrja samskonar starf. Friðrik dvaldi oft í Vatnaskógi á sumrin og bjó þá vanalega í Sr. Friðriks herbergi í Gamla skála.
Sr. Friðrik varð mjög virtur og vel liðinn maður á Íslandi, ekki bara innan raða KFUM og KFUK. Hann var meðal annars kjörinn heiðursdoktor í guðfræði, heiðursborgari Akraness og var sæmdur stórkrossi Fálkaorðunnar.
Hann lést í mars árið 1961 tæplega 93 ára gamall.
Líf Friðriks hafði meiri og dýpri áhrif á íslenska menn og menningu á 20. öldinni, en flestra samferðamanna hans. Í sumarbúðunum í Vatnaskógi stendur brjóstmynd af sr. Friðriki og einnig á æfingasvæði Valsmanna. Auk þess er hann einn fárra sem stytta hefur verið reist af meðan hann lifði og er sú stytta af honum og ungum dreng við Lækjargötuna í Reykjavík (PPT: glæra 10).

 

Boðskapur:
Líf sr. Friðriks Friðrikssonar byrjaði ekki vel og á leiðinni til Færeyja var hann alveg að gefast upp á því en Guð þekkti hvernig honum leið og mætti honum. Seinna átti hann eftir að hjálpa ungum drengjum í Danmörku og byrja stórkostlegt starf á Íslandi sem enn í dag er í fullum gangi. Við getum lagt allt okkar í hendurnar á Guði og hann getur snúið öllu upp í eitthvað gott.

Ritningarstaðir:
 Jeremía 29:11
o Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð.

 Róm. 8:28
o Við vitum að þeim sem Guð elska samverkar allt til góðs, þeim sem hann hefur kallað samkvæmt ákvörðun sinni.

Úr fræðsluefni sumarstarfs KFUM og KFUK 2009/2011, Fögnuður og yndi.
e. Ingunni Huld Sævarsdóttur