Það var kalt í dag. Najac hafði lítið til að skýla sér fyrir hafgolunni þegar hann vaknaði. Þetta yrði ekki auðveldur dagur. Najac hafði kvöldið áður náð að finna sér stað niður við ströndina, þar sem hann gat lagst til svefns í skjóli nokkurra báta sem lágu á hvolfi í fjörunni. Sandurinn var mjúkur og þægilegur og Najac hafði búið sér til lítinn kodda með því að hrúga upp sandi undir höfuðið. Hann hélt sig vera svo sniðugan að finna þennan stað en undraðist pínulítið hvers vegna engir aðrir heimilislausir væru þarna.
Nú skyldi hann það betur. Hárið var fullt af sandi, sandkorn voru föst í fötunum hans og honum var skítkalt. Najac ætlaði aldrei aftur að sofa á ströndinni, eins og þetta virtist góð hugmynd í gær.
Það var erfitt að búa einn á götunni, eiga ekkert skjól. Hann átti samt stað sem hann gat kallað „heima“, heima í litla þorpinu þar sem mamma hans bjó. Najac hugsaði oft heim, það var ekki alltaf auðvelt að vera þar og oft fóru þau svöng í háttinn, en það var samt „heima“, staðurinn hans.
Najac flýtti sér á fætur, hann vissi að ef hann myndi liggja áfram, yrði hann ennþá kaldari. Hann hristi af sér mesta sandinn, renndi höndunum í gegnum hárið og reyndi að snyrta sig til. Hann gekk niður að sjónum og notaði volgt saltvatnið til að skola sig í framan og ná sandinum af höndunum. Mamma hans hafði kennt honum að leitast alltaf við að vera hreinn og snyrtilegur, „sá sem ekki getur hirt vel um sjálfan sig hefur glatað sjálfum sér“ sagði hún oft. Jafnvel þegar ekkert var til að borða, þau réðu ekki við lekann af þakinu á bárujárnskofanum og þeim var kalt og skulfu inn að beini, lét mamma hann alltaf þrífa sig í framan, slétta fötin sín og standa uppréttur.
Hann vissi sem var að það dýrmætasta sem Guð hafði gefið honum var sjálfsvirðing. Sá eini sem gæti stolið henni frá honum var hann sjálfur.