Texti: Slm 8
Til söngstjórans. Á gittít. Davíðssálmur.
Drottinn, Guð vor,
hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina.
Þú breiðir ljóma þinn yfir himininn.
Af munni barna og brjóstmylkinga hefur þú gert þér vígi
til varnar gegn andstæðingum þínum,
til að stöðva fjandmenn og hefnigjarna.
Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna,
tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?
Þú gerðir hann litlu minni en Guð,
krýndir hann hátign og heiðri,
lést hann ríkja yfir handaverkum þínum,
lagðir allt að fótum hans:
sauðfénað allan og uxa
og auk þess dýr merkurinnar,
fugla himins og fiska hafsins,
allt sem fer hafsins vegu.
Drottinn, Guð vor,
hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina.
Verkefni
Á þessum fundi er hægt að hafa plakatvinnu þar sem þáttakendur tjá annars vegar um sköpun Guðs og hvernig við getum unnið með náttúrunni og hins vegar hvernig mennirnir vinna gegn sköpun Guðs. Hægt er t.d. að notast við úrklippur úr blöðum.
Kannski gætu menn hugsað sér að gera hreinsunarátak við félagshúsið/kirkjuna eða lagt drög að því að gróðursetja tré næsta sumar. Önnur hugmynd gæti verið að fara í heimsókn í skógræktarstöð eða fá einhvern í heimsókn sem gæti frætt um landgræðslu eða þess háttar.
Framhaldssaga
„Við Guð erum vinir“ – kaflinn: „Kýrnar þrjár“ bls. 101-104.
Ekki bein tenging en ágæt skemmtun.
Söngvar
- Misserissöngurinn: Stjörnur og sól
- Drottinn Guð, hve gott að vakna
- Er ég horfi’ á himininn
- Ég vil syngja þér gleðisöng, ó, Guð
- Guð sem skapað hefur heiminn
- Hér kemur inn í kvöld
- Hver hefur skapað blómin björt?
- Ó, ljóssins faðir, lof sé þér
Hugleiðing
Boðskapur
Guð er sífellt að skapa og maðurinn er kallaður til ráðsmennsku yfir sköpunarverki Guðs. Veröldin er í hendi Guðs og maðurinn á að þjóna skapara sínum en ekki tilbiðja hið skapaða.
Aðkoma
Byrja mætti á því að spyrja hvort einhver í salnum hafi farið til tunglsins, eða langi e.t.v. að verða geimfari eða stjarnfræðingur. Hvernig ætli sé að vera geimfari? Geimfarar þurfa að hafa allt með sér, mat, súrefni o.fl. Þeir eru sjálfsagt fegnir að komast aftur niður á jörðina! Spyrja hvort krakkarnir hafi oft hugsað um hve heimurinn sé stór, kannski staðið úti í tunglsljósi og reynt að telja stjörnurnar?
Meginmál
Hægt er að minna krakkana á Davíð og hvað hann gerði áður en hann varð konungur Ísraels. En eins og við þekkjum flest þá var hann hirðir.
Hann hefur örugglega oft verið einn úti í náttúrunni með rollunum sínum og dáðst að sköpunarverki Guðs, náttúrunni í kringum sig. Og á kvöldin hefur hann oft horft til himins og virt fyrir sér stjörnurnar. Því miður sjáum við sem búum í borg ekki oft stjörnur vegna allra ljósastauranna og komumst allt of sjaldan í snertingu við ósnortna náttúru.
Það má vel benda á sálm 8 og þá undrun Davíðs sem þar kemur fram. Davíð er í raun og veru dolfallinn yfir mikilleik Guðs. Um leið uppgötvar hann hversu smár hann sjálfur er í þessum stóra heimi. Mesta undrunarefnið er þó að þessi mikli og stóri Guð sem skapað hefur himingeiminn skuli eitthvað kæra sig um menn eins og hann.
Ef krakkarnir hafa þroska til, má árétta að tungl og stjörnur eru hnettir og sólir sem Guð hefur skapað og sem lúta lögmálum sem hann hefur sett þeim. Stjörnurnar eru aðeins dauðir hlutir og ráða engu um okkar líf. Stjörnuspeki sem les örlög manna út úr gangi himintunglanna er ekki í samræmi við trúna á þann Guð sem Biblían boðar. Við eigum að láta Guð hafa áhrif á líf okkar en ekki tilbiðja það sem hann hefur skapað og láta stjórnast af því.
Í raun og veru er Guð alltaf að skapa. Þegar barn fæðist eða þegar lífið vaknar að vori er Guð að skapa. Guð heldur sköpun sinni við og hann vill að maðurinn fari vel með allt hið skapaða. Manninum er gefið vald til að drottna yfir dýrunum. En Guð vill ekki að maðurinn noti það vald til að fara illa með dýrin, ofveiða þau eða útrýma, heldur til að nýta þau á sjálfbæran hátt. Eins eigum við að fara vel með náttúruna, rækta hana og ganga vel um hana en gæta þess að eyðileggja hana ekki eða ofnýta auðlindir hennar.
Sköpun Guðs er góð. Himininn og jörðin vitna um mikilleik Guðs og visku á sama hátt og vel byggt hús ber vitni um góðan húsasmið. En mennirnir geta eyðilagt margt í Guðs góðu sköpun ef þeir eru kærulausir og gleyma ábyrgð sinni. Því miður hefur maðurinn oft farið illa með sköpun Guðs með því að menga, skilja rusl eftir úti í náttúrunni, með ofveiði, ofbeit o.fl. Við hæfi er að fá uppástungur frá krökkunum um það hvað við getum gert til að vera betri samverkamenn Guðs í því að viðhalda sköpunarverkinu, t.d. með því að endurvinna hluti, setja rusl á rétta staði, fara vel með dýr, mat og allar gjafir Guðs, taka þátt í landgræðslu o.fl.
Samantekt
Guð er skapari himins og jarðar og við eigum að tilbiðja hann og þjóna honum einum. Guð er sífellt að skapa og vill að við stöndum vörð um það sem hann hefur skapað, notum það af skynsemi en látum ekki kæruleysi eða græðgi stjórna gerðum okkar.
Minnisvers
Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina! (Sálm. 8:2)
Bæn
Í bæninni er ástæða til að þakka Guði fyrir allar góðar gjafir hans sem við njótum hvern dag. Biðjum um hjálp hans til að þjóna honum og fara vel með það sem hann hefur skapað.