Það var bankað upp á hjá ættingjunum í dag. Najac var nýkominn heim úr verksmiðjunni þegar hann heyrði að einhver kom að dyrunum. Hann gekk að dyrunum og opnaði. Fyrir utan var maður sem hann hafði séð áður. Einhver hafði sagt Najac að maðurinn væri kennari í nálægum skóla. Kennarinn leit á Najac kynnti sig og spurði hvort ættingjarnir væru heima. Najac fylgdi honum inn í húsið þar sem ættingjarnir sátu. Kennarinn kynnti sig aftur og sagðist vilja ræða við þau um skóla fyrir Najac.
Ættingjarnir litu á Najac og sögðu honum að fara út meðan þau ræddu við kennarann, Najac langaði til að mótmæla enda voru þau að ræða um hann. En hann vissi að það væri ekki til neins. Najac hafði engin völd á þessum stað. Hann gekk út og settist undir gluggann í von um að heyra samræðurnar inni.
Ættingjarnir byrjuðu á að segja kennaranum að Najac hefði ekki tíma, hann þyrfti að vinna í verksmiðjunni og svo hefði hann skyldur heima við. Skóli væri lúxus fyrir löt og dekruð börn og Najac hefði ekki tíma fyrir svoleiðis. Kennarinn sagði þeim að kannski gæti Najac komið í skólann einu sinni í viku og lært að lesa og skrifa, það gæti komið þeim öllum vel.
Þau voru ekki sannfærð. Hver á að sjá um húsverkin á laugardögum ef Najac er í burtu? Það kostar nú sitt að hafa börn í skóla. Kennarinn sagði þeim að allur kostnaður við skólann væri nú þegar greiddur, Najac myndi fá heitan mat í skólanum og gæti tekið afganga með sér heim fyrir þau.
Ættingjarnir mýktust nokkuð við tilhugsunina um ókeypis mat. En hvað með ef Najac gæti ekkert lært, spurðu þau, væri ekki bara tímasóun að láta hann hanga í skóla ef hann gæti ekkert lært. Kennarinn sagði þeim að hafa ekki áhyggjur af því. Najac myndi örugglega standa sig og ef ekki, þá myndi hann láta þau vita.
Þau samþykktu með semingi að láta reyna á þetta, en sögðu jafnframt að ef eitthvað vesen kæmi upp, myndu þau draga Najac strax úr þessari vitleysu.
Þegar Najac heyrði samþykkið hrópaði hann af gleði.