Najac er glaður í dag. Hann fékk skilaboð frá mömmu sinni í gegnum ættingjana sem hann bjó hjá. Mamma hans hafði verið valin til að taka þátt í verkefni sem gæti breytt öllu. Henni hafði verið boðið að taka þátt í námskeiði, þar sem henni yrði kennt að sníða föt og stofna smáfyrirtæki. Hún myndi jafnframt fá lán til að laga þakið á húsinu þeirra og til að kaupa efni til fatagerðar. Samtökin sem stóðu að verkefninu, höfðu meira að segja boðist til að hjálpa henni að koma vörunum á markað í höfuðborginni.

Ættingjarnir voru reyndar ekki jafn spennt og Najac, þeir höfðu miklar efasemdir um að einhver myndi vilja hjálpa mömmu Najac, en Najac var glaður. Mamma hans hafði líka sagt að ef allt gengi vel, gæti hann komið aftur heim eftir 6-9 mánuði, þegar hún væri búin að koma undir sig fótunum.

Najac ákvað að byrja að telja niður dagana. Hann hafði ekki hitt mömmu sína lengi. Hún veiktist illa eftir að hafa drukkið mengað vatn og í kjölfarið varð hún að senda Najac frá sér til ættingja í höfuðborginni. Það voru líklega orðin tvö ár síðan. Allan þann tíma hafði hann ekki séð mömmu sína. Hann hafði ekki heldur heyrt mikið frá henni. Í þorpinu heima var enginn sími, hvorki Najac né mamma hans gátu lesið eða skrifað og það var helst að einhver sem ætti leið á milli þorpsins og höfuðborgarinnar gæti flutt fréttir á milli. En í dag var Najac glaður, bráðum yrði allt gott.