Það var liðið á daginn. Najac gekk eftir breiðgötunni framan við forsetahöllina og bauðst til að þrífa rúðurnar á bílunum sem voru fastir í umferðinni. Hann gerði þetta stundum seinnipartinn og oftast náði hann að vinna sér inn smá aur sem hann gat notað til að kaupa sér mat.
Allt í einu byrjaði hávaðinn. Það var eins og eitthvað skylli saman í sífellu. Síðan fann Najac eins og jörðina hristast og titra. Najac fannst eins og risastór trukkur væri að keyra rétt hjá sér, nema hann sá engan trukk og umferðin var stopp. Hann skyldi þetta ekki. Honum varð litið í átt að forsetahöllinni, en það eina sem hann sá var grátt ryk í loftinu.
Titringurinn hélt áfram, hávaðinn var undarlegur, brothljóð í fjarska, hann sá tré við veginn detta yfir bíl. Najac stóð grafkyrr, hvenær hættir þetta hugsaði hann og þá, jafnskjótt og hávaðinn og titringurinn hófst varð algjör kyrrð í smá stund. Eins og það hefði verið slökkt á tímanum. Það stóð ekki lengi. Najac heyrði hróp og öskur í fjarlægð, fólk steig út úr bílunum sínum og allir virtust byrja að hlaupa. Najac skyldi ekki hvert. Hann ákvað að koma sér að skólanum og spyrja kennarann hvað hefði eiginlega gerst.
Najac gekk af stað, loftið var öðruvísi en venjulega, ryk út um allt. Hávaðinn í umhverfinu var líka öðruvísi. Hrópin frá götusölunum voru þögnuð, en það voru annars konar hróp sem heyrðust. Hlaupandi fólk um allt að kalla hvort á annað í rykinu.
Þegar Najac hafði gengið í átt að skólanum smá stund heyrði hann kallað til sín: „Hjálp, getur þú hjálpað mér?“
Najac leit í áttina að röddinni og sá konu liggja á jörðinni með annan fótinn grafinn undir grjóti. Najac hljóp til hennar og byrjaði að kasta grjótinu af fætinum. Hann fann til með konunni og var glaður að geta hjálpað, en fann til með henni um leið. Eftir að Najac hafði náð mesta grjótinu burt, tókst konunni að standa upp. Hún faðmaði Najac fyrir hjálpina en hljóp svo burt kallandi nafn sem Najac þekkti ekki.
Najac hélt ferðinni áfram að skólanum. Rétt áður en hann kom að skólahúsinu mætti hann dreng sem hann kannaðist við. Hann bjó hjá foreldrum sínum í stóru húsi rétt við skólann og Najac hafði oft séð hann standa með foreldrum sínum, benda á fátæku krakkana og hlæja. En hann hló ekki núna. Hræðslan og óttinn skein úr augunum og hann virtist allt að því stjarfur. Najac langaði að hjálpa honum en vissi ekki hvernig. Það á enginn skilið að vera stjarfur af hræðslu. Najac staldraði við, tók í hönd drengsins og setti í lófa hans alla aurana sem Najac hafði unnið sér inn fyrr um daginn. Najac vissi sem var að hann gæti auðveldlega unnið sér inn þessa peninga aftur, en drengurinn virtist ekki hafa neitt.
Drengurinn leit í augu Najac, hræðslan og óttinn hafði breyst í þakklæti þessa örskotsstund, ekki vegna auranna endilega, heldur vegna þess að einhver hafði veitt honum athygli. Najac leið vel að sjá þakklætið í augum drengsins og þeir brostu hvor til annars áður en Najac gekk að skólahúsinu.
Skólahúsið hafði hrunið að hluta. Þar sem kennslustofan hafði verið áður, var steinahrúga. Najac horfði um allt í leit að starfsfólki skólans en þarna var enginn.