Basar KFUK hefur verið fastur liður í upphafi aðventu í Reykjavík í ríflega 100 ár. Basarinn gegnir mikilvægu hlutverki í fjáröflun fyrir starfsemi KFUM og KFUK, en allur ágóði af honum rennur til starfsemi félagsins. Basarinn er orðinn vel þekktur fyrir fallegt og vandað handverk KFUK-kvenna, og ýmislegt ljúffengt góðgæti sem þær hafa bakað af kunnri færni.
Á boðstólnum eru handgerðir hlutir, jólaskraut, dúkar, leikföng, fatnaður og að sjálfsögðu heimabaksturinn, en KFUK- konur eru þekktar fyrir gómsætar jólasmákökur, bollur og tertur.
Á basardeginum er hægt að kaupa nýbakaðar ilmandi vöfflur, kaffi og kakó.
Tekið er við gjöfum á basarinn í húsi KFUM og KFUK á Holtavegi 28 í vikunni áður en basarinn er haldinn. KFUK-konur hvetja alla til að styðja við framtakið og láta gott af sér leiða með því að gera eitthvað sem hægt er að selja á basarnum: kökur af öllum gerðum og stærðum, sultur eða annað matarkyns.
Allir eru hjartanlega velkomnir á Basar KFUK, sem er kjörið tækifæri til að styðja við starfsemi félagsins, en um leið festa kaup á fallegu handverki og gómsætu góðgæti, rétt áður en aðventan gengur í garð.