Um samveruna
Hvað er það? Svar: Guðs nafn er að sönnu í sjálfu sér heilagt, en vér biðjum í þessari bæn, að það verði einnig heilagt hjá oss. Hvernig verður það? Svar: Þegar Guðs orð er kennt rétt og hreint og vér lifum einnig heilaglega eftir því sem Guðs börn. – Hjálpa þú oss til þess, elskulegi faðir á himnum. – En hver sem kennir og lifir öðruvísi en Guðs orð kennir, sá vanhelgar nafn Guðs meðal vor. – Varðveit þú oss frá því, himneski faðir.
Markmið samverunnar
Að hjálpa börnunum að skilja merkingu þess að eitthvað sé heilagt/helgað. Í skírninni erum við helguð Guði, við eigum líf sem er heilagt og eigum að fara vel með. Á sama hátt og við erum helguð og því heilög og eigum að fara vel með okkur, þá er Guð heilagur og okkur ber að koma fram við hann og nafn hans af virðingu.
Enginn vill láta misnota nafn sitt, láta meiða sig eða láta ljúga upp á sig skoðunum. Með því að leitast við að láta Guð njóta sannmælis helgum við nafn hans.
Biblíutextar
… Þegar Drottinn sá að hann gekk nær til að virða þetta fyrir sér kallaði Guð til hans úr miðjum runnanum og sagði: „Móse, Móse.“ Hann svaraði: „Hér er ég.“ Drottinn sagði: „Komdu ekki nær, drag skó þína af fótum þér því að staðurinn, sem þú stendur á, er heilög jörð.“ Og hann bætti við: „Ég er Guð föður þíns, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.“ … 2M 3.1-12
Drottinn mælti öll þessi orð:
„Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.
Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.
Þú skalt hvorki gera þér líkneski né neina eftirlíkingu af því sem er á himnum uppi eða því sem er á jörðu niðri eða í hafinu undir jörðinni. Þú skalt hvorki falla fram fyrir þeim né dýrka þau því að ég, Drottinn, Guð þinn, er vandlátur Guð og refsa niðjum í þriðja og fjórða lið fyrir sekt feðra þeirra sem hata mig en sýni kærleika þúsundum þeirra sem elska mig og halda boð mín. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt sem leggur nafn hans við hégóma. 2M 20.1-17Þá gekk hann inn í helgidóminn og tók að reka út þá er voru að selja og mælti við þá: „Ritað er:
Hús mitt á að vera bænahús
en þér hafið gert það að ræningjabæli.“
Daglega var hann að kenna í helgidóminum en æðstu prestarnir og fræðimennirnir, svo og fyrirmenn þjóðarinnar, leituðust við að ráða hann af dögum en fundu eigi hvað gera skyldi því að allt fólkið vildi ákaft hlýða á hann. Lk 19.45-48
Að nálgast efni dagsins
- Að vera heilagur merkir að vera tekinn frá, hafa ákveðið hlutverk. Hægt er að benda ungmennunum á að heilagur er ekki samheiti orðsins góður heldur orðsins FRÁTEKIN.
- Heilagleikinn birtist oft í því að við forðumst að óhreinka það sem við teljum heilagt. Við viljum að ekki falli blettur á það hlutverk sem hinu heilaga er ætlað.
- Þegar við notum Guð til að réttlæta eigin hugmyndir/fordóma erum við að vanhelga skaparann.
- Jesú var ætlað að lifa og deyja fyrir syndir okkar. Heilagleiki Jesú felst í hlutverki hans.
- Ef ekki er notast við söguna Við Guð erum vinir sem framhaldssögu er hægt að notast við söguna Misnotaðu ekki nafn Guðs í stað hugleiðingar.
- Einnig er hægt að notast við myndbrot úr Egypska prinsinum (teiknimynd) til að fjalla um það sem er heilagt. Notast er við brot þar sem Móse mætir Guði í brennandi runna. Hægt er að fá ungmennin til að svara spurningum eins og hvers vegna Móse fari úr skónum? Hvað merki að jörðin sem hann gangi á sé heilög? Þannig mætti halda áfram.
Hugleiðing
Þá gekk [Jesús] inn í helgidóminn og tók að reka út þá er voru að selja og mælti við þá: ,,Ritað er: Hús mitt á að vera bænahús, en þér hafið gjört það að ræningjabæli.”
Daglega var hann að kenna í helgidóminum, en æðstu prestarnir og fræðimennirnir svo og fyrirmenn þjóðarinnar leituðust við að ráða hann af dögum, en fundu eigi, hvað gjöra skyldi, því að allur lýðurinn vildi ákaft hlýða á hann. Lk. 19:45-48.
