Textar: I. Mós. 1:1-27 og Matt. 6:25-34

Í upphafi skapaði Guð himin og jörð. Jörðin var þá auð og tóm. Myrkur grúfði yfir djúpinu en andi Guðs sveif yfir vötnunum. (http://biblian.is/default.asp?action=pick&book=0&chap=1)

 

Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufull um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?Og hví eruð þér áhyggjufull um klæðnað? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil! Segið því ekki áhyggjufull: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir og yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.

Starfsgagnalisti

Slaghörpumýsnar (http://kfum.is/efnisveita/2012/12/slaghorpumysnar/) er saga sem segir frá músasamfélagi nokkru í píanói, þar sem mýsnar hætta að trúa kenningunni um píanistann skapara tónanna. Barn 2, Ungl.

Söguna má einnig nálgast á efnisveituvef KFUM og KFUK í annarri (og styttri) útfærslu á slóðinni http://kfum.is/efnisveita/2012/12/osynilegi-tonlistarmadurinn/.

Verkefni

Við hæfi væri að hafa skapandi verkefni á fundinum. Hér fylgja nokkur dæmi um möguleg verkefni í tengslum við sköpunarþema fundarins.

  1. Það má verða sér úti um langan og breiðan umbúðarpappírsstrimil og láta krakkana teikna mynd af sköpuninni (eina stóra mynd). Sumir teikna fjöll aðrir dýr o.s.frv. Jafnvel mætti klippa út úr blöðum og líma á strimilinn.
  2. Einnig gæti verið sniðugt að fá hópa til að teikna stóran mann og konu. Einn fær aðeins að teikna búkinn. Einhver teiknar fætur, þriðji hendur, fjórði teiknar andlitið (kannski blindandi), sá fimmti buxurnar, sá sjötti hattinn o.s.frv. Menn gætu jafnvel teiknað líkamshlutana sitt í hvoru lagi og límt þá síðan saman og séð hvað út úr því kemur.
  3. Vel mætti hugsa sér með passlegum hópi og við góðar aðstæður að fá alla til að leika sköpunina. Einn er þá stjórnandi og segir t.d.: Verði mold (allir liggja), verði maðkur (allir liðast um gólfið), verði blóm (rísa hægt á fætur) o.s.frv.
  4. Til greina gæti komið að láta hópinn planta einhverjum fræjum í pott (eða í jógúrtdollur) og fylgjast með árangrinum milli funda.
  5. Hreyfisöngvar gætu líka átt vel við til að undirstrika þá gjöf sem líkami okkar er, t.d. „Höfuð, herðar, hné og tær“.

Framhaldssaga

„Við Guð erum vinir“ – kaflinn: „Gjöf Júlíu“ bls. 24-28.

Tenging: Guð hefur gefið okkur lífið. En erum við tilbúin að gefa Jesú lífið okkar, eins og Júlía gerði?

Söngvar

  • Misserissöngurinn: Stjörnur og sól
  • Daginn í dag
  • Drottinn Guð, hve gott að vakna
  • Guð gaf fólki fingur
  • Ég biðja vil og þakka þér
  • Guð gaf mér eyra
  • Guð sem skapað hefur heiminn
  • Leitið hans ríkis
  • Ó, ljóssins faðir, lof sé þér
  • Skapari þú skópst mig
  • Þakkir, fyrir hvern fagran morgun

Hugleiðing

Boðskapur

Það að Guð er skapari merkir að allt á upphaf sitt í honum. Í trúarjátningunni játa ég að Guð hafi skapað mig, gefið mér lífið og allt sem ég þarf til að geta lifað. Guð vill að við lifum í samfélagi við sig.

Aðkoma

Ræða mætti í upphafi um það hvað lífið er í raun flókið og fjölbreytt. Mennirnir geta teiknað allt milli himins og jarðar, eins og t.d. blóm. Þeir geta búið til alls konar tækniundur (bíla, eldflaugar, tölvur…) en þeir geta ekki búið til svo mikið sem mýflugu, hvað þá lifandi blóm eða fíl. Hvað þurfa mennirnir til að geta búið eitthvað til? Möguleg svör eru t.d. hugvit og efnivið.

