Ritningartexti: Jh. 14.27
Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.
Markmið
Þessari samveru er ætlað að kynna kraft fyrirgefningar Guðs í lífi okkar og fjalla um Biblíuhugtakið “Shalom” sem hefur verið þýtt á íslensku sem “friður”.
Um textann
Ritari Jóhannesarguðspjalls fjallar ítarlega um orð Jesú við síðustu kvöldmáltíðina í köflum 13-17. Jesús varar lærisveina sína við erfiðleikum og ofsóknum sem framundan eru, heitir þeim að Heilagur andi muni koma yfir þá og biður loks fyrir þeim (17. kafli).
Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.
Jesús bíður okkur að þiggja sinn frið. Hugtakið friður í hebreskri hefð, orðið “shalom,” er mun víðtækara en orðið friður í vesturevrópskum skilningi. “Shalom” eða friður í orðræðu Jesú merkir sátt, sátt við sjálfan sig, við Guð og náunga sinn. Nátengd hugmyndinni um frið er þannig hugmyndin um fyrirgefningu. Til að öðlast fyrirgefningu þurfum við að sættast við náungann, við Guð og kannski ekki síst við okkur sjálf.
Það að fyrirgefa, viðurkenna misgjörð sína gagnvart sjálfum sér og öðrum og leita sáttar leiðir til friðar, leiðir til þess sem á tíma Jesús var kallað “shalom,” það að upplifa fyrirgefningu.
„Það að fyrirgefa ekki, er eins og að drekka rottueitur og bíða þess að rottan drepist“ stóð í Facebook skilaboðum sem ég sá rétt áður en ég settist niður til að skrifa þessa textaskýringu. Líklega er það ágæt nálgun. Ef við getum ekki fyrirgefið, þá er næsta ómögulegt að öðlast sátt við sjálfan sig og aðra.
Í hugum einhverra felst friður í því að umbera skoðanir annarra. Það er ekki það sem Jesús Kristur á við þegar hann talar um frið. Friður er miklu, miklu meira en umburðarlyndi, enda felst í umburðarlyndinu, sinnu- eða skeytingarleysi um aðra. Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi felst í að láta sig aðra varða, stendur með þeim sem minna mega sín og leitar eftir sátt og fyrirgefningu.
Najac – Þjófnaðurinn
Það var laugardagur. Najac vaknaði fullur tilhlökkunar, hann fengi að fara í skólann. Vikan hafði verið erfið og hann hafði ekki fengið heita máltíð síðan hann var í skólanum síðasta laugardag. Najac klæddi sig og hljóp af stað út. Ættingjarnir sátu utan við húsið og spurðu þegar hann hljóp hjá, hvenær hann ætlaði að hætta þessari skólavitleysu. Najac svaraði engu, hann vissi að mamma hans yrði stolt ef hún vissi að hann væri kominn í skóla, þó það væri bara einu sinni í viku.
Najac kom að skólanum og hljóp inn í andyrið, hann var snemma á ferðinni og hann vissi að skólinn byrjaði ekki strax. En honum leið vel í skólahúsinu og vildi frekar bíða þar en vera heima hjá ættingjunum. Það fyrsta sem hann sá, þegar hann kom inn í skólann, var stór brauðhleifur á borði innan við útidyrnar. Najac hikaði ekki andartak en reif bita af brauðinu og stakk upp í sig. Hann hugsaði sem svo að engin tæki eftir því þó hann stæli smá bita. En hann hafði rangt fyrir sér. Hann heyrði rödd kennarans: „Ertu stoltur af því sem þú gerðir, Najac?” Kennarinn gekk inn í andyrið.
Najac snéri sér við og stóð andspænis kennaranum, manninum sem hafði komið og talað við ættingjana. Sannfært þau um að hann ætti að fá að fara í skólann. Þarna stóðu þeir andspænis hvor öðrum. Kennarinn spurði aftur: „Ertu stoltur af því sem þú gerðir, Najac?“
Þegar Najac heyrði spurninguna, fannst honum eins og hjartað myndi springa. Najac hefði miklu fremur viljað að hann hefði barið sig, þá hefði sársaukinn komið strax. Najac hefði tekið út refsingu og hann hefði getað reiðst sjálfum sér og kennaranum jafnt. Kennarinn hefði líka getað rekið hann í burtu, sagt honum að láta aldrei sjá sig aftur. En nei, það eina sem kennarinn gerði var að spyrja. „Ertu stoltur af því sem þú gerðir, Najac?“
Najac titraði. Hann hugsaði um hvernig hann ætti að bregðast við. Hann gæti hlaupið út og aldrei komið aftur. Hann gæti reynt að láta sem ekkert væri, spurningin hefði engin áhrif haft á hann. Hann væri meiri töffari en svo, en Najac ákvað að vera heiðarlegur. Hann horfði framan í kennarann og sagði hátt: „Nei. Ég er ekki stoltur.“ „Nei.“ sagði Najac aftur og grét. Hann hafði ekki grátið síðan hann kvaddi mömmu sína og hélt af stað til höfuðborgarinnar. Najac fannst eins og hann hefði brugðist, hefði svikið sjálfan sig, gert eitthvað sem honum var ekki samboðið og þeir vissu það báðir, hann og kennarinn.
Þeir stóðu andspænis hvor öðrum, Najac þerraði tárin. Kennarinn spurði hvort hann vildi taka þátt í stuttri morgunstund með starfsfólkinu, sem bráðum væri að hefjast. Kennarinn sagði Najac að á hverjum morgni kæmi starfsfólkið saman til að syngja og biðja til Guðs, honum væri velkomið að sitja á stundinni og jafna sig áður en skólinn byrjaði. Hugsa hver hann vildi vera og hver hann vildi verða.
Najac átti erfitt með að svara. Hann hafði brugðist og kennarinn brást við með því að bjóða honum að vera með. Najac ákvað að þiggja boðið. Hann þekkti ekki alla söngvana en var þakklátur fyrir kyrrðina og væntumþykkjuna. Hann ætlaði aldrei aftur að bregðast sjálfum sér.
Popptenging
John Lennon og Yoko Ono – Give Peace a Change
http://www.youtube.com/watch?v=AwNg4lHFj7I
Í textanum við lagið kallar John Lennon og Yoko Ono eftir því að við gefum frið tækifæri. Eftir að hafa hlustað á myndbandið má spyrja þátttakendur hvernig við getum gefið frið tækifæri. Þegar við erum búin að fá nokkur svör, má spyrja hvers konar friður það sé sem felist í svörunum. Er það friður afskiptaleysis í nafni umburðarlyndis eða er það friður umhyggjunnar sem leitast eftir að virða aðra hlusta á þá og þykja vænt um þá. Hvers konar friði kallaði Jesús eftir?