Á dögum Hérodesar konungs þegar frelsari heimsins fæddist í t Betlehem lýsti jólastjarnan upp himinn yfir austurlöndum nær. Stjarnan, sem skein skært, færðist rólega í átt að landinu helga. Stjörnuspekingarnir, sem oft voru kallaðir vitringar, tóku eftir þessari stjörnu. Þeir töldu hana vera tákn frá Guði um að frelsari heimsins, konungur konunganna hafði fæðst. En um komu hans hafði verið spáð í spádómsbókum Hebrea. Nokkrir vitringanna höfðu helgað sér að fræðst um sannleika Guðs og vilja hans í heiminum. Þeir voru hryggir yfir illvirkjum mannanna og ákváðu að leita hins nýfædda konungs og heiðra hann með gjöfum.
Artaban var einn þeirra vitringa sem höfðu beðið komu hins mikla konungs. Hann var efnamaður, en þráði að sjá og þjóna konungi konunganna. Hann seldi því allar eigur sínar og keypti fyrir andvirði þeirra þrjá dýrmæta gimsteina, gjafir fyrir konung konunganna. Á leið sinni til fundar við hina vitringana varð á vegi hans maður sem var nær dauða en lífi eftir að hafa orðið fyrir árás ræningja. Artaban kom særða manninum til hjálpar og kom honum í öruggt skjól. Fyrir hjúkrun hans og uppihald greiddi Artaban fyrir með einum gimsteinanna. Artaban hafði nú líklega misst af hinum vitringunum, en Artaban hélt ferð sinni áfram einn síns liðs. Hann ætlaði að finna konung konunganna og gefa honum þessar dýrmætu gjafir.
Artaban komst loks til Betlehem og knúði dyra á húsi einu. Þar kom ung kona til dyra með nýfæddan dreng í höndum sínum. Artaban spurði konuna hvort hún vissi af fæðingu konungs konunganna og hvar hann væri að finna. Konan tjáði honum að líf Maríu, Jósefs og nýfædda konungsins hafði verði í hættu og þau orðið að flýja til Egyptalands. Á meðan að Artaban ræddi við konuna heyrðist hrópað: „Þeir eru komnir, hermenn Heródesar eru komnir til þess að drepa ungabörnin okkar.“ Óttaslegin móðirin hélt drengnum sínum að brjósti sér og sagði við Artaban: „Bjargaðu syni mínum og Guð mun bjarga þér.“ Þegar hermenn Heródesar ruddist inn í hús konunnar rétti Artaban þeim einn gimsteinanna og bað þá að hlífa drengnum. Hermennirnir þáðu gimsteininn og hlífðu lífi drengsins.
Artaban var hryggur yfir því að hafa glatað tvær af dýrmætu gjöfunum og hrópaði fullur örvæntingar: „Guð réttlætisins, fyrirgef þú mér! Vegna þessa drengs gaf ég frá mér einn dýrgripanna sem ætlaður var þér. Mun ég nokkurn tímann standa frammi fyrir augliti þínu? Hér er ég enn og aftur of seinn. Ég ætla til Egyptalands að leita þín.“ Artaban ferðaðist víða í leit sinni af konungi konunganna, en fann hann hvergi. Á ferðum sínum urðu margir á vegi hans og hjálpaði hann fjölmörgum sem áttu um sárt að binda, en aldrei varð konungur konunganna á vegi hans. En síðasta gimsteininn bar hann ávallt í belti sínu til þess að gefa frelsara heimsins.
Eftir áratuga langa leit kom Artaban til Jerúsalem um páska. Hann var orðinn gamall maður. Það var mikið um að vera í borginni helgu, enda páskahátíð gyðinga gengin í garð. En fjölmargir höfðu komið saman til þess að fylgjast með krossfestingu. Artaban sér að menn eru leiddir til aftöku og spyr viðstadda hvað hafi komið fyrir: „Það er búið að dæma Jesú frá Nasaret til dauða fyrir að kalla sig son Guðs og konung gyðinganna.“ Artaban féll á kné sér og hrópaði hryggur: „Enn á ný er ég of seinn. Ég hef aldrei fengið tækifæri til þess að sjá þig og þjóna þér Drottinn.“
„Kannski er ég ekki of seinn.“ Hugsaði Artaban með sér: „Ég fer og sem við þá sem halda honum föngnum og leysi hann úr haldi með síðasta gimsteininum.“ Á leið sinni til Golgata var ung stúlka leidd í hlekkjum fram hjá honum, hún hafði verið hneppt í skuldafangelsi og átti að selja hana í þrældóm. Þegar hún sá Artaban bað hún hann um að bjarga sér og svo fór að vitringurinn aldni lét síðasta gimsteininn í lausnargjald fyrir stúlkuna. Artaban gaf henni gimsteininn og sagði: „Gjörðu svo vel, í 33 ár hef ég leitað frelsarans til þess að gefa honum þessa gjöf. En augljóslega er ég ekki verðugur þess að gefa honum gjöf.“ Í sömu andrá varð jarðskjálfti og gamli maðurinn féll til jarðar örmagna eftir áratuga leit að frelsara heimsins. Artaban var í þann mund að gefa upp öndina hann horfði einbeittur að því er virtist út í loftið og sagði dapur í bragði: „Drottinn, hvenær sá ég þig hungraðan og gaf þér að borða? Hvenær sá ég þig þyrstan og gaf þér að drekka? Í 33 ár hef ég leitað þín, en aldrei séð þig augliti til auglitis og aldrei fengið að þjóna þér.“ Sá hann þá andlit hins líflátna konungs sem svaraði honum: „Það sem þú hefur gert mínum minnsta bróður hefur þú gert mér.“ Andlit Artabans umbreyttist og hann fylltist friði og þakklæti er hann dró síðasta andardráttinn.
Hið langa ferðalag öldungsins var nú lokið. Hann hafði loks fundið konung konunganna, frelsara heimsins sem hafði tekið við gjöfum hans.
(Saga eftir Henry Van Dyke. Þýðing og endursögn: Jón Ómar Gunnarsson)