2. janúar 1899 stofnaði Sr. Friðrik Friðriksson KFUM á Íslandi. Upphaflega var KFUM stofnað í London árið 1844 af George Williams og í dag er KFUM eitt af elstu og útbreiddustu kristilegu æskulýðshreyfingum í heiminum. Markmið KFUM og KFUK er að vekja trú á Krist og kalla til þjónustu í ríki hans, efla trúarlíf og siðferðiskennd og hlúa að andlegri, líkamlegri og félagslegri velferð einstaklingsins. Þríhyrningurinn í merki félaganna undirstrikar þetta, en hliðar hans tákna líkama, sál og anda. Aðferðafræðin er aðferð Jesú Krists: Að mæta hverri manneskju af umhyggju, kærleika og virðingu. Til hamingju með daginn kæra félagsfólk!
Í dag er KFUM og KFUK á Íslandi með æskulýðsstarf í yfir 40 deildum víðsvegar um landið og stendur fyrir leiðtogaþjálfun og ýmislegum æskulýðsviðburðum. Félagið rekur sumarbúðirnar Vatnaskóg, Vindáshlíð, Ölver, Kaldársel og Hólavatn og leikjanámskeið eru hluti af starfinu á sumrin. Fullorðinsstarf er líka mikilvægur hluti af starfinu en aðaldeild KFUK er með fundi á þriðjudagskvöldum og aðaldeild KFUM á fimmtudagskvöldum. Tónlistarstarfið er líka mikið að eflast en Karlakór KFUM og Kvennakórinn Ljósbrot eru með vikulegar æfingar. Auk alls þessa rekur félagið leikskólann Vinagarð.