Um samveruna

Hvað er það? Svar: Guðs ríki kemur að sönnu án vorrar bænar af sjálfu sér, en vér biðjum í þessari bæn, að það komi einnig til vor.

Hvernig verður það? Svar: Þegar vor himneski faðir gefur oss sinn heilaga anda, svo að vér fyrir náð hans trúum hans heilaga orði og lifum guðlega hér í tímanum og annars heims að eilífu.

Markmið samverunnar

Að fá börnin til að hugsa um hvernig væri á jörðinni ef ríki Guðs ríkti að fullu meðal okkar. Láta ungmennin stefna að því að guðsríkið fá vaxið og dafnað með þeim, í þeim og í kringum þau.

Biblíutextar

Jesús settist gegnt fjárhirslunni og horfði á fólkið leggja peninga í hana. Margir auðmenn lögðu þar mikið. Þá kom ekkja ein fátæk og lét þar tvo smápeninga, eins eyris virði. Og hann kallaði til sín lærisveina sína og sagði við þá: ,,Sannlega segi ég yður, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir, er lögðu í fjárhirsluna. Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína.” Mk. 12, 41-44

… Ég bið ekki að þú takir þá úr heiminum heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa. Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur. Ég hef sent þá í heiminn, eins og þú sendir mig í heiminn. Ég helga mig fyrir þá svo að þeir séu einnig helgaðir í sannleika. … Jh. 17.1-26

En ávöxtur andans er: kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Gegn slíku er lögmálið ekki. Gal 5.22-23

Jesús fór nú um allar borgir og þorp og kenndi í samkundum þeirra. Hann flutti fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi. En er Jesús sá mannfjöldann kenndi hann í brjósti um hann því menn voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir er engan hirði hafa. Þá sagði hann við lærisveina sína: „Uppskeran er mikil en verkamenn fáir. Biðjið því Drottin uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ Mt 9.35-38

Að nálgast efni dagsins

  • Ef við værum konungar/drottningar, hvernig væri ríkið sem við myndum stjórna? Hvað myndum við gera til að þegnar okkar myndu hlýða okkur og fylgja vilja okkar?
  • Hvar er ríki Guðs? Það er þar sem orði hans er fylgt. Guð gefur okkur þátttökurétt í ríki sínu. Hann gæti verið einræðisherra en þess í stað kallar hann þegna sína til þjónustu.
  • Ríki Guðs er ekki draumaland heldur veruleiki þeirra sem fylgja orðum hans.
  • Hægt er að notast við kvikmyndina „Pay It Forward“ í unglingastarfi til að fjalla um góðverk og ríki Guðs.
  • Mt 13.31-32 fjallar um guðsríkið. Hvað er afgerandi við það að tilheyra Guðs ríki?
  • Guðs ríki byggir á manneskjum sem lúta Drottni.
  • Sagan er uppfull af einstaklingum sem telja að þeirra sýn og þeirra ríki sé besta ríki heims.
  • I can only imagine er lag með MercyMe. Hægt er að láta eldri ungmenni hlusta á lagið. Þar eru tónlistarmennirnir að velta fyrir sér hvernig þeir muni bregðast við þegar þeir mæta Kristi á himnum. Ef við köllum okkur kristin þá mætum við Kristi í náunga okkar á hverjum degi. Af hverju ætti það að hafa önnur áhrif á okkur að mæta Kristi þegar við komum til himna?

Hugleiðing

Jesús settist gegnt fjárhirslunni og horfði á fólkið leggja peninga í hana. Margir auðmenn lögðu þar mikið. Þá kom ekkja ein fátæk og lét þar tvo smápeninga, eins eyris virði. Og hann kallaði til sín lærisveina sína og sagði við þá: ,,Sannlega segi ég yður, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir, er lögðu í fjárhirsluna. Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína.” Mk. 12, 41-44

Í Biblíunni gefst okkur tækifæri til að heyra um Guðs ríki, veröld þar sem réttlætið ríkir og kærleikurinn ræður ferðinni. Þar eru allir jafnir og enginn tekur sínar þarfir fram yfir annarra og því fá allir þörfum sínum fullnægt. En við heyrum líka að ríki Guðs sé enn ekki komið fram að fullu og því sé veröldin ekki alltaf í samræmi við vilja Guðs.

Í Faðir vor-inu biðjum við Guð um að ríki Guðs ríki. Við biðjum um heim þar sem við þurfum ekki að berjast fyrir því að verða ekki undir heldur megum lifa í öryggi og fullvissu þess að þörfum okkar sé mætt að fullu.

Slíkt ríki hér á jörðinni í dag, er háð því að við sem trúum og treystum Jesú, leitumst við að skapa slíkt ríki, hendur okkar eru hendur Guðs á jörðu og með því að biðja Guð um að ríki hans verði, erum við jafnframt að lofa því að leggja okkar af mörkum til að ríki Guðs ríki.

Þegar við biðjum Guð um að ríki hans komi erum við að taka áhættu. Við þurfum að vera tilbúin til að hjálpa Guði, leggja okkar af mörkum, svo bænin megi rætast.

Á Íslandi býr eina af tuttugu ríkustu þjóðum í heimi ef litið er til peninga og eigna. Erum við til í að gefa af gnægtum okkar svo vilji Guðs nái fram að ganga?

Framhaldssaga – Við Guð erum vinir

  • Gjöf Júlíu bls. 24-28

Hjálpar-/ítarefni

  • Sagnaskrín – 76. Gleymska
  • Sagnaskrín – 82. Góður engill
  • Sagnaskrín – 174. Litli prédikarinn
  • Sagnaskrín – 246. Trú og verk

Söngur

  • Viltu vera verkamaður
  • Ég er með yður alla daga
  • Fús ég, Jesús, fylgi þér
  • Jesús, hvað get ég þér gefið?