Ritningartexti: Lk 12.16-21

Áhersluatriði

Að börnin skynji hvað það er dýrmætt að eiga trú á Jesú og hvað það skiptir máli að láta ekki veraldleg gæði, allt það sem er hjóm eitt ná tökum á sér og lífi sínu.

Um textann

Texti dagsins fjallar um græðgina. Það að fá aldrei nóg. Katólska kirkjan talar um græðgina sem eina af höfuðsyndunum sjö. Það að þurfa að eignast stöðugt meira, verða aldrei saddur. Sá sem gengur græðginni á hönd er aldrei sáttur, hann getur aldrei eignast sannan frið, hann þarf alltaf nýtt og meira.

Í dæmisögunni um ríka bóndann þá hafnar Jesús græðginni. Hann leggur áherslu á að lífið er miklu meira en peningar, völd og auður. Jesús varar við því að græðgin geti leitt okkur frá Guði og því sem skiptir máli.

Dæmisagan fjallar um mann sem var mjög ríkur. Hann átti gott bú og hafði fengið mikla uppskeru. Hlöðurnar voru yfirfullar svo hann kom ekki öllu fyrir og þá hugsaði maðurinn með sér „Nú veit ég hvað ég geri. Eg ríf þessar hlöður og byggi aðrar miklu stærri og þá verður nóg pláss. Þegar ég er búinn að því þá get ég slakað á og notið lífsins.“ En þá sagði Guð við hann: „Veistu, í nótt munt þú deyja og hver fær þá allt sem þú hefur eignast?“

Ríki bóndinn hefði sjálfsagt aldrei stoppað. Hann hefði fyllt stóru hlöðurnar. Síðan hefði hann rifið þær og byggt ennþá stærri. Hann lét stjórnast af græðginni. Það var ekki nóg sem hann átti. Hann vildi ennþá meira. En Jesús hafnar græðginni.

Græðgi getur birst í svo mörgum myndum. Það er svo auðvelt að vilja alltaf meira og meira af öllu, peningum, völdum, mat, fínum fötum og þannig má lengi telja.

Þegar við deyjum tökum við ekkert með okkur til himna. Þess vegna hafnar Jesús græðginni en bendir á kærleikann og mikilvægi þess að við lifum í góðu samfélagi hvort við annað og við Guð.

Popptenging

Vetrarsól

Hægt er að hlusta á lagið „Vetrarsól“, t.d. í flutningi Björgvins Halldórssonar. Textinn er eftir Ólaf Hauk Símonarson og lagið eftir Gunnar Þórðarson.

Hvers virði er allt heimsins prjál,
ef það er enginn hér
sem stendur kyrr
er aðrir hverfa á braut,
sem vill þér jafnan vel
og deilir með þér gleði og sorg.
Þá áttu minna en ekki neitt
ef þú átt engan vin.

Hvers virði er að eignast allt
í heimi hér,
en skorta þetta eitt,
sem enginn getur keypt?
Hversu ríkur sem þú telst,
og hversu fullar hendur fjár,
þá áttu minna en ekki neitt,
ef þú átt engan vin.

Það er komin vetrartíð,
með veður köld og stríð.
Ég stend við gluggann,
myrkrið streymir inn í huga minn
þá finn ég hlýja hönd,
sál mín lifnar við,
eins og jurt sem stóð í skugga,
en hefur aftur litið ljós,
– mín vetrarsól.

Spurningar til umræðu/rökræðu

  • Hvað getur tekið huga okkar frá Guði ?
  • Hvað er græðgi ?
  • Hvað getum við gert til að láta ekki græðgi ná tökum á okkur ?
  • Hvernig lifum við í nánu samfélagi við Guð ?

Hópavinna

Hvað getur tekið hug okkar frá Guði?

Verkefnið felst í því að klippa úr úr blöðum og tímaritum það sem getur tekið hug okkar frá Guði og stjórnað lífi okkar. Það má síðan líma úrklippurnar á karton og hengja upp í fundarsalnum.

Leikur

Sækja hlut

Skipt er í tvö lið og þrír hafðir í hvoru liði. Stjórnandinn nefnir einhvern hlut , t.d. armbandsúr og þá eiga liðin að hlaupa fram í salinn og ná í hlutinn. Liðið sem stendur sig betur fær stig og þetta er endurtekið nokkrum sinnum.

Frásögn – Og hvað græði ég á því…?

Frásögnin hér fyrir neðan kemur úr bókinni “More Hot Illustrations for Youth Talks” sem kom út hjá Youth Specialties, Inc. 1995. Þýðinguna gerði Jón Ómar Gunnarsson.

Veiðmaður sat í hægindum sínum á fallegri strönd, hann hafði kastaði línu út og festi veiðistöngina í sandinum. Á meðan hvíldist hann og naut dagsins og veiðinnar. Um sama leyti kom viðskiptajötunn gangandi eftir ströndinni. Hann hafði verið undir miklu álagi undanfarna daga og vildi ganga í rólegheitum eftir ströndinni.

Hann undraðist þegar hann sá veiðmanninn sitja aðgerðarlausan á ströndinni. Hann hugsaði með sér hvers vegna hann sæti á strönd að veiða í stað þess að leggja hart að sér og vinna til að sjá fjölskyldu sinni farborða.

Viðskiptajötunninn gekk til veiðmannsins og sagði: „Þú veiðir ekki mikið svona. Þú ættir heldur vinna, en að liggja í leti á ströndinni.“ Veiðimaðurinn leit á hann og sagði brosandi: „Og hvað græði ég á því?“ „Nú, þú getur keypt net og veitt meiri fisk“ svaraði viðskiptajötunninn. „Og hvað svo, hvað græði ég á því?“ svaraði veiðimaðurinn brosandi.

Viðskiptajötunninn svaraði frekar hissa: „Nú, þá muntu þéna mikla peninga og geta keypt þér fiskibát, jafnvel togara.“ „Og hvað græði ég á því?“ svaraði veiðimaðurinn með bros á vör. „Skilur þú ekki! Þá getur þú eignast heilan bátaflota og látið starfsmenn sjá um að veiða á meðan að þú hefur það náðugt. Þú eignast fullt af peningum og þarft aldrei að vinna aftur! Þú munt geta setið á ströndinni og notið sólarlagsins áhyggjulaus“ sagði viðskiptajötuninn reiðilega.

En veiðmaðurinn horfði á hann skælbrosandi og svaraði: „Hvað sýnist þér ég vera að gera núna?“

Nálgun:

Margir leggja mjög hart að sér við vinnu á lífsleiðinni til þess að öðlast hamingju. Þeir strita dag og nótt til þess að eignast mikið af peningum, svo þeir geti keypt sér hamingjuna. En eins og sagan sýnir okkur þá er eitthvað að þessari hugmyndafræði. Hver eru í raun hin sönnu laun erfiðisins? Því svarar viðskiptajötuninn ekki nægilega vel. Samkvæmt ritningunni vinnum við Guði til dýrðar. Vinnan er ein leið okkar til þess að lofa Guð. Í Kólussubréfi skrifaði Páll: „Hvað sem þið segið eða gerið, gerið það allt í nafni Drottins Jesú og þakkið Guði föður með hjálp hans.“ (3.17) Laun erfiðisins eru að Guð er heiðraður og þannig öðlumst við sanna hamingju – því til þess vorum við sköpuð.