Um samveruna
Hvað er það? Svar: Guðs góði, náðugi vilji verður að vísu án bænar vorrar, en vér biðjum í þessari bæn, að hann verði einnig hjá oss.
Hvernig verður það? Svar: Þegar Guð ónýtir og hindrar öll ill ráð og vilja, sem vill aftra því, að vér helgum Guðs nafn og ríki hans komi, en það er vilji djöfulsins, heimsins og holds vors, en styrkir oss og heldur oss staðföstum í orði sínu og trú til æviloka. Það er hans náðugi, góði vilji.
Markmið samverunnar
Guð vill að allt sé gott, en hið illa er til staðar? Hér fáum við börnin til að hugsa hvað þau geti gert svo vilji Guðs megi ríkja með okkur.
Biblíutextar
Nú var mikill fjöldi saman kominn og menn komu til Jesú úr hverri borg af annarri. Þá sagði hann þessa dæmisögu: „Sáðmaður gekk út að sá sæði sínu. Og þá er hann sáði féll sumt hjá götunni og varð fótum troðið og fuglar himins átu það upp. Sumt féll á klöpp. Það spratt en skrælnaði af því að það hafði ekki raka. Og sumt féll meðal þyrna og þyrnarnir spruttu einnig og kæfðu það. En sumt féll í góða jörð, óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt.“ Að svo mæltu hrópaði Jesús: „Hver sem eyru hefur að heyra hann heyri.“
En lærisveinar hans spurðu Jesú hvað þessi dæmisaga þýddi. Hann sagði: „Ykkur er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum að sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi skilji þeir ekki.
En dæmisagan þýðir þetta: Sæðið er Guðs orð. Það er féll hjá götunni merkir þá sem heyra orðið en síðan kemur djöfullinn og tekur það burt úr hjarta þeirra til þess að þeir trúi ekki og verði hólpnir. Það er féll á klöppina merkir þá sem taka orðinu með fögnuði er þeir heyra það en hafa enga rótfestu. Þeir trúa um stund en falla frá á reynslutíma. Það er féll meðal þyrna merkir þá er heyra en kafna síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og bera ekki þroskaðan ávöxt. En það er féll í góða jörð merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi. Lk 8.4-15
Og þótt þér gerið þeim gott sem yður gera gott, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar gera og hið sama. Og þótt þér lánið þeim sem þér vonið að muni borga, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar lána einnig syndurum til þess að fá allt aftur.
Nei, elskið óvini yðar og gerið gott og lánið án þess að vænta nokkurs í staðinn, og laun yðar munu verða mikil og þér verða börn Hins hæsta því að hann er góður við vanþakkláta og vonda. Verið miskunnsöm eins og faðir yðar er miskunnsamur. Lk 6.33-36
Að nálgast efni dagsins
- Hægt er að notast við samræður og fá börnin til að svara spurningunni: Hvað er það sem Guð vill? (Sjá nánar í meðfylgjandi verkefni.)
- Vilji Guðs – 1Tm 2.4
- Kynning fyrir verkefnið Jól í skókassa þyrfti að vera á þessum fundi. (Sjá nánar í samveru 6).
Hugleiðing
Þegar sáðmaðurinn í sögunni fór út að sá, þá ákvað hann að dreifa sæði sínu sem víðast. Hann tók ekki ákvörðun að einbeita sér að einhverju ákveðnu einu svæði sem líklegast var að myndi hafa góða svörun. Nei, hann dreifði frækornunum út um allt.
Á sama hátt eigum við að dreifa góðverkum okkar alls staðar. Í Lúkasarguðspjalli stendur: „Og þótt þér gjörið þeim gott, sem yður gjöra gott, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar gjöra og hið sama. Og þótt þér lánið þeim, sem þér vonið að muni borga, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar lána einnig syndurum til þess að fá allt aftur. Nei, elskið óvini yðar, og gjörið gott og lánið án þess að vænta nokkurs í staðinn, og laun yðar munu verða mikil, og þér verða börn hins hæsta, því að hann er góður við vanþakkláta og vonda.“
Við biðjum um að vilji Guðs – hið góða, fagra og fullkomna – ríki enda alls staðar, jafnt á jörðu sem á himni. Ef himinninn er tákn fyrir kirkjuna þá er jörðin tákn fyrir það sem er utan kirkjunnar. Þar biðjum við líka um vilja Guðs.
Framhaldssaga – Við Guð erum vinir
- Slöngutemjarinn, bls. 65-69
- Óvinir, bls. 70-75
Verkefni
Hvað vill Guð?
Hér fyrir neðan getur þú skrifað nokkrar setningar um hver vilji Guðs er í okkar lífi.
- Guð vill að ég sé …
- Guð vill að fjölskyldan mín …
- Guð vill að vinir mínir …
- Guð vill að landið mitt …
- Guð vill að jörðin …
Söngvar
- BIBLÍA