Mennirnir eru alltaf að búa til eitthvað úr einhverju öðru, þeir geta ekki búið til eitthvað úr engu.

Meginmál

Biblían segir okkur að Guð hafi alltaf verið til. Hann er í gær og í dag hinn sami og um aldir. En heimurinn hefur ekki alltaf verið til. Heimurinn er sköpun Guðs og ber vitni um mikilleik Guðs. Mennirnir geta hins vegar eyðilagt margt af því góða sem Guð hefur skapað og um það verður m.a. fjallað í næstu viku.

Rifja má upp helstu megindrætti í sköpunarsögu Biblíunnar. Guð skapar með orði sínu og það sem hann skapar er gott. Sjö dagar mynda ramma um frásögnina en þann ramma ber ekki að skilja bókstaflega. Ákveðinn stígandi er í frásögninni.

Vatnið kemur á undan fiskunum, jurtirnar á undan dýrunum o.s.frv. Það skiptir engu höfuðmáli hvort Guð skapaði á löngum eða stuttum tíma. Aðalatriðið er að Guð er höfundur lífsins, frá honum eru allir hlutir. Að síðustu skapaði Guð manninn sem karl og konu. En til hvers skapaði Guð manninn? Átti hann bara að vera eins og eitt af dýrunum?

Ef krakkarnir hafa þroska til, er e.t.v. rétt að minnast á þróunarkenningar vísindanna. Þróun þarf ekki að vera í andstöðu við að Guð sé skapari heimsins, en trú kristinna manna er að Guð standi að baki þróuninni. Heimurinn hafi ekki þróast af sjálfu sér. Það er skapandi hugur og vit sem þar er að baki, sbr. söguna um „Slaghörpumýsnar“.

Biblían segir okkur að Guð hafi skapað manninn í sinni mynd (á einhvern hátt líkan sér) og til samfélags við sig. Guð skapaði okkur ekki til að láta okkur afskiptalaus.

Stundum er eins og við mennirnir gleymum því að við erum sköpuð til þess að lifa með Guði. Jesús benti lærisveinunum t.d. eitt sinn á það að lífið væri meira en það eitt að borða og klæða sig (Matt. 6:25). Við megum ekki vera svo upptekin af jarðneskum hlutum (fötum, bílum, íþróttum, peningum …) að við gleymum Guði skapara okkar, honum sem hefur gefið okkur allt hið góða. Guð veit hvers við þörfnumst. Hann vill að við leitum fyrst eftir því að lifa í sátt við Guð og aðra menn, þá mun allt annað veitast okkur að auki (Matt. 6:33).

Eitt skulum við muna: Vegna þess að við erum sköpun Guðs þá erum við svo óendanlega mikils virði í augum Guðs. Og við skulum líka muna það að allar manneskjur eru líka sköpun Guðs. Þess vegna er ég ekkert merkilegri en aðrir og hef ekki rétt til að líta niður á aðra. Guð hefur gefið okkur hverju og einu hæfileika sem við eigum að reyna að nota í samræmi við vilja Guðs og öðrum mönnum til góðs.

Samantekt

Guð hefur gefið okkur lífið, skapað okkur til samfélags við sig. Þess vegna erum við öll svo óendanlega dýrmæt í hans augum. Spurningin er hins vegar sú, hvort við leyfum Guði að komast að í lífi okkar, hvort við lifum í því samfélagi við Guð sem við vorum sköpuð til?

Minnisvers

Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu. (I. Mós. 1:27)

Bæn

Í bæninni gætum við þakkað Guði fyrir það líf sem hann hefur gefið okkur, allar góðar gjafir hans sem við njótum á hverjum degi. Við getum þakkað honum fyrir Biblíuna og bænina, beðið hann að hjálpa okkur að lifa í samfélagi við sig og nota líf okkar öðrum til góðs.