Texti: Matt. 27:11-31

Jesús kom nú fyrir landshöfðingjann. Landshöfðinginn spurði hann: „Ert þú konungur Gyðinga?“
Jesús svaraði: „Það eru þín orð.“ Æðstu prestarnir og öldungarnir báru á hann sakir en hann svaraði engu.
Þá spurði Pílatus hann: „Heyrir þú ekki hve mjög þeir vitna gegn þér?“
En Jesús svaraði honum ekki, engu orði hans, og undraðist landshöfðinginn mjög.
Á hátíðinni var landshöfðinginn vanur að gefa fólkinu lausan einn bandingja, þann er það vildi. Þá var þar alræmdur bandingi í haldi, Barabbas að nafni. Sem þeir nú voru saman komnir sagði Pílatus við þá: „Hvorn viljið þið að ég gefi ykkur lausan, Barabbas eða Jesú sem kallast Kristur?“ Hann vissi að þeir höfðu fyrir öfundar sakir framselt hann.
Meðan Pílatus sat á dómstólnum sendi kona hans til hans með þessi orð: „Láttu þennan réttláta mann vera, þungir hafa draumar mínir verið í nótt hans vegna.“
En æðstu prestarnir og öldungarnir fengu múginn til að biðja um Barabbas en að Jesús yrði deyddur. Landshöfðinginn spurði: „Hvorn þeirra tveggja viljið þið að ég gefi ykkur lausan?“
Þeir sögðu: „Barabbas.“
Pílatus spyr: „Hvað á ég þá að gera við Jesú sem kallast Kristur?“
Þeir segja allir: „Krossfestu hann.“
Pílatus spurði: „Hvað illt hefur hann þá gert?“
En þeir æptu því meir: „Krossfestu hann!“
Nú sér Pílatus að hann fær ekki að gert en ólætin aukast. Hann tók vatn, þvoði hendur sínar frammi fyrir fólkinu og mælti: „Sýkn er ég af blóði þessa [réttláta]  manns! Svarið þið sjálf fyrir!“
Og allur lýðurinn sagði: „Komi blóð hans yfir okkur og yfir börn okkar!“
Þá gaf hann þeim Barabbas lausan en lét húðstrýkja Jesú og framseldi hann til krossfestingar.
Hermenn landshöfðingjans fóru nú með hann inn í höllina og söfnuðu um hann allri hersveitinni. 28Þeir afklæddu hann og færðu hann í skarlatsrauða kápu, fléttuðu þyrnikórónu og settu á höfuð honum en reyrsprota í hægri hönd hans. Síðan féllu þeir á kné fyrir honum og höfðu hann að háði og sögðu: „Heill þér, konungur Gyðinga!“ Og þeir hræktu á hann, tóku reyrsprotann og slógu hann í höfuðið. Þegar þeir höfðu spottað hann færðu þeir hann úr kápunni og í hans eigin klæði. Þá leiddu þeir hann út til að krossfesta hann.

Verkefni

Hér fer mjög vel á því að hafa bíófund og sýna þátttakendum kvikmyndina „Ljónið, nornin og skápurinn“  (e. The Chronicles Of Narnia: The Lion, The Witch And The Wardrobe). Einnig er hægt að sýna eingöngu dauða Aslan’s úr myndinni (Sjá popptengingu neðar).

Framhaldssaga

Við Guð erum vinir“ – kaflinn: „Óvinir“ bls. 70-75.

Tenging: Synd okkar fyrirgefning Jesú.

Söngvar

  • Misserissöngurinn: Stjörnur og sól
  • Áfram, Kristsmenn, krossmenn
  • Sjáið merkið! Kristur kemur

Hugleiðing

Boðskapur

Öll höfum við brugðist Jesú á einhvern hátt. Jesús hafði ekkert illt aðhafst, en á hans herðum var okkar sekt. Hann er konungur sem kom til að líða og þjást okkar vegna. Hvernig tökum við á móti honum?

Aðkoma

Ræða má um það þegar einhverjir bregðast okkur eða okkur finnst við beytt órétti. Hvernig líður okkur þá? Hvað hugsum við? Síðan má í nokkrum orðum rekja aðdragandann að því hvers vegna Jesús var handtekinn og færður í hendur Pílatusar. Jafnvel Pétur, kletturinn, brást þegar mest á reyndi.

Hver voru viðbrögð Jesú?

Meginmál

Eftir að Jesús hefur verið handtekinn er hann leiddur fram fyrir æðstu embættismennina í Jerúsalem eins og hver annar illvirki. Þegar hann kemur til Pílatusar landsstjóra, byrjar Pílatus á að spyrja Jesú hvort hann sé konungur.

Vel fer á að endursegja frásöguna sem er lifandi og dramatísk. Rétt er að staldra við og spyrja hvers konar konungur Jesús hafi verið. Var hann t.d. sá herkonungur sem margir höfðu vænst?

Benda má á að Pílatus var fulltrúi hins veraldlega valds. Ísrael var undir Rómaveldi og þar var keisarinn æðstur allra. Pílatus hafði því möguleika á að dæma Jesú á þeirri forsendu að hann sagðist vera konungur, slíkt mátti túlka sem uppreisn gegn rómverska keisaranum.

Innra með sér vissi Pílatus að Jesús hafði ekkert aðhafst sem talist gat sakhæft. Hann minnist þess að á páskum mátti fólkið fá einn bandingja lausan. Hann ákveður því að bera það undir fólkið hvað hann eigi að gera við Jesú. Hvaða viðbrögð fékk Pílatus?

Það var ekki langt um liðið frá því að fólkið hafði fagnað Jesús er hann kom ríðandi á asna inn

í borgina. Nú hrópar það hann upp á krossinn og Pílatus lætur undan þrýstingi fólksins. Hann dæmir Jesú til krossfestingar en reynir að firra sig ábyrgð með því að þvo hendur sínar.

Barrabbas er gefinn laus en Jesús leiddur inn og hermennirnir hafa hann að athlægi. Hvað gerðu

þeir? Jesús er niðurlægður en við finnum ekkert styggðaryrði frá hans munni. Konungur kærleikans þurfti að líða og þjást okkar vegna. Hann kallar okkur til fylgdar við sig.

Samantekt

Jesús var píndur af Pontíusi Pílatusi. Hann veit hvað það er að vera einn, yfirgefinn, hæddur og þjáður. Við getum beðið hann um hjálp í okkar neyð. Hann vill styðja okkur og styrkja.

Minnisvers

Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor. „Hann drýgði ekki synd, og svik voru ekki fundin í munni hans.“ (I. Pét 2:21-22)

Bæn

Biðjum Guð um að fyrirgefa okkur hve oft við bregðumst honum og hryggjum hann. Þökkum fyrir að Jesús var fús að ganga veg þjáningarinnar okkar vegna. Biðjum um hjálp til að fylgja honum sem er konungur kærleikans.

Popptenging

Ljónið Aslan er ætlað að tákna Jesús Krist í sögu C.S. Lewis, „Ljónið, nornið og skápurinn“. Atriðið sem sýnir fórn Aslan getur hjálpað til við að útskýra krossdauða Krists. Best fer á því að þátttakendur þekki söguna eða hafi séð myndina.

Þessi klippa leggur áherslu á þjáninguna á leiðinni á móts við dauðann.

Þetta myndband leggur aðaláherslu á sorgina yfir dauða Aslan.

Hér er síðan upprisan í myndinni.