Ritningartexti: Lk 22.24-30

Áhersluatriði

Að ungmennin finni að Guð elskar þau öll jafnt.

Um textann

Það er skemmtilegt að koma í dýragarð og horfa á apaketti deila um völd. Þeir eru stöðugt að reyna að komast hærra í virðingarröðinni, stöðugt að reyna að ná sæti sem næst foringjanum. Við sjáum þetta líka hjá hænsnum í hænsnabúum, við eigum meira að segja hugtak til að útskýra þetta, goggunarröð. Þetta tíðkast ekki bara hjá dýrunum, við mennirnir erum stöðugt að reyna að ná árangri, komast hærra, öðlast betra sæti en einhver annar.

Lærisveinar Jesú vildu líka vera betri en hinir. Þeir deildu jafnvel sín á milli um hver væri mestur, bestur og næstur Jesú í virðingarstiganum. Þegar Jesús heyrði þá deila um hver væri mestur, þá kom hann með óvænt svar. Það að vera mestur snýst ekki um að láta þjóna sér, heldur um að vera þjónn annarra. Þannig er hefðbundin goggunarröð gagnslaus, virðingarröðin og baráttan fyrir því að vera mestur, skiptir engu máli. Við erum nefnilega öll jöfn og þörfnumst öll hvers annars.

Krakkar þekkja valdabaráttuna um stöðu og áhrif, þó þau geti e.t.v. ekki útskýrt hana á mjög kerfisbundin hátt. Þau keppast um að eiga flottasta dótið, réttu fötin, velta fyrir sér hver er sætust/sætastur, hver sé vinsælust/vinsælastur, hver eigi nýjustu tölvuna og svo framvegis. Goggunarröðin í ungmennahópum skiptir gífurlega miklu máli, og verður mikilvægari eftir því sem líður að unglingsárunum.

Hugsun lærisveinanna snerist um goggunarröð. Þeir veltu fyrir sér hver væri vinsælastur og/eða mikilvægastur, hverjum Jesú þætti vænst um o.s.frv.

Jesús þekkti þessar hugsanir lærisveinanna og ítrekar við lærisveinana að goggunarröðin eigi ekki heima í sínum hópi. Að vera lærisveinn Jesú snýst ekki um völd, áhrif eða virðingu annarra, heldur að sína öðrum virðingu, þjóna öðrum, koma vel fram við aðra. Við spyrjum ekki hvað aðrir geta gert fyrir okkur, heldur hvað við getum gert fyrir aðra.

Um leið er mikilvægt að vita að Guð elskar alla sköpun sína, alla menn, allar konur, öll börn á sama hátt. Enginn er meiri vinur Guðs en annar, enginn er meiri og betri en hinn.

Popptenging

Kvikmyndin Grease

Kvikmyndin Grease og því sem næst allar unglingamyndir frá Bandaríkjunum snúast um einstakling sem er á skjön en verður skyndilega vinsæl(l) vegna einhvers sem þau gera. Í Grease er atriði þar sem aðalsöguhetjan Sally breytir útliti sínu til þess eins að verða vinsæl og passa í hópinn.

Leikur

Jósef segir

Stjórnandi segir „Jósef segir … klappa, hoppa“ o.s.frv. Ef stjórnandi segir ekki „Jósef segir“ á undan sögninni, og einhver hlýðir, þá er viðkomandi úr.

Höldum hnettinum á lofti

Í þennan leik er skemmtilegt að nota uppblásin sundbolta en það er líka hægt að notast við blöðru. Allir leggjast á gólfið og leiðtoginn kastar boltanum/blöðrunni inní hópinn sem á að halda „hnettinum“ á lofti. Ekki má setjast upp og sami einstaklingur má ekk snerta boltann tvisvar í röð. Leiðtoginn telur hve oft hópnum tekst í sameiningu að halda á lofti. Ef boltinn fer í gólfið eða tvisvar í röð í sama einstakling tekur leiðtoginn boltann og hendir aftur inní og talning hefst á ný. Gaman er að setja sér markmið og reyna að slá metið. Í þessum leik er enginn einn mikilvægari en annar heldur gera allir sitt þegar boltinn berst til þeirra. Allir með, allir jafnir.