Texti: Matt. 6:5-15

Og þegar þér biðjist fyrir þá verið ekki eins og hræsnararnir. Þeir vilja helst standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum til þess að menn sjái þá. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín. En þegar þú biðst fyrir skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.

Þegar þér biðjist fyrir skuluð þér ekki fara með fánýta mælgi eins og heiðingjarnir. Þeir hyggja að þeir verði bænheyrðir fyrir mælgi sína. Líkist þeim ekki. Faðir yðar veit hvers þér þurfið áður en þér biðjið hann. En þannig skuluð þér biðja:

Faðir vor, þú sem ert á himnum.

Helgist þitt nafn,

til komi þitt ríki,

verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.

Gef oss í dag vort daglegt brauð.

Fyrirgef oss vorar skuldir

svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.

Og eigi leið þú oss í freistni heldur frelsa oss frá illu.

Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu, amen.

Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður. En ef þér fyrirgefið ekki öðrum mun faðir yðar ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar.

Bænin „Faðir vor“

Bænin „Faðir vor“ var undirstaðan í fræðsluefni KFUM og KFUK haustið 2012. Hér er stutt upprifjun á uppbyggingu bænarinnar. Hún hefst á ávarpinu „faðir vor“, þá taka við þrjár bænir um Guð: 1. Helgist þitt nafn, 2. Til komi þitt ríki, 3. Verði þinn vilji. Þessu næst biðjum við fyrir þörfum okkar í fjórum bænum: 4. Gef oss daglegt brauð, 5. Fyrirgef oss, 6. Leið oss ekki í freistni, 7. Frelsa oss frá illu. Í niðurlaginu lofum við svo Guð og treystum á kraft hans og tölum um: 1. Ríkið, 2. Mátturinn, 3. Dýrðin, 4. Amen.

Verkefni

„Ekki trufla mig Guð“ leikþáttur

Leikþátturinn hentar öllum aldri og fjallar um samtal Guðs við mann sem er að biðja „Faðir vor“ án þess að skilja merkingu þess. Leikþátturinn er á slóðinni http://kfum.is/efnisveita/2012/12/ekki-trufla-mig-gud-helgileikur/.

Bænalistar

Láta krakkana útbúa bænalista í hópum eða hvern fyrir sig. Þeir gætu t.d. reynt að finna sérstakt bænar og/eða þakkarefni út frá hverri bæn í Faðir vor. Hægt er að notast við blað þar sem búið er að setja upp „Faðir vor“ og hægt að skrifa bænarefni við hlið þess.

Framhaldssaga

„Við Guð erum vinir“ – kaflinn: „Óskirnar tíu“ bls. 12¬17.

Tenging: Júlía lærir að biðja rétt.

Söngvar

  • Misserissöngurinn: Stjörnur og sól
  • Ástarfaðir himinhæða
  • Bið, þá öðlast þú
  • Bæn sendu beðna að morgni
  • Eigi stjörnum ofar
  • Kæri faðir
  • Ver mér nær, ó, Guð

Hugleiðing

Boðskapur

Lúther útskýrir byrjunina á Faðir vor þannig:

Faðir vor, þú sem ert á himnum. Hvað er það?

Svar: Guð vill með því laða okkur til að trúa því, að hann sé okkar sanni faðir og við hans sönnu börn, til þess að við skulum biðja hann örugg og með fullu trausti sem elskuleg börn sinn elskulega föður.

Aðkoma

Byrja mætti á því að fá krakkana til að taka þátt í eins konar hugflæði. Spyrja þá hvernig þeir vilji útskýra hvað bæn sé. Hægt sé að skrifa á töflu eða stórt blað hugmyndir krakkanna. Spyrja má krakkana hvort þeir kunni margar bænir, hvort þeir biðji með eigin orðum, hvort stundum sé erfitt að biðja, hvort við biðjum stundum á rangan hátt … o.s.frv.

Meginmál

Jesús kenndi lærisveinum sínum eitt sinn að biðja. Hann sagði þeim að þeir ættu ekki að biðja eins og farísearnir. Jesús vildi ekki að við bæðum til að sýnast fyrir mönnunum. Hann sagði að lærisveinarnir ættu að biðja í einrúmi. Með því var Jesús að leggja áherslu á að bænin snýst um samskipti við Guð og að ytri rammi bænarinnar, kyrrð, spenntar greipar, lokuð augu og/eða upplyftar hendur hefur einvörðungu gildi fyrir okkur en skiptir ekki máli fyrir Guð. Jesús vildi að lærisveinarnir skildu að bænin er samtal við Guð, samfélag við hann. Guð þekkir okkur og þess vegna þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því þótt sumar bænir okkar séu klaufalegar, Guð veit hvers við þörfnumst.

Sagt hefur m.a. verið um bænina: „Að biðja er að eignast Guð að förunaut“ (bók SP bls. 5). Við gætum sagt við krakkana: „Að biðja er að eignast Guð sem vin.“ Þetta vildi Jesús kenna lærisveinunum með bæninni „Faðir vor.“ „Faðir vor“ eru margar bænir. Hér má útskýra í grófum dráttum hvernig skipta má Faðir vor niður (sjá nánar í fræðsluefni haustið 2012 á slóðinni http://kfum.is/efnisveita/fraedsluefni-kfum-og-kfuk/fraedsluefni-haust-2012/).

  1. Ávarpið í upphafi gefur til kynna hve náið sambandið við Guð á að vera. Sambandið á að vera eins og barns við kærleiksríkan pabba sinn, eða góðan vin.
  2. Bænir 1-3 fjalla um Guð og vilja hans. Við biðjum ekki aðeins að Guðs vilji verði almennt eða að ríki hans eflist í Afríku. Við erum að biðja þess að þetta verði í okkar lífi.
    • Ríki Guðs = Þar sem Guðsvilji ræður.
  3. Bænir 4-7 fjalla um þarfir okkar í nútíð (4), fortíð (5) og framtíð (6 og 7).
    • Daglegt brauð = allt sem við þurfum til að geta lifað góðu lífi.
    • Freistni = Reynsla eða prófraun.
  4. Niðurlagið er lofgjörð til Guðs.
    • Amen = Sannarlega, svo skal verða.

Samantekt

Í lok hugleiðingarinnar kemur hvatning til bænar. Lögð er áhersla á að við megum tala við Guð eins og kærleiksríkt foreldri eða vin, hvenær sem er, hvar sem er, um hvað sem er og hvernig sem okkur líður. Síðan má kenna minnisversið sem er fyrirheit um bænina.

Minnisvers

Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. (Matt. 7:7)

Bæn

Í bæninni má þakka Guði fyrir bænina og að hann skuli vilja hlusta á okkur hvernig sem okkur kann að líða. Einnig má þakka fyrir kærleika Guðs og biðja Guð að hjálpa okkur að biðja fyrir öðrum.