Frásagnir af drengnum Najac voru reglulegur hluti af fræðsluefni vorsins 2012. Hægt er að notast við þær í hugleiðingum, eða sem framhaldsögu ef það hentar.
Najac sat og hugsaði um leðurpjötlurnar fyrir framan sig. Það styttist í að fingurnir hans yrðu of stórir til að ráða við að sauma þá saman. Þó Najac væri smágerður vissi hann sem var að eftir nokkra mánuði hefði vinnuveitandinn ekki þörf fyrir hann. Líklega myndi vinnuveitandinn finna einhvern 8 ára til að sitja í stólnum hans til að sauma saman fimm- og sexhyrningana sem saman mynduðu fótbolta.
Najac hafði oft leikið sér með svona bolta ásamt félögum sínum áður en hann „fékk vinnu“ í verksmiðjunni. Boltinn sem hann og vinir hans notuðu hafði reyndar ekki glansað jafnmikið og leðurpjötlurnar sem hann hafði á borðinu.
Boltinn sem þeir léku með hafði verið snjáður og átti sér langa sögu. Hann hafði yfirgefið verksmiðjuna í kassa sem var síðan sendur til fyrirheitna landsins í vestri. Najac hafði heyrt að landið í vestri væri eins og Paradís, stöðug gleði, friður og endalaus leikur. Þar hafði boltinn endað í eigu krakka á svipuðum aldri og Najac. Þegar boltinn var orðinn snjáður, glansinn farinn af leðrinu og saumarnir byrjaðir að gliðna var hann gefinn til góðgerðarsamtaka sem sendu hann til baka í heimaland Najac. Það var undarlegt að hugsa til þess að börnin sem þurftu að þræla við að sauma saman bolta allan daginn, fengu fyrst að leika sér með boltana þegar einhverjir aðrir höfðu óhreinkað og skemmt þá. Og þeir sem gáfu boltana eftir að þeir skemmdust töldu sig vera að gera góðverk.
Þar sem Najac lét hugann reika um hringferð boltans heyrði hann skyndilega öskur verkstjórans. Najac vissi sem var, hugrenningar hans höfðu kostað hann hádegismatinn. Þeir sem slógu slöku við í verksmiðjunni fengu ekkert að borða í hádeginu.
Það sem verra var, Najac myndi ekki geta tekið neina afganga heim til að gefa litlu frænku sinni sem bjó ásamt honum hjá fjarskyldum ættingjum í borginni.
Það var nefnilega ekki verst að fá ekkert að borða í heilan dag, heldur að vita til þess að dagdraumarnir hans bitnuðu á öðrum.