Texti: Jóh. 3:1-21
Maður hét Nikódemus, af flokki farísea, og átti sæti í öldungaráði Gyðinga. Hann kom til Jesú um nótt og sagði við hann: „Rabbí, við vitum að þú ert lærifaðir kominn frá Guði. Enginn getur gert þessi tákn sem þú gerir nema Guð sé með honum.“
Jesús svaraði honum: „Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur séð Guðs ríki nema hann fæðist að nýju.“
Nikódemus segir við hann: „Hvernig getur maður fæðst þegar hann er orðinn gamall? Skyldi hann geta komist aftur í líf móður sinnar og fæðst?“
Jesús svaraði: „Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur komist inn í Guðs ríki nema hann fæðist af vatni og anda. Það sem af manni fæðist er manns barn en það sem fæðist af anda Guðs er Guðs barn. Undrast eigi að ég segi við þig: Ykkur ber að fæðast að nýju. Vindurinn blæs þar sem hann vill og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki hvaðan hann kemur né hvert hann fer. Svo er um þann sem af andanum er fæddur.“
Þá spurði Nikódemus: „Hvernig má þetta verða?“
Jesús svaraði honum: „Þú ert lærifaðir í Ísrael og veist þetta ekki? Sannlega, sannlega segi ég þér: Vér tölum um það sem vér þekkjum og vitnum um það sem vér höfum séð en þér takið ekki á móti vitnisburði vorum.Ef þér trúið eigi þegar ég ræði við yður jarðnesk efni, hvernig skylduð þér þá trúa er ég ræði við yður um hin himnesku? Enginn hefur stigið upp til himins nema sá er steig niður frá himni, Mannssonurinn.
Og eins og Móse hóf upp höggorminn í eyðimörkinni, þannig á Mannssonurinn að verða upp hafinn svo að hann veiti hverjum sem trúir á hann eilíft líf. Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn heldur til þess að frelsa hann.
Sá sem trúir á son Guðs dæmist ekki. Sá sem trúir ekki er þegar dæmdur því að hann hefur ekki trúað á nafn Guðs sonarins eina. En þessi er dómurinn: Ljósið er komið í heiminn en menn elskuðu myrkrið fremur en ljósið því að verk þeirra voru vond. Hver sem illt gerir hatar ljósið og kemur ekki til ljóssins svo að verk hans verði ekki uppvís. En sá sem iðkar sannleikann kemur til ljóssins svo að augljóst verði að verk hans eru í Guði gerð.“
Verkefni
Bréfið
Það er ekki auðvelt að útskýra til fulls náðargjöf Guðs og elsku skaparans í okkar garð. Hins vegar er hægt að fá þátttakendur á fundinum til að sýna elsku sína í garð annarra með einfaldri en dýrmætri gjöf. Verkefni dagsins gæti falist í því að allir þátttakendur fái blað, umslag og skriffæri og skrifi þakkarbréf til einhvers sem þeim þykir vænt um. Leiðtogar geta síðan tekið við umslögunum og komið þeim í póst í þjónustumiðstöð KFUM og KFUK. Mikilvægt er að fylgjast með að heimilisföng séu rétt skrifuð á öll umslög.
Framhaldssaga
„Við Guð erum vinir“ – kaflinn: „Júlía teiknar“ bls. 52-57.
Tenging: Mynd okkar af Jesú er stundum dálítið bjöguð.
Söngvar
- Misserissöngurinn: Stjörnur og sól
- Guð faðir skapar
- Guð sem skapað hefur heiminn
- Jesús er vegurinn
- Minn Guð þú elskar öll þín börn
- Því svo elskaði Guð heiminn
Hugleiðing
Boðskapur
Jesús er gjöf Guðs til okkar. Guð kom í Jesú Kristi til að sætta heiminn við sig. Hann þurfti að deyja okkar vegna, vegna okkar synda. Viljum við þiggja gjöf Guðs í trú?
Aðkoma
Ræða má um það hvernig við bregðumst við þegar okkur eru gefnar gjafir. Venjulega gleðja gjafir okkur og við viljum ólm taka þær upp og njóta þeirra, þó kann það að vera að við höfum einhvern tíma orðið vonsvikin með einhverja gjöf, jafnvel hafnað henni. Þá kemur hún okkur heldur ekki að gagni.
Meginmál
Jesús talaði eitt sinn við mann um þá stærstu gjöf sem nokkurn tíma hefur verið gefin. Hann hét Nikódemus og var mjög háttsettur maður. Í Biblíunni segir að hann hafi komið til Jesú um nótt en við vitum ekki hvers vegna. Kannski vildi hann ekki að nokkur vissi að hann væri að ræða við Jesú. Endursegja má söguna, en sumt í henni er torskilið fyrir litla krakka og því rétt að stikla á stóru.Nikódemus hefur greinilega frétt ýmislegt um Jesú (kannski séð hann og heyrt) og hann er viss um að Jesús er mikill kennari sem Guð hefur sent. Jesús beinir hins vegar umræðunni inn á allt aðrar brautir. „Enginn getur séð Guðs ríki, nema hann fæðist að nýju“ segir Jesús. Hér beinir Jesús sjónum Nikódemusar að því að maðurinn kemst ekki inn í Guðs ríki af eigin rammleik. Guð þurfti að senda son sinn (3:16) og maðurinn þarf að þiggja gjöf Guðs í trú.
Gjöf Guðs er okkur veitt fyrir vatn og heilagan anda (sbr. vers 5) þ.e. í skírninni. Fyrir skírn og trú vill Guð endurfæða okkur, gefa okkur nýtt líf með sér (fæðing er ætíð upphafs nýs lífs). Í skírninni er okkur veitt fyrirgefning syndanna óverðskuldað. En gjöf skírnarinnar þurfum við einnig að þiggja á hverjum degi. Við þörfnumst fyrirgefningar Guðs dag hvern.
Nikódemus var tilbúinn að viðurkenna Jesú sem lærimeistara frá Guði. Jesús kom hins vegar ekki aðeins til að kenna. Hann kom til að deyja á krossi vegna synda okkar. Hann var ekki aðeins kennari. Hann var sonur Guðs sem Guð sendi svo við gætum eignast eilíft líf með Honum.
Þegar við fylgjum Jesú Kristi erum við byrjuð að lifa nýju lífi, lífi með Jesú Kristi, lífi sem varir út yfir gröf og dauða.
Samantekt
Guð elskar okkur óendanlega mikið og lagði allt í sölurnar til þess að við getum eignast eilíft líf með honum. En við þurfum að þiggja hjálp Guðs, þiggja fyrirgefningu hans og játast Kristi í trú.
Minnisvers
Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. (Jóh. 3:16)
Bæn
Við getum þakkað Guði fyrir að hann sendi okkur son sinn. Við megum þakka fyrir skírnina. Við þurfum að biðja um fyrirgefningu Guðs og hjálp til að lifa hinu nýja lífi með Kristi.