Um samveruna – aðventuna
Síðustu fjórar vikurnar fyrir jól er kallaðar aðventa eða jólafasta. Þennan tíma notum við til að undirbúa okkur fyrir jólahátíðina sjálfa og komu frelsarans. Hringurinn, sem er form aðventukransins, táknar eilífðina og hið sígræna greni táknar lífið sem er í Kristi. Fyrsta kertið nefnist spádómakertið og minnir á fyrirheit spámanna Gamla testamentisins er höfðu sagt fyrir um komu frelsarans mörgum öldum áður. Annað kertið nefnist Betlehemskertið. Þar er athyglinni beint að þorpinu sem Jesús fæddist í og þar sem ekkert pláss var fyrir hann. Þriðja kertið nefnist hirðakertið en snauðum og ómenntuðum fjárhirðum voru sögð tíðindin góðu á undan öllum öðrum. Fjórða kertið nefnist síðan englakertið og minnir okkur á þá sem báru mannheimi fregnirnar. Kertin bera einnig önnur heiti, kerti vonarinnar, kærleikans, gleðinnar og friðarins.
Markmið samverunnar
Biðin og eftirvæntingin fyrir það sem koma skal er mikilvægur hluti af kirkjuárinu. Til að hjálpa okkur að muna og undirbúa okkur, þá getum við hlustað á og sagt sögur sem kalla fram gleði og von.
Hugleiðing
Lesum úr Matteusarguðspjalli:
Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem og sögðu: „Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Við sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu.“ Þegar Heródes heyrði þetta varð hann skelkaður og öll Jerúsalem með honum. Og hann stefndi saman öllum æðstu prestum og fræðimönnum og spurði þá: „Hvar á Kristur að fæðast?“ Þeir svöruðu honum: „Í Betlehem í Júdeu. En þannig er ritað hjá spámanninum: Þú Betlehem, í andi Júda, ekki ert þú síst meðal hefðarborga Júda. Því að höfðingi mun frá þér koma sem verður hirðir lýðs míns, Ísraels.
Frásögn Lúkasar er þekktari enda um jólaguðspjallið að ræða.
En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð. En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi.
Ítarefni
Fjögur kerti – Saga um aðventukransinn
Hægt er að nota sögu í þýðingu Péturs Björgvins Þorsteinssonar sem ber heitið „Fjögur kerti“ og má finna m.a. á Vísindavef HÍ á slóðinni http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=4656.
Lestrarleikrit – Jólaskórnir tala saman
Leikritið „Jólaskórnir tala saman“ er hægt að finna í bókinni „Lifandi leikur – Tuttugu leikþættir handa börnum og unglingum“ sem Hreinn S. Hákonarson gaf út 1995. Hægt er að fá bókina lánaða í þjónustumiðstöð KFUM og KFUK.
Söngur – Við kveikjum einu kerti á
Við kveikjum einu kerti á,
Hans koma nálgast fer,
sem fyrstu jól í jötu lá
og jesúbarnið er.
Við kveikjum tveimur kertum á
og komu bíðum hans.
Því Drottin sjálfur soninn þá
mun senda´ í líking manns.
Við kveikjum þremur kertum á
því konungs beðið er,
þótt Jesús sjálfur jötu og strá
á jólum kysi sér.
Við kveikjum fjórum kertum á;
brátt kemur gesturinn
og allar þjóðir þurfa að sjá
að það er frelsarinn.