Í dag var Najac laminn.

Þegar hann kom heim úr verksmiðjunni fann hann að það var spenna í loftinu. Ættingjarnir voru pirraðir og litla frænka Najac lét lítið fyrir sér fara. Najac gekk til litlu frænku sinnar og gaf henni af afgöngunum sem hann hafði fengið eftir hádegismatinn. Það var nóg til að allt færi í háaloft. Najac heyrði reiðióp og konan sem hann bjó hjá þreif diskinn af litlu frænkunni. „Þú þarft ekki mat í dag.“ Sagði konan reið. „Barn sem skilur ekki og hlýðir ekki, borðar ekki.“ Litla frænkan teygði sig eftir disknum en þá reif konan upp staf og ætlaði að berja á henni. Najac stóð um stund frosinn, en kastaði sér síðan á hendina sem hélt stafnum á lofti, tilbúin til að slá

„Láttu litlu frænku mína vera!“ Hrópaði Najac. Konan hristi hann af sér, lyfti stafnum og barði þéttingsfast í höfuð Najac, fyrst einu sinni, svo aftur. Najac sá litlu frænku sína skríða í skjól. Hún var óhult í bili, en stafurinn hélt áfram að skella á höfði og öxlum Najac.

Najac byrjaði að skríða grátandi að útidyrunum um leið og hann reyndi að skýla höfðinu með hendinni. Þegar hann komst út, heyrði hann konuna kalla á eftir sér. „Hingað inn ertu aldrei velkominn. Láttu aldrei sjá þig aftur. Þú ert sami vandræðagemsinn og hún mamma þín.“

Najac hljóp og hljóp burtu, hann vissi ekki hvert. Eftir nokkra stund, tók hann eftir að hann var staddur í almenningsgarði. Hann settist á bekk og reyndi að slaka á. Þá fann hann fyrir sársaukanum í höfðinu og í öxlinni.

Í dag var Najac laminn. En það var ekki verst. Í dag átti Najac hvergi heima. Hann var einn og allt sem hann átti voru fötin sem hann var í. Myrkrið lagðist yfir höfuðborgina, Najac sat á bekk í almenningsgarði. Hann horfði á skuggana af styttum sem stóðu sem minnismerki um fallin stórmenni. Hann sat í þögn og hélt aftur af tárunum. Hann yrði aldrei einn af þeim, hann var ekkert, eða hvað? Hann hafði alla vega bjargað frænku sinni frá stafnum (í bili).

Hann sá fyrir sér styttu af sjálfum sér, þar sem hann skýldi frænku sinni frá stafnum. Hann brosti með sjálfum sér og lagðist til svefns á bekknum. Hann sofnaði brosandi, þetta var ekki allt til einskis.