Texti: Mark. 4:35-41
Að kvöldi sama dags sagði Jesús við þá: „Förum yfir um vatnið!“ Þeir skildu þá við mannfjöldann, fóru í bátinn þar sem Jesús var og sigldu burt. Aðrir bátar fylgdu þeim eftir. Þá brast á stormhrina mikil og féllu öldurnar inn í bátinn svo við lá að hann fyllti. Jesús var í skutnum og svaf á kodda. Þeir vöktu hann og sögðu við hann: „Meistari, hirðir þú ekki um að við förumst?“
Hann vaknaði, hastaði á vindinn og sagði við vatnið: „Þegi þú, haf hljótt um þig!“ Þá lægði vindinn og gerði stillilogn. Og hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, hafið þið enn enga trú?“
En þeir urðu miklum ótta lostnir og sögðu hver við annan: „Hver er þessi? Jafnvel vindur og vatn hlýða honum.“
Starfsgagnalisti
Barnabók í handbókasafni leiðtoga
Nick Butterworth & Mick Inkpen, En mus forteller. Jesus og stormen (Nye Luther Forlag,1988)
Saga músarinnar: Jesús hastar á storminn. Mús verður vitni að kraftaverkinu þegar Jesús lægir vind og sjó. Forsk, Barn 1. Einnig til á gamaldagslitglærum G43.
Verkefni
Í tengslum við efni fundarins er við hæfi að notast við hvers kyns traustleiki. Í þemahefti Landssambandsins (grænt leiðtogahefti nr. 2) er að finna tillögu um tvo leiki sem tjá það að treysta einhverjum fyrir lífi sínu (fallhlífarstökk og „bakfall“ bls. 8-9). Heftið er aðgengilegt í þjónustumiðstöð KFUM og KFUK. Í sama hefti er einnig umfjöllun um atburðinn á vatninu.
Þá má finna hvers kyns traustleiki á vefnum t.d. á skátavefnum, http://157.157.45.203/skatadagskra2/default.aspx?tID=288. Þá eru ýmislegt efni á efnisveitu KFUM og KFUK sem má notast við, t.d. blindingjaleik. Eins má finna fjölbreyttar nálganir á hugtakið traust á slóðinni http://kfum.is/efnisveita/tag/traust/.
Framhaldssaga
„Við Guð erum vinir“ – kaflinn: „Baunir og bænir“ bls. 18-23.
Tenging: Í kaflanum er m.a. fjallað um mátt Guðs og umhyggju (brauðundrið) og hvernig Guð vill nota okkur til að gera vilja sinn að veruleika hér á jörð.
Söngvar
- Misserissöngurinn: Stjörnur og sól
- Ástarfaðir himinhæða
- Drottinn Guð er styrkur minn
- Drottinn Guð, hve gott að vakna
- Drottinn mun sjálfur fara fyrir þér
- Enginn þarf að óttast síður
- Mitt fley er svo lítið
Hugleiðing
Boðskapur
Það að Guð er almáttugur merkir að lífið er í hendi hans. Hann getur gripið inn í rás atburðanna á óvæntan hátt ef það er í samræmi við vilja hans. Við getum örugg falið líf okkar í hans hendur.
Aðkoma
Strax í upphafi mætti spyrja krakkana hvort þau hafi ekki stundum upplifað það að verða hrædd. Ef til vill hafa þau týnst, verið ógnað á einhvern hátt, lent í slæmu veðri…
Þá má spyrja þau hvaða viðbrögð við sínum í hættulegum eða erfiðum aðstæðum. Þannig má nefna að sumir hrópa, flýja, biðja, verða óöruggir um líf sitt o.s.frv.
Meginmál
Í dag ætlum við að læra hvað það merkir í trúarjátningunni að Guð sé almáttugur og hvaða þýðingu það hafi fyrir okkar trú á Guð.
Hægt er að endursegja texta dagsins.
