Ritningartexti: Gal 5.22-23

En ávöxtur andans er: kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Gegn slíku er lögmálið ekki.

Markmið

Á fyrstu samverunni spyrjum við tveggja spurninga.

  • Hvernig vitum við hvað er gott og hvað er ekki gott að gera?
  • Hvar og hvernig lærum við um rétt og rangt?

Um textann

Upptalning Páls postula á ávöxtum andans í Galatabréfinu er nátengd eldri hugmyndum í Grikklandi til forna um dygðalista. Þeirra þekktastur er dygðalisti Aristótelesar (fæddur 384 f.Kr.) en líkt og hjá Páli felast dygðir Aristótelesar ekki í ákveðnum gjörðum heldur í skapgerð eða afstöðu einstaklinga. Aristóteles lagði mikla áherslu á að greina og flokka hluti og það átti einnig við um dygðir. Hann greindi sérstaklega níu dygðir sem hann taldi æskilegt að einstaklingar hefðu til að geta iðkað réttlæti og hugsað skynsamlega. Mikilvægasta dygðin var viskan. Hinar átta voru varkárni, réttlæti, æðruleysi, hugrekki, frjálslyndi, glæsileiki, örlæti og sjálfstjórn.

Listi Páls inniheldur einnig níu dygðir, en þá er að miklu leiti upptalið hvað listarnir tveir eiga sameiginlegt. Ávextir andans eru samkvæmt Páli, kærleikur, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Reyndar leggja báðir áherslu á sjálfsaga eða sjálfstjórn en annars er eðli hugtakanna mjög ólíkt.

Til einföldunar má segja að megináhersla Aristótelesar virðist felast í afstöðu til sjálfs sín, meðan dygðirnar hans Páls horfa til annarra, og leggja ofuráherslu á afstöðu til annarra.

Í sögu kirkjunnar hafa hugmyndir Aristótelesar haft gífurleg áhrif, meðal annars í skrifum Tómasar frá Akvína og hafa þannig blandast inn í hugmyndir kirkjunnar og kristinna manna um rétt og rangt. Hins vegar má öllum vera ljóst að boðun Jesús og fyrstu lærisveinanna var um margt ólík áherslu Aristótelesar.

Hugmynd að hugleiðingu

Hægt er að lesa textann fyrir þátttakendur og fá þá til að nefna hugtök sem þeim finnst vera dygðir og skrifa á stórt blað jafnóðum (t.d. flettitöflu). Sér í lagi hjá yngri þátttakendum er líklegt að áherslan hjá þeim verði á ákveðnar gjörðir fremur en skapgerð eða afstöðu. Ef mögulegt er, þá er hjálplegt að benda þeim á hvernig greina má þar á milli.
Það fer vel á að enda slíka hugleiðingu á gullnu reglunni: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, skuluð þér og þeim gjöra.“

Najac – Fótboltinn

Najac sat og hugsaði um leðurpjötlurnar fyrir framan sig. Það styttist í að fingurnir hans yrðu of stórir til að ráða við að sauma þá saman. Þó Najac væri smágerður vissi hann sem var að eftir nokkra mánuði hefði vinnuveitandinn ekki þörf fyrir hann. Líklega myndi vinnuveitandinn finna einhvern 8 ára til að sitja í stólnum hans til að sauma saman fimm- og sexhyrningana sem saman mynduðu fótbolta.

Najac hafði oft leikið sér með svona bolta ásamt félögum sínum áður en hann „fékk vinnu“ í verksmiðjunni. Boltinn sem hann og vinir hans notuðu hafði reyndar ekki glansað jafnmikið og leðurpjötlurnar sem hann hafði á borðinu.
Boltinn sem þeir léku með hafði verið snjáður og átti sér langa sögu. Hann hafði yfirgefið verksmiðjuna í kassa sem var síðan sendur til fyrirheitna landsins í vestri. Najac hafði heyrt að landið í vestri væri eins og Paradís, stöðug gleði, friður og endalaus leikur. Þar hafði boltinn endað í eigu krakka á svipuðum aldri og Najac. Þegar boltinn var orðinn snjáður, glansinn farinn af leðrinu og saumarnir byrjaðir að gliðna var hann gefinn til góðgerðarsamtaka sem sendu hann til baka í heimaland Najac. Það var undarlegt að hugsa til þess að börnin sem þurftu að þræla við að sauma saman bolta allan daginn, fengu fyrst að leika sér með boltana þegar einhverjir aðrir höfðu óhreinkað og skemmt þá. Og þeir sem gáfu boltana eftir að þeir skemmdust töldu sig vera að gera góðverk.

Þar sem Najac lét hugann reika um hringferð boltans heyrði hann skyndilega öskur verkstjórans. Najac vissi sem var, hugrenningar hans höfðu kostað hann hádegismatinn. Þeir sem slógu slöku við í verksmiðjunni fengu ekkert að borða í hádeginu.

Það sem verra var, Najac myndi ekki geta tekið neina afganga heim til að gefa litlu frænku sinni sem bjó ásamt honum hjá fjarskyldum ættingjum í borginni.
Það var nefnilega ekki verst að fá ekkert að borða í heilan dag, heldur að vita til þess að dagdraumarnir hans bitnuðu á öðrum.

Popptengingar

Biggi Em – Rétt eða rangt

Biggi Em virðist hallast að því að rétt og rangt skipti ekki miklu máli. Textinn snýst fyrst og fremst um hann sjálfan og eigin líðan. Mælikvarðinn á rétt og rangt er þannig fyrst og fremst hvernig honum líður sjálfum. Við virðumst skv. hugmyndum Bigga Em vera mælikvarðinn á rétt og rangt. Þessi nálgun er mjög algeng í rappi (og hjá unglingum) og ekki bara á Íslandi.

Hér gæti verið spennandi að fá þátttakendur til að ræða um hvers vegna Biggi Em, kallar lagið rétt og rangt. Eins má fá þátttakendur til að hugsa um hvernig þau skilgreina rétt og rangt. Byggir hugmyndin um rétt og rangt kannski aðallega á orðunum „af því bara?“