Ágústa fékk eitt sinn að dvelja á sveitabýli part úr sumri. Þegar hún hafði dvalið í rúma viku gerðist dálítið sem varð nærri því til þess að hún færi aftur heim.

Ágústa hafði þann leiða vana að segja „Guð minn góður“ og „ó, Jesús minn“ í tíma og ótíma. Þetta líkaði bóndanum sem hún var hjá illa og bað hann hana um að reyna að hætta þessum vana.

„Þú tekur þetta allt of hátíðlega,“ svaraði hún „ég meina ekkert með þessu. Þetta getur varla verið svo slæmt að það skipti einhverju máli.“

„Okkur líkar ekki að heyra einhvern misnota Guðs nafn,“ svaraði bóndinn. En Ágústa tók ekkert mark á því sem hann sagði.

Allt í einu hugkvæmdist bóndanum ráð til að reyna að venja hana af þessum ósóma.

Einn morguninn þegar Ágústa kom fram í eldhús ávörpuðu allir hana „ó, Ágústa mín“. Úti í fjósi var hún ávörpuð með sama hætti og þannig gekk dagurinn. Í tíma og ótíma voru menn að kalla „ó, Ágústa mín“ þótt þeir ættu lítið eða ekkert erindi við hana.

Þetta leiddist Ágústu afskaplega og þegar leið á daginn var hún orðin reið og kvartaði við bóndann. Vildi hún að hann bannaði fólkinu að koma svona fram við sig.

„Taktu þetta ekki svona hátíðlega,“, svaraði bóndinn, “fólkið meinar ekkert með þessu, ég get ekki séð neina ástæðu til að amast við þessu.”

„Ég kæri mig ekkert um að fólk sé að staglast svona á nafninu mínu án þess að meina neitt með því sem það segir. Ef þú bannar ekki fólkinu að láta svona fer ég héðan á morgun.“

Þá sagði bóndinn alvarlegur í bragði: „Skilurðu ekki neitt? Þú vilt að ég banni mínu fólki að misnota nafnið ÞITT, en þegar ég bið þig um að þú hættir að misnota nafn GUÐS, þá er þér hjartanlega sama.”

Það rann upp ljós fyrir Ágústu og hún skammaðist sín fyrir hversu skammsýn hún var. Frá þessari stundu reyndi hún ætíð að forðast það að „leggja nafn Guðs við hégóma“, þ.e. nota nafn Guðs án þess að meina neitt með því.

Úr Hirðinum (jan-apr 1989)