Eitt sinn þegar Jesús var búinn að kenna fólkinu margt um ríki Guðs, fór hann seint um kvöld með lærisveinum yfir Geneseretvatnið, kannski til að fá næði.
Þá brast á mikið óveður. Jesús var sofandi í bátnum og lærisveinarnir urðu dauðskelkaðir, óttuðust öldurnar og voru hræddir um að farast. Hvernig brugðust þeir síðan við? Jú, þeir vöktu Jesú og ásökuðu hann nánast fyrir kæruleysi: „hirðir þú ekki um, að vér förumst“.
Við getum líkt lífinu við sjóferð. Stundum finnst okkur stórar öldur allt í kringum okkur og okkur finnst kannski Guð ekki senda okkur þá hjálp sem við vonuðumst eftir. Okkur finnst Guð vera sofandi.
Þegar Jesús vaknaði, spurði hann lærisveinana hvers vegna þeir væru hræddir, hvers vegna þeir treystu sér ekki. Það mikilvægasta var að Jesús var hjá þeim hvað sem á gekk. Þess vegna þurftu lærisveinarnir í raun ekkert að óttast. Síðan hastaði Jesús á vindinn og sýndi þannig að honum var gefið vald frá Guði, undirstrikaði að það væri óhætt að fela honum líf sitt.
Það þarf að koma fram að lærisveinar Jesú sleppa ekki við allar hættur. Þeir verða jafnvel hræddir. En þeir vita hvert þeir geta leitað með ótta sinn. Þannig getum við treyst Guði fyrir lífi okkar, hvílt í hendi hans í þeirri vissu að hann muni varðveita okkur frá illu. Við getum leitað til Guðs, hvenær sem er og í hvaða vanda sem er.
Já, við getum treyst því að hann er með okkur einmitt þegar okkur finnst við í mestri hættu, eða okkur líður illa á einhvern hátt.
Jesús svarar ekki alltaf bænum okkar á þann hátt sem við viljum. En við getum verið þess fullviss að hann heyrir hróp okkar og bænir og svarar á þann hátt sem okkur er fyrir bestu. Það að Guð er almáttugur merkir ekki að Guð geri hvað sem er og hvenær sem er. Guð er ekki galdrakarl eða jólasveinn sem gefur okkur allt sem okkur dettur í hug. En Guð er sá sem hefur lífið í sinni hendi og viðheldur því. Hann er nálægur hverjum þeim sem ákallar hann í einlægni.
Samantekt
Í alveldi sínu vakir Guð yfir okkur og vill vernda okkur frá illu. Hann vill að við lærum að treysta Jesú fyrir lífi okkar, hvað sem á gengur, jafnt í gleði og sorg.
Minnisvers
Sjá, hönd Drottins er eigi svo stutt, að hann geti ekki hjálpað, og eyra hans er ekki svo þykkt, að hann heyri ekki. (Jes. 59:1)
Bæn
Við getum þakkað Guði fyrir að við megum leita til hans í hvaða vanda sem er, þakkað fyrir Jesú sem er gefið „allt vald á himni og jörðu“ og beðið um hjálp Guðs til að treysta honum fyrir lífi okkar.
Einnig má nota bæn úr bók Sigurðar Pálssonar: „Börn og bænir“ (bls. 33).
Góði Jesús.
Þú sem lægðir storminn einu sinni,
vertu hjá mér í skólanum í dag
og gættu mín í frímínútunum.
Sumir eru alltaf að stríða
og það er svo leiðinlegt.
Það hlýtur að vera leyfilegt
að vera pínulítið öðruvísi en aðrir,
því að þú hefur skapað okkur þannig.
Hjálpaðu okkur til að leika okkur saman.
Viltu vera svo góður
að vera með öllum börnum sem eru hrædd.
(Frá Noregi)
Popptenging
Lead India – The Tree
Við erum kölluð til að vera hendur almáttugs Guðs á jörðu. Þegar við biðjum, þurfum við að vera tilbúin til að vera bænasvarið sem við væntum.