Ef við helgum Guð, þá minnumst við þess hver hann er, virðum hann og vilja hans með því að gera það sem hann ætlar okkur. Við vörumst að gera okkar eigin hugsanir eða fordóma að hugsunum Guðs. Ef við á sama hátt helgum eitthvað Guði, þá er það tileinkað honum og ekki ætlað öðrum að græða á því eða misnota það.
Guð er skapari, frelsari og huggari. Það sem er tileinkað honum á að sama skapi að nota til að vera skapandi, frelsandi og huggandi. Það að biðja þess að nafn Guðs helgist er að biðja þess að Guð og nafn hans sé ekki notað til að særa, meiða eða skemma þá sköpun sem HANN kom til að frelsa.
Það var þess vegna sem Jesús rak sölumennina út úr helgidóminum. Þeir höfðu farið inn í hús Guðs og misnotað það til að græða sjálfir peninga. Þeir seldu við borðin sín vörur sem þeir sögðu að hjálpuðu fólki að þekkja Guð, en voru í raun bara að pretta og svíkja.
Mörgum öldum seinna fóru menn um Evrópu og seldu aflátsbréf, þ.e. bréf sem á stóð að ef það keypti svona bréf þá myndi Guð fyrirgefa þeim. Þessir menn vanhelguðu nafn Guðs með því að segja að fyrirgefning Guðs væri ekki ókeypis heldur þyrfti að borga fyrir hana. Þá kom fram maður sem hét Marteinn Lúther og barðist gegn þessari misnotkun á fyrirgefningu Guðs.
Á öllum tímum er fólk sem vill nota aðstöðu sína til að misnota Guð og orðið hans, til að fordæma, meiða og særa.
Þegar við biðjum þess að nafn Guðs helgist, erum við að heita því að berjast gegn slíkri misnotkun líkt og Jesús í musterinu eða Marteinn Lúther í baráttu sinni við aflátssölumennina.
Framhaldssaga – Við Guð erum vinir
- Óhrein á höndunum bls 29-33
- Frú Bonkojevja og Salmonella Mirabella bls. 34-39
- Júlía kallar á frú Ragnheiði bls. 40-44
Söngvar
- Heilagur er Drottinn
Popptenging
Myndbrot úr Egypska prinsinum
http://www.youtube.com/watch?v=6LMlTfwyN88
Frásaga
Misnotaðu ekki nafn Guðs
Ágústa fékk eitt sinn að dvelja á sveitabýli part úr sumri. Þegar hún hafði dvalið í rúma viku gerðist dálítið sem varð nærri því til þess að hún færi aftur heim.
Ágústa hafði þann leiða vana að segja „Guð minn góður“ og „ó, Jesús minn“ í tíma og ótíma. Þetta líkaði bóndanum sem hún var hjá illa og bað hann hana um að reyna að hætta þessum vana.
„Þú tekur þetta allt of hátíðlega,“ svaraði hún „ég meina ekkert með þessu. Þetta getur varla verið svo slæmt að það skipti einhverju máli.“
„Okkur líkar ekki að heyra einhvern misnota Guðs nafn,“ svaraði bóndinn. En Ágústa tók ekkert mark á því sem hann sagði.
Allt í einu hugkvæmdist bóndanum ráð til að reyna að venja hana af þessum ósóma.
Einn morguninn þegar Ágústa kom fram í eldhús ávörpuðu allir hana „ó, Ágústa mín“. Úti í fjósi var hún ávörpuð með sama hætti og þannig gekk dagurinn. Í tíma og ótíma voru menn að kalla „ó, Ágústa mín“ þótt þeir ættu lítið eða ekkert erindi við hana.
Þetta leiddist Ágústu afskaplega og þegar leið á daginn var hún orðin reið og kvartaði við bóndann. Vildi hún að hann bannaði fólkinu að koma svona fram við sig.
„Taktu þetta ekki svona hátíðlega,“, svaraði bóndinn, “fólkið meinar ekkert með þessu, ég get ekki séð neina ástæðu til að amast við þessu.”
„Ég kæri mig ekkert um að fólk sé að staglast svona á nafninu mínu án þess að meina neitt með því sem það segir. Ef þú bannar ekki fólkinu að láta svona fer ég héðan á morgun.“
Þá sagði bóndinn alvarlegur í bragði: „Skilurðu ekki neitt? Þú vilt að ég banni mínu fólki að misnota nafnið ÞITT, en þegar ég bið þig um að þú hættir að misnota nafn GUÐS, þá er þér hjartanlega sama.”
Það rann upp ljós fyrir Ágústu og hún skammaðist sín fyrir hversu skammsýn hún var. Frá þessari stundu reyndi hún ætíð að forðast það að „leggja nafn Guðs við hégóma“, þ.e. nota nafn Guðs án þess að meina neitt með því.
Úr Hirðinum (jan-apr 1989)