Stundum gerist eitthvað óskiljanlegt. Í dag á markaðnum fékk Najac vinnu við að flytja kassa af pallbíl inn í sölutjald. Þegar verkefninu var rétt um það bil að ljúka, spurði bílstjórinn á bílnum hvort Najac væri ekki frá þorpi upp á sléttunni. Þegar Najac svaraði játandi, sagði bílstjórinn honum að þar væri næga vinnu að fá fyrir duglega stráka. Hjálparsamtök hefðu mætt á svæðið, með iðnkennslu og stutt marga af íbúunum við að koma sér upp smáfyrirtækjum og í tengslum við það væri margvíslega vinnu að fá, t.d. við að koma vörum á markaðina í höfuðborginni.

Það var fátt að gera fyrir Najac í höfuðborginni og hann hugsaði sem svo að hann gæti eins vel haldið heim. En hvað með mömmu. Var það kannski satt sem strákarnir höfðu sagt, vildi hún kannski ekkert af honum vita. En Najac varð að komast heim. Hann varð að treysta á vonina.

Þegar allir kassarnir voru komnir inn í tjaldið spurði bílstjórinn Najac hvort hann vildi fá að sitja í og fara heim í þorpið. Najac hikaði ekki þegar hann svaraði játandi, loksins kæmist hann heim til mömmu.

Eftir margra klukkutíma akstur sá Najac þorpið sitt framundan á veginum. Hann hafði hnút í maganum. Hafði mamma hans gleymt honum? Var hann kannski eftir allt eins og ruslið? Þegar þeir komu nær langaði Najac helst að hætta við allt saman, fara aftur til höfuðborgarinnar, þar gat hann alla vega lifað í voninni um að mömmu hans þætti vænt um hann. Nú myndi hann komast að því eftir nokkrar mínútur hvort að vonir sínar myndu rætast. Endir.