Texti: Matt. 27:32-61
Á leiðinni hittu þeir mann frá Kýrene er Símon hét. Hann neyddu þeir til að bera kross Jesú. Og er þeir komu til þess staðar er heitir Golgata, það þýðir hauskúpustaður, gáfu þeir Jesú vín að drekka, galli blandað. Hann bragðaði það en vildi ekki drekka.
Þá krossfestu þeir hann. Og þeir köstuðu hlutum um klæði hans og skiptu með sér, sátu þar svo og gættu hans. Yfir höfði hans festu þeir sakargift hans svo skráða: ÞESSI ER JESÚS, KONUNGUR GYÐINGA.…
Jósef tók líkið, sveipaði það hreinu línklæði og lagði í nýja gröf, sem hann átti og hafði látið höggva í klett, velti síðan stórum steini fyrir grafarmunnann og fór burt. María Magdalena var þar og María hin og sátu þær gegnt gröfinni. (http://biblian.is/default.asp?action=pick&book=39&chap=27)
Starfsgagnalisti
Gjafir Artabans
Sagan um Gjafir Atrabans, fjórða vitringinn, eftir Henry Van Dyke, er hugnæm og falleg saga. Atraban ætlaði sér að ferðast með hinum vitringunum þremur og vitja Jesúbarnsins en ýmislegt kom upp á leið hans. Hægt er að nálgast söguna á slóðinni http://kfum.is/efnisveita/2013/01/gjafir-artabans/.
Mesti kærleikurinn
Í heftinu „Smásögur II“ sem var gefið út af Æskulýðsstarfi þjóðkirkjunnar (1977) má finna frásögnina „Mesti kærleikurinn“. Hægt er nálgast heftið í handbókasafni leiðtoga í þjónustumiðstöð KFUM og KFUK.
Verkefni
Föndur – Útbúa Getsemane, Golgata og gröfina.
Nota má kasslok sem ramma og útbúa staði kyrruviku með leir, sandi, tré, grjóti o.fl.
Víxllestur
Þar sem sagan af krossfestingunni er alvöruþrungin, getur farið vel á því að skipuleggja víxllestur textans með krökkunum. Jafnvel hafa rökkvað í salnum og nýta sér kertaljós ef kostur er á slíku.
Framhaldssaga
„Við Guð erum vinir“ – kaflinn: „Amma“ bls. 76-80.
Tenging: Ógn dauðans og himinn Guðs.
Söngvar
- Misserissöngurinn: Stjörnur og sól
- Áfram, Kristsmenn, krossmenn
- Eins og lofsöngslag
- Elska Jesú er svo dásamleg
- Frelsarinn góði
- Fræ í frosti sefur
- Hver er í salnum
- Jesús, Jesús
- Sjáið merkið! Kristur kemur
Hugleiðing
Boðskapur
Jesús dó raunverulegum dauða og var lagður í gröf. Dauði hans hefur hins vegar meiri merkingu en dauði venjulegs manns. Á krossinum dó Jesús vegna okkar synda svo að við gætum eignast eilíft líf með Guði.
Aðkoma
Textinn gefur tilefni til að vísa til þeirra daga sem framundan eru þ.e. páskanna.
Meginmál
Jesús leggur af stað með krossinn. En á leiðinni er fenginn maður til að bera krossinn síðasta spölinn. Jesús hefur örugglega verið örþreyttur og þjáður og ekki komist lengra. Einhver færir honum vín að drekka en hann afþakkar það. Síðan er Jesús krossfestur.
Minna má á að krossfesting var á dögum Jesú notuð til þess að lífláta þá sem höfðu brotið mjög alvarlega af sér. Jesús er dæmdur sem óbótamaður. Það er einnig ljóst að það að deyja á krossi var mjög kvalafullur dauðdagi og næsta víst að við getum aldrei gert okkur í hugarlund hvað sá þurfti að líða sem festur var á kross. Krossinn skyldi vera mönnum alvarleg aðvörun: Svona fer fyrir illgjörðarmönnum og þeim sem virða ekki lög landsins.
Frásagan af krossfestingu Krists er átakanleg. Fyrir neðan krossinn sitja menn að kasta hlutum um kirtil hans. Og margir halda áfram að hæðast að Jesú, jafnvel ræningjarnir sem með honum voru krossfestir.
„Jesús frá Nasaret, konungur Gyðinga“ virtist hafa beðið algjöran ósigur. Meiri niðurlægingu var vart hægt að hugsa sér. Fólkið æpti: „Krossfestu hann“. Þeir sem fram hjá fóru gerðu gys að honum. Vinirnir voru horfnir og í örvæntingu hrópar hann: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig“. Allt virtist tapað.
En krossfesting Jesú var ekki dauði einhvers manns. Sonur Guðs var að deyja þeim dauða sem við áttum skilið. Það var sekt okkar sem negld var á krossinn. Við höfum brotið gegn Guði og áttum hegningu skilið, en Jesús hefur með dauða sínum greitt þá sekt sem við áttum skilið. Það var vissulega satt sem fræðimennirnir og öldungarnir sögðu: „Öðrum bjargaði hann“ og einmitt þess vegna gat hann ekki bjargað sjálfum sér.
Jesús dó raunverulegum dauða. Hann var vafinn línklæðum og lagður í gröf og það gerðust undur og stórmerki. Það mikilvægasta af öllu var þó það að augu sumra tóku að opnast og þeir sáu að Jesús var sá sem hann sagðist vera, sonur Guðs.
Í raun og veru getum við aldrei skilið til fulls það sem gerðist á krossinum og þann kærleika Guðs til okkar sem þar birtist. En við getum þakkað Guði og þegið fyrirgefningu hans. Hann lagði allt í sölurnar okkar vegna svo að við gætum eignast líf með honum. Páskarnir eru gott tækifæri til að íhuga það sem Guð hefur gert fyrir okkur.
Samantekt
Á krossinum birtist okkur kærleikur Krists í skærastri mynd. Hann var reiðubúinn að deyja okkar vegna. Í gegnum krossinn hefur hann opnað okkur veg til Guðs.
Minnisvers
Þetta er kærleikurinn: Ekki að vér elskuðum Guð, heldur að hann elskaði oss og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir vorar. (I. Jóh. 4:10)
Bæn
Þökkum Guði fyrir þann kærleika sem hann auðsýnir okkur í Jesú Kristi. Þökkum fyrir að Jesús vildi deyja okkar vegna. Biðjum Guð um fyrirgefningu og hjálp til að játa trú okkar á Krist í orði og verki.