Um samveruna
Hvað er það? Svar: Guð vill með því laða oss til að trúa því, að hann sé vor sanni faðir og vér hans sönnu börn, til þess að vér skulum biðja hann örugg og með fullu trausti sem elskuleg börn sinn elskulega föður. (Marteinn Lúther)
Markmið samverunnar
Markmið með þessum fundi eru tvenns konar:
- Að börnin skilji hvað í því felst að Guð er faðir. Að þau skilji að Guð hefur skapað allt sem er og ber umhyggju fyrir okkur.
- Að Guð er faðir allra manna. Við biðjum ekki „faðir minn“, heldur „faðir vor“ og lýsum því yfir að Guð okkar er Guð allra manna.
Biblíutextar
Svo bar við, er Jesús var á stað einum að biðjast fyrir, að einn lærisveina hans sagði við hann þá er hann lauk bæn sinni: „Drottinn, kenndu okkur að biðja eins og Jóhannes kenndi lærisveinum sínum.“ En hann sagði við þá: „Þegar þér biðjist fyrir, þá segið:
Faðir,
helgist þitt nafn,
til komi þitt ríki, …Lk 11.1-2Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig,
hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það,
þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.
Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það
og alla vegu mína gjörþekkir þú. … Sálm 139
Að nálgast efni dagsins
- Formlegt bréf hefst á ávarpi. Þegar við tölum við einhvern þurfum við að ávarpa viðmælandann. Annars veit enginn við hvern við tölum. Hvernig myndir þú vilja ávarpa Guð?
- Spyrja hvort börnin kunni Faðir vor!
- Hvað felst í nafninu okkar? Hægt er að fá ungmennin til að deila með hópnum einu merkilegu við nafnið þeirra.
- Hvert er heimilisfang Guðs?
- Hægt er að fá ungmennin til að velta því upp hvað gerir foreldra góða. Hægt er að notast við blöð og blýanta, fá þau til að rétta upp hönd eða einfaldlega varpa spurningunni fram og láta þau velta henni fyrir sér.
- Í skírninni erum við tekin inn í fjölskyldu Guðs, kirkjuna.
- Hægt er að láta ungmennin skrifa kærleiks- og þakkarbréf til pabba og/eða mömmu. Þau geta sett bréfið í umslag, skrifað utan á það og síðan geta leiðtogar komið umslögunum inn á Holtaveg þar sem þau eru sett í póst.
Hugleiðing
,,Hvernig á ég að tala við Guð?” spurði einn lærisveina Jesú. Hann vildi vita hvernig væri rétt að ávarpa Guð. Hér á haustmisseri verður fjallað um svar Jesú og um bænina Faðir vor. En þegar lærisveinarnir vildu læra að biðja, kenndi Jesús þeim einmitt þá bæn.
Lærisveinarnir sáu hversu mikilvæg bænin var í lífi Jesú sjálfs og af þeim sökum vildu þeir líka læra að biðja RÉTT.
Jesús segir þeim að tala við Guð eins og föður. Hann notast við orðið abba á sínu máli, sem væri líka hægt að þýða sem pabbi eða jafnvel baba, eins og smábörn kalla oft pabba sinn. Jesús vildi nefnilega sýna lærisveinunum að Guð á himnum er sá sem stendur okkur næst, hann er sá sem elskar okkur eins og hið besta foreldri.
En Guð er ekki bara „baba“ okkar, hann er pabbi allra, orðið vor sem er hin gamla fleirtala af orðinu okkar, segir okkur að Guð er ekki eingöngu pabbi minn, ég á hann ekki einn og sjálfur. Hann er pabbi allra sem vilja taka við honum.
Á sama hátt staðsetjum við þennan pabba í bæninni. Við erum að ávarpa þann föður sem er á himnum, þann föður sem umlykur allt og er alls staðar. Himinninn þar sem Guð býr er hver sá staður þar sem vilji Guðs verður að veruleika. Guð er mitt á meðal okkar þegar við leitum til hans í bæn (sbr. Sálm 139.1-16).
Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.
Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.
Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það, og alla vegu mína gjörþekkir þú.
Því að eigi er það orð á tungu minni, að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.
Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefir þú lagt á mig.
Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn.
Hvert get ég farið frá anda þínum og hvert flúið frá augliti þínu?
Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar.
Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf, einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér.
Og þótt ég segði: Myrkrið hylji mig og ljósið í kringum mig verði nótt,
þá myndi þó myrkrið eigi verða þér of myrkt og nóttin lýsa eins og dagur, myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér.
Því að þú hefir myndað nýru mín, ofið mig í móðurlífi.
Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.
Beinin í mér voru þér eigi hulin, þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar.
Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn.
Framhaldssaga – Við Guð erum vinir
Guð er hjá Júlíu Friðriksdóttur í Hafragili bls 7-11
Söngvar
- Er ég horfi á himininn