Það var vont að vakna upp í morgun. Sársaukinn í höfðinu og öxlinni voru liðnir hjá en það var verkur í öllum munninum. Najac settist upp á bekk í almenningsgarðinum og velti fyrir sér hvað hann gæti gert. Hann óskaði þess að hann gæti rifið tönnina úr sem meiddi hann. Kannski gæti hann fundið einhvern sem ætti töng og gæti bara fjarlægt tönnina. Najac vissi að áður en hann færi af stað þyrfti hann að fá sér eitthvað að drekka. Hann vissi að kalt vatn drægi úr sársaukanum, samt ekki nema í smástund. Alla vega gæti hann ekki farið í verksmiðjuna. Eigandinn kærði sig ekki um „götubörn“ og hafði sagt honum að hann gæti ekki unnið þar áfram. Hann ákvað að halda upp í skólann. Kannski ætti kennarinn töng og gæti kippt tönninni úr.
Þegar Najac kom að skólanum mætti hann kennaranum. Najac sagði honum hvað var að og kennarinn sagðist e.t.v. geta hjálpað. Kennarinn sagðist þekkja tannlækni í borginni sem stundum hjálpaði í skólanum og myndi kannski geta kíkt á Najac. Najac maldaði í móinn, en kennarinn sagðist geta fylgt honum til tannlæknisins og rætt við hann. Þeir gengu saman í gegnum bæinn og að stóru glæsilegu húsi í miðbænum. Najac hafði aldrei farið inn í svona flott hús.
Kennarinn gekk með honum inn í herbergi með sófum og borðum og sagði Najac að fá sér sæti. Síðan gekk kennarinn að afgreiðsluborði og ræddi við mann sem stóð þar hjá. Þegar kennarinn kom til baka sagði hann Najac að bíða, eftir smá stund yrði nafnið hans kallað upp. Kennarinn kvaddi síðan Najac og fór.
Najac leið vel þar sem hann sat í sófanum, hann var mjúkur og þægilegur. Najac hafði aldrei áður setið í svona þægilegu sæti. Þá heyrði hann skyndilega hrópað. „Najac, þú ert næstur. Gerðu svo vel að koma inn.“
Najac gekk inn að skrifstofu tannlæknisins. Þegar hann sá verðskrána á veggnum við hurðina, brá honum mjög. Þetta gæti hann aldrei borgað. Hann snéri við og byrjaði að ganga burtu. Honum fannst eins og kennarinn hefði blekkt sig, þarna var enga hjálp að fá. Þá heyrði hann einhvern kalla á sig. Hann snéri sér við og sá mann í hvítum slopp standa í dyrum tannlæknastofunnar. Maðurinn í dyrunum spurði Najac hvort hann þyrfti hjálp. Najac svaraði að bragði að hann ætti enga peninga.
„Það skiptir ekki máli,“ sagði maðurinn, „ég hlýt að geta hjálpað.“ Síðan benti hann Najac á að koma inn og setjast í stól inn á stofunni.
Najac ákvað að hlýða, sársaukinn í tönninni hafði aukist þegar leið á daginn. Tannlæknirinn sagði Najac að opna munninn og skoðaði tennurnar. Hann notaði járnáhald til að pota í tennurnar, Najac næstum æpti af sársauka þegar hann snerti skemmdu tönnina.
Tannlæknirinn sprautaði efni í tannholdið við tönnina. Það var óþægilegt þegar nálin stakkst en síðan minnkaði sársaukinn. Tannlæknirinn sagði honum að efnið væri til að deyfa munninn svo Najac finndi ekki til rétt á meðan tannlæknirinn lagaði tönnina.
Síðan hófst tannlæknirinn handa, meðan hann vann sagði hann Najac að í hverri viku reyndi hann að gera við tennur hjá nokkrum strákum sem lifðu á götunni. Tannlæknirinn sagðist hafa búið þannig sjálfur í nokkur ár. Hann hefði alist upp allslaus, en fengið tækifæri til að læra í sama skóla og Najac. Tannlæknirinn sagði að sér hefði gengið svo vel að læra að hann hefði fengið hjálp til að fara í háskóla. Núna liti hann á það sem hlutverk sitt að gefa til baka af því sem hann hefði fengið að njóta sjálfur.
Þegar tannlæknirinn hafði lagað skemmdu tönnina, gaf hann Najac lítið veski með tannbursta og tannkremi. Tannlæknirinn sagði Najac að koma aftur þegar tannkremið kláraðist og fá meira. Najac var þakklátur þegar hann gekk út. Hann fann til þakklætis og kærleika gagnvart kennaranum sem tók hann til tannlæknisins, til tannlæknisins og líka til alls þess fólks sem hafði hjálpað tannlækninum á sinni vegferð.