Formlegt boð á aðalfund KFUM og KFUK á Íslandi.

Aðalfundur KFUM og KFUK á Íslandi fer fram laugardaginn 6. apríl 2024 kl. 10:00 – 14:00.

Fundurinn fer fram í húsi félagsins að Holtavegi 28 í Reykjavík.

Dagskrá: Hefðbundin aðalfundarstörf.

Allir fullgildir og skuldlausir félagar í KFUM og KFUK á Íslandi hafa atkvæðisrétt á fundinum.

Félagsfólk er hvatt til að fjölmenna.

 

Tillögur að lagabreytingum:

Á aðalfundi KFUM og KFUK á Íslandi 6. apríl 2024 mun stjórn KFUM og KFUK leggja til eftirfarandi breytingar á lögum félagsins:

 

Tillaga um breytingu á grein 3.b.

Núverandi grein: b. Félagi í KFUM og KFUK er sérhver sá sem gengið hefur í félagið, er orðinn átján ára, tilheyrir evangelískri lútherskri kirkju, hefur staðið skil á félagsgjaldi og vill hlýða lögum félagsins og venjum. Félagi telst fullgildur félagi þegar hann hefur verið í félaginu í a.m.k. fjórar vikur.

Verði eftir breytingu: b. Félagi í KFUM og KFUK er sérhver sá sem gengið hefur í félagið, er orðinn átján ára eða verður átján ára á árinu, tilheyrir evangelískri lútherskri kirkju, hefur staðið skil á félagsgjaldi og vill hlýða lögum félagsins og venjum. Félagi telst fullgildur félagi þegar hann hefur verið í félaginu í a.m.k. fjórar vikur.

Rök: Á síðustu árum hefur hátíðar- og inntökufundur verið haldinn að hausti til og samhliða gert átak í að gera ungmenni sem aldur hafa að fullgildum félögum. Samkvæmt núverandi lögum þurfum við að miða við 18 ára afmælisdaginn. Með þessari breytingu geta ungmennin sem fædd eru seint á árinu fylgt sínum árgangi. Við teljum það farsælla fyrir þau sjálf og fyrir félagið. Þá er líka viss hætta á að við hreinlega missum af þeim, ef þau þurfa að bíða í heilt ár og ganga inn með næsta árgangi.

 

Tillaga um breytingu á grein 4.b.

Núverandi grein: b. Í stjórn KFUM og KFUK sitja átta aðalmenn, fjórir af hvoru kyni og tveir varamenn, karl og kona. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum og kýs formann, varaformann, ritara og gjaldkera. Aðrir stjórnarmenn eru meðstjórnendur. Leitast skal við að jafnvægi sé gætt milli kynjanna í skipun embætta innan stjórnar. Haga skal kosningu þannig að tveir karlar og tvær konur gangi úr stjórninni á hverjum aðalfundi.

Verði eftir breytingu: b. Í stjórn KFUM og KFUK sitja átta aðalmenn, að hámarki fjórir af sama kyni og tveir varamenn, ekki af sama kyni. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum og kýs formann, varaformann, ritara og gjaldkera. Aðrir stjórnarmenn eru meðstjórnendur. Leitast skal við að jafnvægi sé gætt milli kynja í skipun embætta innan stjórnar. Á hverjum aðalfundi ganga fjórir stjórnarmenn úr stjórn og skal haga kosningu þannig að sem mest jafnvægi sé á milli kynja.

Rök: Samhliða því að við viljum halda kynjajafnvægi í stjórninni, verðum við að gera ráð fyrir fólki sem skilgreinir sig hvorki karl né konu.

 

Tillaga um breytingu á grein 6.g.

Núverandi grein: g. Kjörgengir í stjórn og sem skoðunarmenn reikninga eru fullgildir félagar sem hafa verið í félaginu í a.m.k. tvö ár samfleytt til þess dags sem kosning fer fram, sjá þó c-lið 4. gr.

Verði eftir breytingu: g. Kjörgengir í stjórn og sem skoðunarmenn reikninga eru fullgildir félagar, sjá þó c-lið 4. gr.

Rök: Samkvæmt núverandi lögum þarf fólk að hafa verið skráðir félagar í tvö ár til að vera gjaldgengt í stjórn. Þetta ákvæði getur og hefur flækist fyrir þegar við höfum hæfan og áhugasaman einstakling sem á fullt erindi í stjórnina. Upphaflega var þetta ákvæði hugsað sem öryggisventill, að utan að komandi fólk gæti ekki fyrirhafnarlaust gengið í félagið með það að markmiði að yfirtaka stjórn þess. Það er góð hugsun, en á móti erum við með fleiri öryggisventla til að sporna við slíku t.d.:   1. Einstaklingur þarf að vera skráður í fjórar vikur samkv. grein 3.b. til að teljast fullgildur félagi. Það myndi því bæði vekja athygli og gefa fyrirvara ef verið væri að smala fólki í félagið í aðdraganda aðalfundar.

  1. Þar sem stjórnarfólk er kosið til tveggja ára, er á hverjum aðalfundi aðeins verið að kjósa helming stjórnarfólks.
  2. Kjörnefnd sem stjórnin velur og treystir til sinna starfa heldur utan um framkvæmd kosninga.
  3. Það er á endanum aðalfundur sem velur stjórnina