Ritningartexti: Jesaja 11.4-9
Með réttvísi mun hann dæma hina vanmáttugu og skera með réttlæti úr málum hinna fátæku í landinu. Hann mun ljósta ofbeldismanninn með sprota munns síns, deyða hinn guðlausa með anda vara sinna. Réttlæti verður belti um lendar hans, trúfesti lindinn um mjaðmir hans.
Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum. Kálfur, ljón og alifé munu ganga saman og smásveinn gæta þeirra. Kýr og birna verða saman á beit, ungviði þeirra hvílir hvort hjá öðru, og ljónið mun bíta gras eins og nautið. Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holu nöðrunnar og barn, nývanið af brjósti, stinga hendi inn í bæli höggormsins.
Enginn mun gera illt, enginn valda skaða á mínu heilaga fjalli því að allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni eins og vatn hylur sjávardjúpið.
Markmið
Vonin um Guðsríkið er meginstef Gamla testamentisins. Ákall eftir heimi þar sem réttlæti, sátt og eining ríkir. Með komu Krists, dauða hans og upprisu braust ríki Guðs inn í heim okkar. Markmið þessarar samveru er að segja frá voninni. Guð kallar okkur til að vera í senn þolinmóð og óþreyjufull og kallar okkur til aðgerða svo þau sem í kringum okkur eru megi sjá Guðsríkinu bregða fyrir og upplifa náðarkraft Guðs sem öllu breytir.
Um textann
Vonartexti Jesaja er ekki skrifaður í tómarúmi. Hann er viðbrögð hertekinnar þjóðar, þjóðar sem finnur sig máttvana á mótum stórvelda. Miðausturlönd hafa alltaf verið átakasvæði og oftast nær hefur Ísraelsþjóðin verið máttlaus í samanburði við nágrannana. Babýlóníumenn voru þar, Egyptar höfðu ítök um tíma, Grikkir tóku landið yfir og síðar Rómverjar. Í herleiðingunni miklu á 6. öld fyrir Krist voru bestu íbúar Ísraelríkisins fluttir á brott. Þekking þeirra og menntun var nýtt í þágu erlends stórveldis. Vonartexti Jesaja er þannig texti hins kúgaða.
Það er mikilvægt að skilja að ekkert ljón hlakkar til að bíta gras. Eðli bjarndýra er ekki að vera grasætur. Mikki refur fagnaði ekki nýju lögunum í Hálsaskógi. Von Jesaja, sú von sem Biblían kynnir er ekki von hins sterka, ríka og öfluga, heldur hins þreytta, fátæka og sveltandi.
Við sem e.t.v. erum ljón eigum oft erfitt með von Biblíunnar einmitt vegna þessa. Það er ekki auðvelt að hugsa til þess að kannski þurfum við að breyta okkar atferli svo von Guðs, hið fagra, góða og fullkomna geti átt framgang. Það er óþægilegt að horfast í augu við það að við sem köllum okkur kristin erum e.t.v. helsta hindrun þess að Guðsríkið nái fram að ganga.
Najac – Að vera fyrir aðra
Í dag var Najac laminn.
Þegar hann kom heim úr verksmiðjunni fann hann að það var spenna í loftinu. Ættingjarnir voru pirraðir og litla frænka Najac lét lítið fyrir sér fara. Najac gekk til litlu frænku sinnar og gaf henni af afgöngunum sem hann hafði fengið eftir hádegismatinn. Það var nóg til að allt færi í háaloft. Najac heyrði reiðióp og konan sem hann bjó hjá þreif diskinn af litlu frænkunni. „Þú þarft ekki mat í dag.“ Sagði konan reið. „Barn sem skilur ekki og hlýðir ekki, borðar ekki.“ Litla frænkan teygði sig eftir disknum en þá reif konan upp staf og ætlaði að berja á henni. Najac stóð um stund frosinn, en kastaði sér síðan á hendina sem hélt stafnum á lofti, tilbúin til að slá
„Láttu litlu frænku mína vera!“ Hrópaði Najac. Konan hristi hann af sér, lyfti stafnum og barði þéttingsfast í höfuð Najac, fyrst einu sinni, svo aftur. Najac sá litlu frænku sína skríða í skjól. Hún var óhult í bili, en stafurinn hélt áfram að skella á höfði og öxlum Najac.
Najac byrjaði að skríða grátandi að útidyrunum um leið og hann reyndi að skýla höfðinu með hendinni. Þegar hann komst út, heyrði hann konuna kalla á eftir sér. „Hingað inn ertu aldrei velkominn. Láttu aldrei sjá þig aftur. Þú ert sami vandræðagemsinn og hún mamma þín.“
Najac hljóp og hljóp burtu, hann vissi ekki hvert. Eftir nokkra stund, tók hann eftir að hann var staddur í almenningsgarði. Hann settist á bekk og reyndi að slaka á. Þá fann hann fyrir sársaukanum í höfðinu og í öxlinni.
Í dag var Najac laminn. En það var ekki verst. Í dag átti Najac hvergi heima. Hann var einn og allt sem hann átti voru fötin sem hann var í. Myrkrið lagðist yfir höfuðborgina, Najac sat á bekk í almenningsgarði. Hann horfði á skuggana af styttum sem stóðu sem minnismerki um fallin stórmenni. Hann sat í þögn og hélt aftur af tárunum. Hann yrði aldrei einn af þeim, hann var ekkert, eða hvað? Hann hafði alla vega bjargað frænku sinni frá stafnum (í bili).
Hann sá fyrir sér styttu af sjálfum sér, þar sem hann skýldi frænku sinni frá stafnum. Hann brosti með sjálfum sér og lagðist til svefns á bekknum. Hann sofnaði brosandi, þetta var ekki allt til einskis.
Popptenging
Christina Perri – The Lonely
Upplifunin af missi og óöryggi er sterk í lagi Christina Perri, The Lonely. Nálgun Christina skortir von, langlyndi og framtíð en sérstaklega eldri þátttakendur í starfinu gætu samsamað sig mjög vel líðan söngvarans í laginu. Þannig er spennandi að hlusta á lagið með hópnum og spyrja þau: „Hvað svo?“
Í svörtum fötum – Paradís
Er annað sterkt sorgarmyndband. Vonin um framtíð er samt sterk í veru barnsins í myndbandinu.
Dikta – Thank you
Upplifunin að vera skyndilega lifandi, skilja að við höfum hlutverk, erum kölluð er viðfangsefni þakkarljóðs Diktu. Þessi tilfinning kallar á að við sleppum takinu á örygginu og göngum fram í trausti (til Guðs). Það merkir ekki að allt verði endilega gott, óvissan er alltaf erfið en við megum lifa í vitneskjunni um að við erum Guðs.
Mikki refur – Dýrin í Hálsaskógi
Viðbrögð Mikka refs við reglum Bangsapabba í dýrunum í Hálsaskógi eru áminning til okkar. Kannski er ástæða fyrir okkur að spyrja hvort við séum eins og Mikki refur í einhverjum málum. Viljum ekki vernd fyrir aðra, því það gæti kallað okkur til að taka upp nýja siði.