Um samveruna
„Biðjið – og yður mun gefast!“ segir Jesús, og talar um að við eigum ekki að þreytast í bæninni og ekki gefast upp á að leita og knýja á – og þetta ítrekar hann enn og aftur. Vissulega gefst okkur oft bænheyrslan undursamleg og dásamleg. Þó höfum við oft beðið, já, hrópað til Guðs í ýtrustu neyð, án þess að fá nokkurt svar. Mörg og sár vonbrigði varða veg bænalífsins og oft varð það til þess að bænin þagnaði og vonin visnaði og trúin dó.
Að biðja í trú merkir að treysta Guði, að hann viti hvað okkur er fyrir bestu og vilji veita okkur það. Hann gefur okkur það sem við helst þurfum og það þiggur maður með gleði og þökk í trúnni. Og eitt er það sem Guð gefur þeim sem trúir: Heilagan anda, og það kemur ekki fram í yfirnáttúrulegum hæfileikum og gáfum, heldur í ávöxtum andans, í iðrun, trú, í gleði og helgun. ,,Biðjið!” segir Jesús, og í orðabók Guðs merkir það ekki að knýja máttarvöldin til hlýðni með ákveðnum tækniráðum og aðferðum, heldur að opna vitund og vilja fyrir Guði og vilja hans.
Karl Sigurbjörnsson, Lítið kver um kristna trú
Markmið samverunnar
Bænin er það verkfæri sem við höfum til að tala við Guð. Mikilvægi bænarinnar og það að geta orðað vonir sínar og vonbrigði við Skaparann eru þeir þættir sem verða kynntir fyrir börnunum á þessum fundi.
Biblíutextar
Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. (Filippíbréfið 4.6)
Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð. Þegar þér ákallið mig og komið og biðjið til mín mun ég bænheyra yður. Jeremía 29.11-12
Að nálgast efni dagsins
- Það að biðja til Guðs er ekki skylda kristins manns, heldur tækifæri, gjöf, sem Guð gefur okkur, því við þurfum á samskiptum við hann að halda.
- Það eru til margs konar bænir. Fyrst er að nefna bænir okkur sjálfum til handa, þá fyrirbænir fyrir öðrum og loks þakkar- og lofgjörðarbænir.
- Hér er mögulegt að notast við leiki þar sem bannað er að tala saman en þátttakendur þurfa að ná árangri í sameiningu. Slíkir leikir minna á mikilvægi samskipta. Hægt er að láta þátttakendur raða sér upp eftir aldri, í stafrófsröð, eftir afmælisdögum eða hvað annað án þess að nota orð.
- Hægt er að spyrja ungmennin hvað orðið KANNSKI þýði hjá foreldrum þeirra. Orðið hefur mismunandi merkingu eftir fjölskyldum. Guð notar ekki þetta orð. Hann segir já, nei eða bíddu við.
Hugleiðing
Einhverju sinni kom mikið flóð í Hvergilandi. Einn íbúi landsins taldi sig mjög trúaðan og góðan mann. Þegar vatnið byrjaði að leka inn á stofugólfið kraup hann niður og bað Guð um að bjarga sér.
Skömmu síðar var bankað og fyrir utan stóðu menn í flotgöllum á stórum jeppa og buðust til að keyra hann á öruggt svæði, enda von á meiri vatnsflaumi. En góði og trúaði maðurinn sagði þeim að bjarga öðrum, hann sjálfur hefði beðið til Guðs og væri þess fullviss að Guð myndi bjarga honum.
Vatnsborðið hækkaði enn og sögupersónan okkar þurfti að flýja upp á aðra hæð, enda var flóðið svo mikið að öll neðri hæðin var farin á bólakaf. Þar kraup hann við glugga á svefnherbergi sínu og bað Guð um björgun þegar björgunarbát lagði að við gluggann. Í bátnum voru nokkrir votir nágrannar og hjálparsveitarmenn sem sögðu honum að hoppa um borð, því enn væri von á meira vatni. En okkar maður hélt nú ekki. Hann væri sanntrúaður og Guð myndi bjarga honum. Og báturinn sigldi burt.
Enn leið og beið, vatnið óx og óx og nú var trúaði maðurinn okkar kominn upp á þak og hélt sér dauðahaldi í skorsteininn, jafnframt því að biðja til Guðs ákafar en nokkru sinni, enda færðist vatnið nær og nær. Þá birtist þyrla í fjarska sem flaug í átt að húsinu hans og staðnæmdist fyrir ofan hann. Sigmaður seig niður úr þyrlunni og bauð manninum far, enda ljóst að hann myndi drukkna að öðrum kosti. Maðurinn bandaði sigmanninum frá sér og sagði: Ég er trúaður og ég hef beðið Guð að hjálpa mér. Ég veit að hann gerir það. Sigmaðurinn sá að ekki yrði tauti við hann komið, gaf merki og var dreginn einn upp í þyrluna, en trúaði maðurinn okkar beið áfram björgunar Guðs. Eftir fáeinar mínútur drukknaði hann svo.
En sögunni líkur ekki þar. Trúaði maðurinn okkar endaði í himnaríki og um leið og hann hafði gengið inn um Gullna hliðið strunsaði hann á fund Guðs. Þar sem hann mætti Guði öskraði hann: Hvað er að þér Guð, ég bað til þín ítrekað. Ég lagði allt mitt traust á þig og þú lést mig drukkna. Af hverju?
Guð leit á hann rólegur og sagði: Þegar þú baðst í fyrsta skipti, sendi ég til þín menn á bíl að bjarga þér. Þá sendi ég björgunarbát og loks sendi ég þyrlu. En aldrei heyrðir þú bænasvarið.
Þennan vetur lærum við í KFUM og KFUK um mikilvægi þess að biðja til Guðs og tala við hann um alla hluti, stóra og smáa. Það er sérstök gjöf Guðs til okkar að við megum segja honum allt, leggja allt í hans hendur. Í Filippíbréfinu í Nýja testamentinu stendur að við eigum að gera í öllum hlutum óskir okkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð.
En þegar við leggjum allt fram fyrir Guð verðum við samt að muna að Guð gerir ekki alltaf eins og við viljum. Og sú hætta er meira að segja fyrir hendi að svarið sé öðruvísi en við höfðum séð fyrir okkur, líkt og hjá manninum í sögunni sem þið heyrðuð áðan.
Guð svarar ýmist já, nei eða bíddu við. Stundum finnst okkur hann e.t.v. óréttlátur en við megum líka segja honum það.
Aðalatriðið er að við megum alltaf, alls staðar segja Guði allt. Og við getum treyst því að hann hlustar.
Framhaldssaga – Við Guð erum vinir
Formáli, bls. 5-6
Óskirnar tíu, bls. 12-17
Hjálpar-/ítarefni
Sagan „Guð er nálægur“, saga 89 í bókinni „Sagnaskrínið“ sem Landssamband KFUM og KFUK gaf út getur nýst á þessari samveru.
Popptenging
//
Kvikmyndin „Evan Almighty“ er um margt skemmtileg, sérstaklega fyrir þátttakendur í yngri deildum. Hægt er að nota skotið hér að ofan til að ræða um bænasvör.
Söngvar
- Í bljúgri bæn
- Bæn sendu beðna að morgni