Ritningartextar: Gal 3.26-29 og P 15.1-29
Áhersluatriði
Guð gerir ekki mannamun. Allir hafa rétt til að kallast Guðs börn.
Um textana
Fljótlega eftir að Jesús reis upp frá dauðum og steig upp til himna byrjuðu kristnir menn að deila. Deilurnar snérust um hver trúði réttast á Jesú.
Í öðrum hópnum voru þeir sem sögðu að til að geta verið kristinn þyrfti fólk að taka upp hefðir og venjur gyðinga, gerast gyðingar. Í hinum hópnum voru þeir sem sögðu að Guð elskaði allar manneskjur jafnt. Páll postuli var í seinni hópnum.
Á fundi í Jerúsalem árið 48 e.Kr. komu saman fjölmargir kristnir, þar á meðal lærisveinar Jesú, Páll postuli og bróðir Jesú, sem hét Jakob. Markmiðið með fundinum var að leita vilja Guðs og leysa deilurnar. Eftir að Páll hafði lýst fyrir fundinum hvernig orð Jesú hefði áhrif á líf fólks jafnvel þó það þekkti ekki hefðir og venjur gyðinga, sættist fundurinn á að fornar hefðir og venjur væru ekki nauðsynlegar svo fólk gæti kynnst Guði. Guð væri allra.
Alltaf þegar misrétti er til staðar, þá byggir það á þörf fólks til aðgreiningar og stigskiptingar og/eða þörfinni fyrir hefðir og venjur sem á stundum getur leitt til þess að sumir öðlast meiri rétt en aðrir. Á fundinum í Jerúsalem 48 e.Kr. komust lærisveinarnir að því að slíkar hefðir eru mannanna verk en ekki Guðs vilji.
Popptenging
Harry Potter og leyniklefinn (mynd 2)
Eitt meginþema Harry Potter myndanna er sú sannfæring fylgismanna Voldemorts að sumir galdramenn séu merkilegri en aðrir. Í Harry Potter og leyniklefanum útskýrir Hermione fyrir Harry hvernig fylgismenn Voldemorts greina galdraheiminn í þá sem hafa hreint blóð og þá sem eru óhreinir. Atriðið er 90 sekúndur og hefst nákvæmlega á 40 mínútu myndarinnar (00:40:00).
Leikur
Mismunandi laun
Í Kompás, handbók um mannréttindafræðslu er leikur sem kallaður er: „Mismunandi laun.“ Í leiknum er fjallað um launamun og jafnrétti. Hægt er að nálgast gögn fyrir leikinn á skrifstofu KFUM og KFUK á Íslandi.