Samþykkt á aðalfundi Skógarmanna KFUM 23. mars 2017
1. grein: Heiti og tengsl við KFUM og KFUK
Flokkurinn heitir Skógarmenn KFUM og er sjálfstæð starfsgrein innan KFUM og KFUK á Íslandi.
2. grein: Skilgreining
Skógarmenn teljast allir þeir sem dvalist hafa í Vatnaskógi í skipulögðum dvalarflokki á vegum Skógarmanna KFUM í að minnsta kosti tvo sólarhringa samfleytt.
3. grein: Markmið
Markmið Skógarmanna KFUM eru:
- a) Að leiða fólk til trúar á Jesú Krist og vinna að útbreiðslu ríkis hans á grundvelli KFUM og KFUK á Íslandi.
- b) Að afla fjár í Skálasjóð Skógarmanna KFUM til hagsbóta fyrir starfið í Vatnaskógi.
- c) Að vinna að og efla áhuga á skógrækt í Vatnaskógi.
4. grein: Leiðir að markmiðum
Skógarmenn KFUM vinna að markmiðum sínum með skipulögðum dvalarflokkum, mótum, útgáfu- og fræðslustarfi, fundarhöldum, fjáröflun, skógrækt og á annan þann hátt sem stjórnin ákveður hverju sinni í samræmi við markmið þessara laga.
5. grein: Skipan stjórnar
Stjórn Skógarmanna KFUM, skal skipuð sjö fullgildum félögum í KFUM og KFUK á Íslandi og tveimur til vara. Stjórn KFUM og KFUK á Íslandi skipar einn stjórnarmann til eins árs. Sex aðalmenn skulu kjörnir til tveggja ára á aðalfundum Skógarmanna KFUM á þann hátt að þrír aðalmenn gangi úr stjórninni hverju sinni. Varamenn skulu kjörnir til eins árs á aðalfundi Skógarmanna KFUM. Áður en kosið er um varamenn skal niðurstaða kosninga aðalmanna liggja fyrir. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum.
6. grein: Kjörnefnd
Stjórn Skógarmanna KFUM, skipar í janúar ár hvert þrjá einstaklinga í kjörnefnd og skulu þeir allir vera fullgildir félagar í KFUM og KFUK á Íslandi og utan stjórnar Skógarmanna KFUM. Hlutverk kjörnefndar er að setja upp kjörseðil með allt að tíu einstaklingum, en á aðalfundi má stinga upp á fleirum.
7. grein: Boðun aðalfundar og dagskrá
Aðalfundur skal haldinn fyrir lok apríl ár hvert og boðaður félögum í KFUM og KFUK á Íslandi með minnst viku fyrirvara en einnig á opinberum vettvangi með minnst sólarhrings fyrirvara. Atkvæðisbærir eru fullgildir félagar í KFUM og KFUK á Íslandi.
Á aðalfundi skal eftirfarandi vera á dagskrá:
a) Starfsskýrsla stjórnar lögð fram til umræðu og afgreiðslu.
b) Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til umræðu og afgreiðslu.
c) Afgreiðsla lagabreytinga, samanber 10. grein.
d) Stjórnarkjör, samanber 5. og 6. grein.
e) Kjör skoðunarmanns reikninga og annars til vara til eins árs. Stjórn KFUM og KFUK á Íslandi skipar einnig skoðunarmann reikninga til eins árs.
f) Almenn umræða um stefnu og starf Skógarmanna KFUM í Vatnaskógi
8. grein: Hlutverk stjórnar
Stjórnin undirbýr starf Skógarmanna KFUM og sér um allar framkvæmdir sem markmið flokksins útheimtir.
Formaður hefur forgöngu um störf stjórnar og boðar hana til fundar svo oft sem þurfa þykir. Ritari heldur gjörðabók og færir í hana samþykktir stjórnarfunda og aðalfunda og annað sem máli skiptir í umræðum. Hann tekur saman starfsskýrslu stjórnarinnar fyrir hvern aðalfund.
Gjaldkeri fylgist með reikningshaldi og fjárhagsstöðu starfsins. Hann hefur umsjón með Skálasjóði Skógarmanna KFUM og öðrum sjóðum í vörslu flokksins og leitast við að ávaxta þá á sem hagkvæmastan hátt. Eigi má ávaxta sjóði Skógarmanna KFUM nema í bönkum og skráðum verðbréfum. Þó skal stjórninni heimilt, með samþykki stjórnar KFUM og KFUK á Íslandi, að koma sjóðum flokksins fyrir á annan hátt ef hún telur það nauðsynlegt fyrir öryggi sjóðanna eða af öðrum brýnum ástæðum. Aldrei má veita lán úr sjóðum Skógarmanna KFUM til einstaklinga eða út fyrir raðir KFUM og KFUK á Íslandi.
9. grein: Ráðstöfun eigna
Leggist flokkurinn niður skal stjórn KFUM og KFUK á Íslandi ráðstafa eignum hans.
Skógarmenn KFUM geta ekki gengið úr KFUM og KFUK á Íslandi með eignir sínar.
10. grein: Lagabreytingar
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og þurfa 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna að samþykkja lagabreytingar. Tillögur um lagabreytingar skulu berast stjórn Skógarmanna KFUM skriflega eigi síðar en mánuði fyrir aðalfund. Þær skulu liggja frammi í aðalstöðum KFUM og KFUK á Íslandi viku fyrir aðalfund. Lagabreytingar öðlast því aðeins gildi að stjórn KFUM og KFUK á Íslandi samþykki þær.