Einu sinni var flygill. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi ef þessi flygill væri ekki sögustaður okkar. Þannig háttaði nefnilega til, að flygillinn var einn heimur út af fyrir sig. Í þessum flygli bjuggu nefnilega mýs. Þetta var greinilega gamall flygill.

Sjáum fyrir okkur dæmigerða músafjölskyldu. Fyrst ber að nefna höfuð fjölskyldunnar, Sverri hagamús, músaholumeistara ríkisins. Eins og við sjáum, féll hann fyrir Ragnheiði pílupínu, sem var ræstitæknir í kaupfélaginu. Nú, þessi merkarhjón áttu tvö börn. Nei, fyrirgefið; gríslinga. Nei, nei, nei, afsakið; mýslinga. Ef við byrjum á óþekktarorminum honum Ingvari músarindli; hann er á þessum aldri, þið vitið! Og ekki er hún nú betri, hún Jóhanna systir hans. Gelgjuskeiðið hefur verið erfiður tími fyrir þau hjónin.

Daglegt líf í heimi músanna einkenndist eins og gefur að skilja fyrst og fremst af tónlist sem markaði djúp spor í tilveru þeirra. – stef – Þeir sem eldri voru þekktu mörg tónverkin út og inn, því að þau voru líf þeirra og yndi. Og margir þeir yngri hlustuðu af mikill áfergju.

Mýsnar gátu með engu móti fest hendur á tónlistinni, en þær voru sannfærðar um að mikill píanisti væri að baki þessara stórfenglegu hljóma.

Trú þeirra snerist um píanistann og í kirkjunni útlistaði sr. Magnmús tónverk hins mikla píanista. En Jón var ekki lengi á Patreksfirði og sumir fóru að efast um tilvist hins mikla píanista, því að þeir sáu hann hvergi. Var hann þá bara orðin tóm? Þeir þurftu að fá skynsamlegt svar við þessari spurningu.

Tvær hugrakkar mýs, þær Bjarni músafræðingur og Snorri tónfræðingur, ákváðu því dag einn að leggja í vísindaleiðangur til þess að reyna að grafast fyrir um uppruna tónanna. Þeir tóku með sér nesti og nýjar græjur og lögðu í hann. Til öryggis tóku þeir með sér skotvopn því þeir vissu jú ekki hverju þeir gátu átt von á.

„He…, heyrðu, Snorri! Sérðu það sem ég sé?“

„Hvað?“

„Líttu upp!“

„Vá! Ég vissi það. Huhh… Hinn mikli píanisti er þá bara blekking eins og okkur grunaði. Tónarnir koma bara frá þessum strengjum sem hafa titrað hér fyrir ofan höfðum okkar öll þessi ár. Huhh… Og okkur sem var talin trú um að einhver mikill píanisti byggi til þessa tóna. Huhh… Ha!! Það verður gaman að sjá trýnið á prestinum þegar við komum til baka. Jahahaha…“.

Næsta dag birtust stórorðar fréttir í öllum helstu blöðum músaheims. Í forystugrein Morgunmúsarinnar sagði m.a.

Of snemmt er að álykta eitthvað um þær nýstárlegu og byltingarkenndu kenningar sem ruðst hafa hafa skyndilega fram um uppruna tónanna. Skipuð hefur verið nefnd óhlutdrægra músa til að kanna u… u…, bíddu við, til að kanna e… e… þeri mál. Nei, nei, afsakið. Afsakið, þessi mál til hlítar.

Í Þjóðmúsinni stóð aftur á móti þetta:

Hinn mikli píanisti er ekki til og hefur aldrei verið. Hugmyndin um hann er ekkert nema baráttutæki gegn okkur kúguðum verkalýðsmúsum.

En Dagmúsin fór eins og endra nær bil beggja.

Þessar fregnir gáfu morgunlötum músum gott tækifæri til að mæta ekki í kirkju. Margir gengu af trúnni og sér Magnmús var við það að bugast því enginn kom lengur til kirkju til hans nema Gústi tryggðarmús.

Þrátt fyrir að strengjateorían væri tekin góð og gild af flestum músum, fannst sumum vanta hlekk í kenninguna. Það var því ákveðið að gera út nýjan leiðangur sem átti að reyna að komast að því hvort eitthvað væri fyrir ofan strengina. Til leiðangurins völdust framsýnustu músavísindamenn þess tíma, þeir Pétur yfirmústæknigrúskari og Siggi tóntæknimús. Eftir miklar svaðilfarir tókst þeim loks að komast upp fyrir strengina.

En þá tók ekki betra við.

„Þúsund bleikir fílar. Hvað er nú þetta?“

„Pétur, Pétur! Gættu að þér! Ætl.. ætlarðu að fá þetta í hausinn á þér?“

„Hjálp! Mamma, hvar ertu þegar littla músin þín þarf á þér að halda?“

„Hættu þessu væli, reynum heldur að forða okkur áður en við verðum hamraðir í kartöflumýs.“

Í öllum blöðum í Músaríki mátti sjá daginn eftir stórorðar fyrirsagnir þar sem strengjateoríunni var hafnað, því að nú þótti fullsannað að það væru hamrarnir sem yllu titringi strengjanna og þar með sköpun tónanna.

Jafnframt var hafin ofsókn gegn þeim fáu sem enn trúðu á tilvist hins mikla píanista. Þeir voru dregnir fyrir rétt og dæmdir fyrir villutrú.

„Séra Magnmús. Þetta er síðasta tækifæri þitt til að afneita þessari fásinnu þinni. Þú hefur árum saman reynt að afvegaleiða unglinga með þessari fáránlegu kenningu þinni. Það er enginn píanisti til.“

„Hér er ég bundinn og get ekki annað. Ég mun ekki ganga af trú minni.“

„Þú lætur ekki segjast.“ – stef – „Þú skalt tekinn af lífi.“ – „Miðið! Skjótið.“

En fyrir utan heim músanna hélt píanistinn áfram að spila, eins og hann var vanur.

 (Sagan um mýsnar og píanistann eftir Jörgen Hedager í þýðingu Þórarins Björnssonar.)